Mannkynið byggir afkomu sína alfarið á þjónustu vistkerfa, en stendur nú frammi fyrir umfangsmikilli hnignun þeirra. Meginorsökin er bruni jarðefnaeldsneytis og ósjálfbær nýting náttúruauðlinda. Þessi hnignun kemur fram í hnattrænum loftslagsbreytingum, hnignun landgæða og líffræðilegrar fjölbreytni og þar af leiðandi hnignandi vistkerfisþjónustu. Til að bregaðast við þessari vá og þeim vítahring sem við erum komin í hefur alþjóðasamfélagið gert með sér þrjá mikilvæga samninga sem styðja hver við annan, loftslagssamninginn, eyðimerkursamninginn og síðast en ekki síst samninginn um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Því miður gengur okkur hægt að ná markmiðum þeirra.
Málið er brýnt og hver og einn þarf að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. Stefnumörkun stjórnvalda er lykilatriði og að sú stefnumörkun sé byggð á sem víðtækastri vísindalegri þekkingu. Mitt fræðasvið, vistfræðin, snýr að því að rannsaka hvernig loftslagsbreytingar og nýting náttúruauðlinda hafa áhrif á vistkerfin, bæði með tilliti til bindingar og losunar gróðurhúsalofttegunda og líffræðilegrar fjölbreytni. Það sem vistfræðin leggur fram er meðal annars þekking á því hvernig má draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá illa förnum vistkerfum, til dæmis með endurheimt, hvernig má vernda heilbrigð vistkerfi og stuðla að aukinni kolefnisbindingu með sjálfbærri nýtingu lands. Vistkerfi er hins vegar afar flókið fyrirbæri þar sem ótalmargir þættir spila saman og því getur reynst vandasamt að spá fyrir um viðbrögð vistkerfa við breytingum.
Þó málið sé brýnt megum við ekki flýta okkur um of og eiga það á hættu að ný og jafnvel ófyrirséð vandamál skapist eins og til dæmis hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og annarrar vistkerfisþjónustu.
Það er því mikilvægt að ekki sé farið í aðgerðir í loftslagsmálum sem miða að því að auka bindingu kolefnis í vistkerfum ef ekki liggja fyrir nægilega ítarlegar rannsóknir. Þó málið sé brýnt megum við ekki flýta okkur um of og eiga það á hættu að ný og jafnvel ófyrirséð vandamál skapist eins og til dæmis hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og annarrar vistkerfisþjónustu. Með þetta í huga tel ég almennt séð afar óheppilegt að byggja markað með kolefniseiningar á bindingu koltvísýrings í vistkerfum.
Á hinn bóginn bendir allt til að þess að markaður með kolefniseiningar sem bundnar eru í vistkerfum sé kominn til þess að vera, bæði hér á landi sem annars staðar, og þá þarf að sjá til þess að vel sé staðið að verki. Almennt er talið að binding kolefnis í vistkerfum til lengri tíma sé best tryggð með endurheimt náttúrulegra vistkerfa, hvort sem það eru skógar, votlendi eða eitthvað annað, verndun þeirra sem fyrir eru og sjálfbærri nýtingu lands.
Það er því mikilvægt að slíkir kolefnismarkaðir taki mið af sem fjölbreyttustum lausnum.
Þar að auki liggja yfirleitt ekki fyrir rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni vistkefisins sem plantað er í
Hér á landi hafa hins vegar áætlanir um slíkan kolefnismarkað einkum verið tengdar plantekruskógrækt í stórum stíl, jafnvel í fullkomlega heilbrigðum vistkerfum (kolefnisrík og tegundaauðug), þar sem notaðar eru framandi og ágengar tegundir (til dæmis stafafura), tegundir sem dreifa sér yfir náttúruleg vistkerfi, breyta þeim á óafturkræfan hátt og draga þar með úr líffræðilegri fjölbreytni íslenskrar náttúru. Þar að auki liggja yfirleitt ekki fyrir rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni vistkefisins sem plantað er í, hve mikið kolefni var bundið í vistkerfinu áður en ráðist var í aðgerðina, hve mikið losnaði við undirbúning skógræktarinnar eða hver heildarbinding kolefnis í vistkerfinu verður til lengri tíma litið.
