Stjórnmálamenn hreykja sig gjarnan af því að jöfnuður sé mikill á Íslandi. Á mælikvarða Gini er ójöfnuður tekna með því lægsta sem þekkist innan OECD. Fyrir þessu eru einkum tvær ástæður, áherslur verkalýðshreyfingar á launahækkanir í kjarasamningum og há atvinnuþátttaka launafólks. Velta má fyrir sér hvort stjórnmálamenn eigi heiðurinn af þeirri stöðu.
Ójöfnuðurinn og eignafólkið
Verkalýðshreyfingin semur um laun í kjarasamningum en hefur minni áhrif á skiptingu eigna, hún er á ábyrgð stjórnvalda. Staðreyndin er sú að eignum er skipt mun ójafnar heldur en tekjum og sá ójöfnuður mælist ekki í hefðbundnum mælingum. Í skýrslu ASÍ frá árinu 2021 var þannig bent á að Gini stuðullinn á mælikvarða tekna væri 0,44 en á mælikvarða eigna væri hann 0,77. Það þýðir að efstu 10 prósentin eiga 31% af tekjunum en 56% af eignunum. Þær tölur segja hins vegar bara brot af sögunni því talið er að eignir í skattaskjólum geti numið um fjórðungi landsframleiðslu, langt um meira en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.
Ójöfnuðurinn og skattkerfin tvö
Ein af ástæðum þess að ójöfnuður er meiri á mælikvarða eigna er að hér í landi eru tvö skattkerfi. Skattkerfi launafólks og skattkerfi fjármagnseigenda. Í skattkerfi launafólks er greitt útsvar til sveitarfélags og skattþrep hækka með vaxandi tekjum. Skattkerfi fjármagnseigenda er mun flóknara og breytilegt eftir því hvort aðilar eru einstaklingar eða með fyrirtæki. Fjármagnstekjur eru skattlagðar með lægra hlutfalli en launatekjur en til viðbótar gerir hátt flækjustig að verkum að ýmsar glufur eru til staðar fyrir fjármagnseigendur sem gerir þeim kleift að greiða lægri skatta.
„Ísland hættir að vera aðlaðandi staður fyrir ungt fólk“
Í fyrrgreindri skýrslu ASÍ var bent á að atvinnurekendur gætu ranglega talið fram launatekjur sem fjármagnstekjur og komist hjá skattlagningu. Á þeim tíma var metið að það kostaði ríkissjóð 3–8 milljarða á ári. Þetta er einungis eitt dæmi, en nefna mætti líka að aðilar með fjármagnstekjur greiða ekki útsvar til sveitarfélaga, eða hvernig aðilar sem fjárfesta í viðbótaríbúðum geta notið undanþágu frá skattlagningu söluhagnaðar, eða ríflegs skattaafsláttar af leigutekjum.
Óhjákvæmilegt er að nefna tregðu stjórnvalda til að skapa ramma utan um skattlagningu auðlindarentu hér á landi. Bara í sjávarútvegi er metið að auðlindarenta nemi 30–80 milljörðum á ári. Á seinni árum hefur iðnvætt fiskeldi fengið að starfa í landinu án þess að eðlilegur lagarammi hafi verið dreginn um þann rekstur. Velta má fyrir sér hvernig samfélag væri í Noregi ef þeir hefðu farið íslensku leiðina utan um olíuframleiðslu og skiptingu auðsins sem hún skapar.
Nú er hröð uppbygging fiskeldis í fullum gangi og stjórnvöld boða vindmyllugarða víða um land. Enn og aftur virðist stefnan sú að arður af sameiginlegum auðlindum lendi óskiptur í vasa fjármagnseigenda.
Furðu vekur hversu lítil umræða fer fram í samfélaginu um áform um nýtingu vindorku. Stjórnmálamenn hafa margir hverjir sýnilega engan áhuga á málinu og virðast ekki orka að kynna sér efnisþætti þessara stórvarasömu áforma sem eru liður í einkavæðingu mikilvægustu innviða með tilheyrandi skaða fyrir samfélagið og almenning allan.
Ójöfnuðurinn og tækifærin
Á sama tíma og skattalegir hvatar auðvelda eignafólki húsnæðiskaup er raunveruleiki margra sá að festast á leigumarkaði. Þrátt fyrir glærusýningar og margboðaðar áætlanir til að vinna bug á því ófremdarástandi sem ríkir í húsnæðismálum er staðan óbreytt. Stjórnvöldum virðist öldungis um megn að rjúfa vítahring verðbólgu, framboðsskorts á lóðum og hávaxtastefnu. Siðlaust brask með lóðir fær að viðgangast. Sveitarfélög viðhalda lóðaskorti þar sem miklar hækkanir fasteignaskatta eru orðnar þeim mikilvæg tekjulind. Með ólíkindum er að stjórnmálamenn og flokkar þeirra leyfi sér að ganga fram með þessum hætti gagnvart almenningi í landinu.
„Ætlar þjóðin að sætta sig við þessa aðför fjármagnseigenda og valdastéttarinnar að þeim gildum sem samfélag okkar hefur verið reist á?“
Algjört neyðarástand í húsnæðismálum framkallar beinlínis ójöfnuð í samfélaginu. Birtingarmyndir hans eru margar. Nefnt var að margir festist á leigumarkaði þar sem þeirra býður óöryggi og erfið afkoma. Unga fólkinu er skipulega haldið utan húsnæðismarkaðar og aðeins þau sem njóta aðstoðar ættmenna eiga möguleika á að stofna heimili. Þau sem ekki eru í þeirri stöðu að fá notið fjárhagsaðstoðar ættmenna
eru þannig svipt tækifærum í lífi sínu.
Ísland hættir að vera aðlaðandi staður fyrir ungt fólk. Mikilvægt er að almenningur geri sér ljósa þá beinu ógn við samfélagið, framtíð þess og velferð, sem fólgin er í þessari staðreynd.
Það er beinlínis skammarlegt og óboðlegt með öllu að stjórnvöld gangi þannig fram gagnvart fólkinu í landinu og grafi undan því velferðarsamfélagi sem hér hafði tekist að mynda með gríðarlegum fórnum og vinnu þeirra sem á undan okkur fóru.
Ætlar þjóðin að sætta sig við þessa aðför fjármagnseigenda og valdastéttarinnar að þeim gildum sem samfélag okkar hefur verið reist á?
Höfundur er forseti ASÍ
Athugasemdir (3)