Einfalda leiðin til að eignast raunverulega peninga á Íslandi er að eiga ríka foreldra. Eða kvóta. Á hátekjulista Heimildarinnar, þar sem tekjuhæsta eina prósentið er kortlagt út frá launa- og fjármagnstekjum, er fólkið sem á, selur eða erfir kvóta ansi fyrirferðarmikið. Og það lætur til sín taka í samfélaginu: „Ég er að græða meira en þið,“ sagði yngsti maðurinn á listanum og sveiflaði seðlabúntinu. Hann heitir Flosi Valgeir Jakobsson og er 21 árs gamall með 1,1 milljón í mánaðarlaun, auk þess sem hann fékk 35 milljónir í fjármagnstekjur á árinu, rétt tæpar þrjár milljónir á mánuði.
Með fjórar milljónir á mánuði er Flosi svo sannarlega að græða meira en flestir. Að meðaltali eru forstjórar og aðalframkvæmdastjórar með 2,3 milljónir á mánuði. Heildarlaun eru að meðaltali 935 þúsund, en hafa verður í huga að forstjórarnir draga töluna upp og meirihluti launafólks er með mánaðarlaun sem ná því ekki. Aðspurð hversu háa upphæð fólk þyrfti að fá í mánaðarlaun til að geta lifað þægilegu lífi var svarið um 800 þúsund krónur eftir skatt, eða 1,2 milljónir í heildarlaun á mánuði. Sem er töluvert lægri upphæð en Flosi fær á mánuði. Fyrir það að fæðast inn í rétta fjölskyldu.
Faðir Flosa er Jakob Valgeir Flosason, einn auðugasti útgerðarmaður landsins, með rúmar 290 milljónir í fjármagnstekjur á árinu, eða tæpar 25 milljónir á mánuði, sem leggjast ofan á 2,2 milljóna mánaðarlaun. Samtals fær hann því 27,2 milljónir á mánuði. Sem nemur 35-földum meðallaunum kennara. Eða launum 44,5 einstaklinga í fiskvinnslu, samkvæmt meðal heildarlaunum fullvinnandi í fiskvinnslu árið 2021. Bent hefur verið á að fleiri vinnustundir liggi að baki meðallaunum fiskvinnslufólks en almennt gengur á vinnumarkaði og að munurinn nemi rétt tæpum þremur vinnudögum á mánuði. Og Jakob Valgeir er bara í 76. sæti á listanum yfir tekjuhæstu Íslendingana.
En fiskvinnslufólk eða kennarar raða sér ekki á lista yfir tekjuhæsta eina prósent Íslendinga, heldur handhafar kvótans. Útgerðarfélag Jakobs Valgeirs á 1,52 prósent úthlutaðra fiskveiðiheimilda á yfirstandandi fiskveiðitímabili, 6 milljónir þorskígilda. Þannig endaði þorskurinn í sjónum – eða arðurinn af honum – í vasa sonarins, rapparans unga. Í formi seðlabúnta sem hann veifar framan í heiminn. „Þeir tala um þúsundkall, ég tala um milljónir,“ rappar Flosi, klæddur í Gucci-galla, skreyttur skartgripum og akandi um á lúxusbílum, með þykkt seðlabúnt af fimm þúsund köllum. „Ég elska seðla og ég elska líka að eyða þeim, svo opna budduna og gef mér þessa seðla.“
Fiskibátur sokkinn í flæðarmálinu
Samfélagið gaf honum þessa seðla. Alþingi steig afdrifaríkt skref í átt að auknum ójöfnuði með því að festa kvótakerfið í sessi árið 1991 og einkavæða í raun verðmætustu auðlind þjóðarinnar. Frá þeim tíma hefur auðurinn færst á sífellt færri hendur og allar tilraunir til að spyrna við þeirri þróun hafa mátt sín lítils. Á meðan fjaraði undan litlum sjávarbyggðum, sem berjast enn fyrir lífi sínu og leita nú að nýjum tilgangi.
Á Flateyri lá fiskibátur sokkinn í flæðarmálinu þegar blaðamenn Heimildarinnar bar að garði síðasta vetur. Af 82 húsum í þorpinu stóðu 40 tóm. Þrátt fyrir að 190 séu skráðir til lögheimilis á Flateyri búa þar ekki nema um 100 manns í raun og veru.
