Stúlkan sem var stungin með hnífi í miðbæ Reykjavíkur á menningarnótt er látin. Hún hét Bryndís Klara Birgisdóttir og var 17 ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
„Fjölskylda Bryndísar Klöru vill koma á framfæri þakklæti til allra sem reyndu eftir fremsta megni að bjarga lífi Bryndísar Klöru, sérstaklega starfsfólki Landspítalans og þeim sem komu að fyrstu hjálp á vettvangi. Hjálp þeirra er ómetanleg,“ segir í tilkynningunni.
Í samtali við Heimildina fyrir helgi sagði Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, að rannsókn málsins miðaði vel, hún sé umfangsmikil og hafi verið í algjörum forgangi hjá lögreglu frá því að hún kom upp.
Tvö önnur ungmenni á svipuðum aldri voru einnig stungin í árásinni en 16 ára drengur var handtekinn á menningarnótt, grunaður um árásina, og hefur hann verið í gæsluvarðhaldi síðan.
Athugasemdir