Í ár þurfti ég að vera í heimalandinu mínu í nokkurn tíma. Eins og hugsanlega allir íslenskir innflytjendur gera fór ég til alls konar lækna. Þeir spurðu mig ýmissa spurninga um einkenni, blóðprufur, sjúkrasögu. Og það sem greip athygli mína mest af öllu var að enginn þeirra spurði mig hvaðan ég væri, hvað ég geri hér. Ég þurfti ekki að útskýra tilverurétt minn fyrir ókunnugri manneskju, eins og svo oft á Íslandi. Það var eins og ég tilheyrði, þrátt fyrir að hafa fyrir mörgum árum pakkað lífi mínu í ferðatösku og flutt af því að mér fannst ég ekki tilheyra.
Ég skrifa þennan pistil á tólf ára afmæli flutnings míns til Íslands og þessi spurning eltir mig enn. Hvaðanertu spyr ókunnugt fólk mig eins og það sé ekkert annað umræðuefni í boði, eins og fólk geti ekki beðið eftir að setja mig í box. Hvaðanertu er eins og álög sem eyðileggja tálsýn um að maður tilheyri.
„ Svo virðist sem meðan ég tala íslensku með hreim sé ég fyrst og fremst útlendingur, ekki einu sinni innflytjandi“
Í íslenskri málfræði telst sagnorðið tilheyra ekki sem ópersónulegt. Ég tilheyri. Þótt mér finnist oft að ég ætti frekar að segja mig tilheyrir, því ég hef á tilfinningunni að það sé ekki ég sem geri það, heldur sé það gert við mig. Þar sem ég er andlag, ekki frumlag. Ég veit ekki hvað ég get gert meira til að tilheyra en svo virðist sem meðan ég tala íslensku með hreim sé ég fyrst og fremst útlendingur, ekki einu sinni innflytjandi.
Maður yfirgefur heimalandið sitt sjaldan nema sambandið við það sé flókið og mér finnst hollt að hafa það í huga og velta stundum fyrir sér hvort það sé vert að seðja forvitni sína með því að hitta snöggan blett á ókunnugri manneskju. Hvert mun samtalið leiða ef viðkomandi er frá Ísrael, Rússlandi, Palestínu, Bandaríkjunum eða Úkraínu? Og er víst að viðkomandi vilji fara þá leið? Prófið einu sinni eða tvisvar – þegar þið heyrið hreim – að stoppa aðeins – og ekki spyrja hvaðanertu. Ég lofa að það verður frelsandi.
Athugasemdir