Er það hafið eða fjöllin
Sem laða mig hér að
Eða, er það kannski fólkið
Á þessum stað, á þessum stað,
söng aðkomumaður sem tók ástfóstri við þorpið á uppgangstíma þess en er nú einn eftir í götunni. Flestir fóru fyrir löngu síðan og húsin eru komin í eigu fólks sem heimsækir þorpið í smástund yfir sumartímann. Flateyri er bara eitt af mörgum byggðarfélögum sem hafa þurft að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga, en heimamenn hafa enn trú á að tækifærin munu birtast þeim: „Við erum líka búin að átta okkur á því að það þýðir ekkert endalaust að horfa bara niður á bryggju og bíða eftir því að einhver komi með kvótann og fari að gera eitthvað í fiskvinnslu.“
Bankarnir voru bara með
Handhafar kvótans þurfa ekki að hafa áhyggjur. Í þessum fjölskyldum rennur arðurinn af auðlindinni á milli kynslóða. Nánast allir undir þrítugu á hátekjulista Heimildarinnar eiga ríka foreldra. Að minnsta kosti átta af tíu yngstu einstaklingunum á listanum eiga foreldra sem eru tengdir sjávarútvegi.
„Ég fæðist bara inn í þessa fjölskyldu og ég ræð engu“
Á þeim tíma sem yngsti einstaklingurinn á listanum steig fyrst fram sem rappari hafði útgerðarfélag fjölskyldunnar hagnast um tvo milljarða á rekstrarárinu. Þá var tæpur áratugur liðinn frá því að félagið var fært yfir á nýja kennitölu, til að losna undan áhvílandi skuldum og bjarga verðmætum. „Þetta er bara okkar mál,“ sagði Flosi Valgeir Jakobsson, afi og nafni hins unga manns. Félagið var í eigu feðga, Flosa og sonar hans, Jakobs Valgeirs Flosasonar. Og þeir tóku fram að þeir höfðu fært félagið á nýja kennitölu með samþykki bankans. „Þeir voru bara með í þessu.“ Síðar var 21 milljarðs kröfu lýst í þrotabúið, en skip og aflaheimildir voru auðvitað löngu seldar úr þessu félagi í annað í eigu Jakobs Valgeirs. Á endanum fengust ekki nema 97 milljónir upp í 21 milljarðs kröfur.
Það breytir því ekki að Jakob Valgeir og bróðir hans hafa verið hæstir á lista yfir tekjuhæstu einstaklingana á Vestfjörðum.
Áfram haldið á nýrri kennitölu
„Drengir, sjáið ekki veisluna?“
Spurningunni varpaði þáverandi fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, fram á Alþingi árið 2007.
Frá miðjum 10. áratugnum og fram að hruni stigu stjórnvöld stærri skref í átt að nýfrjálshyggjuvæðingu samfélagsins. Íslenskir ríkisbankar voru einkavæddir, peningar flæddu um atvinnulífið með auknu aðgengi að lánsfé og krónan styrktist sem aldrei fyrr. Í íslensku samfélagi varð til ný stétt ofurríks fólks sem lék lausum hala, át gull og gerði það sem því sýndist. Ójöfnuður óx hratt. Á fimm ára tímabili frá 2005 til 2010 jukust eignir efstu tíu prósentanna úr 56 prósentum í 87 prósent.
Og þetta fólk fékk aðra meðhöndlun en aðrir í bankakerfinu. Eins og kom í ljós í kjölfar hrunsins. Einn þeirra sem lýsti því fyrir dómi var Jakob Valgeir, sem var eigandi og stjórnarformaður Stím. Þar greindi hann frá því að árið 2007 hefði æskuvinur hans, sem starfaði fyrir bankann, haft samband við hann vegna viðskipta sem fólust í því að Glitnir lánaði Stím 20 milljarða til að kaupa hlutabréf í Glitni og FL Group, með veði í hlutabréfunum. „Þetta var bara alveg sérdæmi sem Glitnir var bara með,“ útskýrði Jakob Valgeir síðar fyrir fjölmiðlum.