Það getur reynst kostnaðarsamt að eiga við þau vandamál sem skapast af þessum völdum og aðkallandi að sveitarfélög og önnur stjórnvöld grípi hér inn í. Það er því ánægjulegt til þess að vita að hin sameinaða stofnun, Land og skógur, vinnur nú markvisst að því að skilgreina gæðaviðmið og staðla sem snúa að skógrækt og endurheimt vistkerfa sem kunna að skapa hvata til fjölbreyttari landnýtingar sem munu gagnast bæði sem loftslagsaðgerðir og til verndar líffræðilegrar fjölbreytni.
Ég er sérstaklega hrifin af þeirri vangaveltu að það geti verið varhugavert að byggja markað með kolefniseiningar á bindingu koltvísýrings í vistkerfum. Það gæti fræðilega farið úr böndunum og gert illt verra ef bindingin er óumhverfisvæn. Það er erfitt að stöðva óumhverfisvænar athafnir ef það er hægt að græða á þeim.
En ég velti fyrir mér hvaða áhrif það myndi hafa á losunarbókhaldið að breita aðeins hvað telst til kolefnisbindingar og líta ekki á skógrækt sem kolefnisbindingu heldur frekar líta á það sem kolefnisbindingu þegar viðurinn úr skóginum er nýttur í eitthvað varanlegt. Það mætti gjarnan velta þessu fyrir sér.
Kolefnisbinding í skógi er í rauninni tímabundin geymsla á kolefni svipað og geymsla á olíu í olíutanki. Það væri í rauninni jafn sanngjarnt að greiða fyrir kolefnisbindinguna sem fellst í því að geyma olíu í tönkunum í Hvalfirði eins og að greiða fyrir það að geyma kolefni í skógi.
Frá því greinin var birt, hafa flestar sjálfsánu stafafururnar í Steinadal verið felldar og þær seldar sem jólatré.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september 2024, hvetur vísindamenn með akademískar kennslustöður við innlenda háskóla til þess að vanda orðræðu sína opinberlega og í fjölmiðlum. Gæta verður hlutlægni og forðast bæði tilhæfulausa sleggjudóma og að vísindalegri þekkingu og eigin skoðunum sé blandað saman. Til að minnka upplýsingaóreiðu á útgangspunkturinn alltaf að vera gagnreynd vísindaleg þekking eins og hún birtist í niðurstöðum ritrýndra rannsókna.
Greinargerð
Hér á landi ríkir mikið og almennt traust til vísindanna og eru háskólakennarar með vísindaþekkingu í hávegum hafðir í fjölmiðlum - sem óháðir álitsgjafar. Að undanförnu hafa nokkrir háskólakennarar farið mikinn í fjölmiðlum og beint þar spjótum sínum að skógrækt í landinu. Hafa sumir þeirra haldið því fram að lággróður í mólendi bindi mun meira kolefni en skógur. Því sé nýskógrækt á skóglausu landi til þess eins fallin, að auka hnattræna hlýnun. Aðrir hafa haldið því fram að loftslagsávinningurinn af því að rækta skóg sé enginn, vegna þess að endurskin frá ljósleitu, sinugrónu mólendi sé svo mikil, að dökkleitari skógur valdi meiri hlýnun andrúmslofts en sem nemur því sem skógur bindur af kolefni. Enn fremur er því haldið fram, að jarðvinnsla í undanfara nýskógræktar, svo sem herfing, valdi svo mikilli losun koltvísýrings,að kolefnisjöfnuður aðgerða leiði til lítils sem engins ávinnings í loftslagsmálum . Enn fremur er því haldið fram, að ræktun skóga á brotabroti af þurrlendi Íslands skapi ógn við líffræðilega fjölbreytni. Í mörg ár hafa sumir hinna sömu haldið á lofti þeirri órökstuddu fullyrðingu, að innfluttar trjátegundir séu “ágengar, framandi lífverur” í gróðurríki Íslands sem valdi tjóni á líffræðilegri fjölbreytni.
Þetta eru dæmi um upplýsingaóreiðu sem gengur þvert gegn viðurkenndri þekkingu sem og niðurstöðum og ályktunum af hérlendum og erlendum rannsóknum á þessum sviðum sem birst hafa í alþjóðlegum, ritrýndum vísindatímaritum með jafningjamati. Vísindamönnum sem öðrum er að sjálfsögðu frjálst að hafa og halda fram hvaða skoðunum sem er um skógrækt, en stöðu sinnar vegna ættu þeir að halda sig við gagnreynd vísindi í opinberri umræðu og forðast hlutdrægni.