Í kjölfar hrunsins hófst rannsókn vegna gruns um fjármálamisferli, þrír menn voru ákærðir og dæmdir. Sjálfur var Jakob Valgeir kallaður fyrir sem vitni, þar sem hann sagðist ekki hafa sinnt skyldum sínum sem stjórnarformaður: „Ég sinnti þeim örugglega ekki vel.“ Fyrir dómi sagðist hann ekki einu sinni vita hver hefði stjórnað félaginu í raun og veru.
Þegar efnahagshrunið skall á í október 2008 námu áhættuskuldbindingar Jakobs Valgeirs ehf. og tengdra félaga um 32 milljörðum. Þegar skiptum á Stím lauk árið 2013 fengust 15 milljónir upp í 24 milljarða kröfur. Og 40 milljónir fengust upp í 2 milljarða kröfur á hendur Ofjarli, öðru félagi í eigu Jakobs Valgeirs.
Fullyrðingin um stéttlaust samfélag
Þótt því sé haldið fram í rapptexta sonarins að hann þurfi ekki að greiða skatta þá gera þeir feðgar það nú samt. Það á ekki við um alla. Það sem stingur helst á hátekjulistanum er tómið sem birtist, þar sem nöfn einstaklinga ættu að vera en eru ekki.
Hér er aðeins fjallað um sögu þeirra feðga sem sýnidæmi úr íslensku samfélagi. Sambærilegar sögur eru auðvitað mun fleiri.
Sjálfur sagðist Flosi hafa átt fyrirmynd í Gísla Pálma Sigurðssyni rappara. Hann er sonur Sigurðar Gísla Pálmasonar, sem er umsvifamikill í viðskiptalífinu og situr í ellefta sæti á hátekjulistanum. Sigurður Gísli bjó að því að faðir hans, Pálmi Jónsson, stofnaði Hagkaup. Það er einfaldlega þannig að þeir sem eru ríkir, eiga auðveldara með að verða ríkari.
Það er ekki á ábyrgð einstaklinga að hér hafi verið hannað kerfi sem hyglir hinum ríku umfram öðrum.
„Við höfum byggt hér upp stéttlaust samfélag,“ fullyrti þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra og núverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, þrátt fyrir að hér hafi verið sýnt fram á að líkur á brottfalli úr framhaldsskóla aukist á meðal þeirra sem eiga ómenntaða foreldra og eru í neðri hluta tekjudreifingarinnar, einkum þeirra sem eru í neðsta hluta hennar. Á Alþingi var bent á að þrír útgerðarmenn hefðu verið með þrjá milljarða hver í fjármagnstekjur, eða þúsundföld árslaun öryrkja, og ráðherrann spurður hvort öryrki og útgerðarmaður tilheyrðu sömu stétt, hvort hann hefði þá sýn að barn öryrkja fæðist inn í sömu stétt og barn útgerðarmanns og fái sömu tækifæri í lífinu. Viðbrögð ráðherrans voru: „Við stjórnmálamennirnir eigum ekki einu sinni að reyna að tryggja öllum nákvæmlega sömu stöðu í lífinu.“ Ein skýrasta birtingarmynd þessarar stefnu er að lægri skattur er greiddur af fjármagnstekjum en launatekjum.
Á toppi hátekjulistans í ár er Sigurjón Óskarsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, og börn hans. Samtals fékk fjölskyldan 13,5 milljarða í fjármagnstekjur á síðasta ári. Til að átta sig á samhenginu var meðaltekjum íbúa í blokk í Vestmannaeyjum flett upp. Í ljós kom að meðalmanneskja í blokkinni væri 674 ár að vinna fyrir fjármagnstekjum Sigurjóns á árinu. Sigurjón hefði vel getað haldið peningunum inni í félagi, án þess að greiða af þeim skatt. Þess í stað valdi hann að láta fjármagnstekjuskattinn renna til samfélagsins.
Í samtali við Heimildina segist dóttir hans, Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir, vera þakklát föður sínum fyrir sölu útgerðarinnar. Af því að nú getur hún helgað sig rekstri heilsugæslu í Gambíu: „Ég fæðist bara inn í þessa fjölskyldu og ég ræð engu.“
Kvótakerfið er mesti glæpur sem framinn hefur verinn á Íslandi. Og til að fremja glæp þarf glæpamenn. Hverjir eru glæpamennirnir í þessu tilfelli? Svar óskast.
hann í útgerðarfyrirtæki, svo þetta var allt ósköp létt.