Fjárfestirinn Jeremy Grantham lagði eftirfarandi þraut fyrir stærðfræðinga: Forn-Egyptar tórðu í 3000 ár sem samfélag. Ef eigur ríkisins hefðu fyrsta árið fyllt eins rúmmetra kassa – mjög varlega áætlað – hve mikið pláss hefðu eigur Egyptanna tekið 3000 árum seinna við stöðugan 4,5% hagvöxt?
Giskaðu. Svarið hér að neðan á eftir að koma þér á óvart.
Dæmið sýnir nefnilega hverslags glapræði það er að hagkerfið okkar sé drifið áfram af tálsýninni um endalausan hagvöxt. Hagvöxt sem háður er nýtingu auðlinda. Því meira eldsneyti sem er brennt, því meira af málmum sem eru unnir, land ræktað, skógar höggnir, kjöt framleitt, lundabangsar seldir – þeim mun meiri hagvöxtur.
En jörðin er ekki óþrjótandi auðlind. Samkvæmt grein í Scientific America frá árinu 2021 er ólíklegt að hægt verði að vinna nægt litíum til að viðhalda rafbílabyltingunni til margra áratuga.
Auðvitað er jörðin ekki óþrjótandi auðlind, þetta vita allir. Samt byggjum við hagkerfi okkar á þeirri hugmynd að eina leiðin til að bæta lífskjör almennings sé aukinn hagvöxtur. En hagvöxtur skilar sér ekki til allra.
„Hvar er best að búa?“
Mér verður hugsað til sjónvarpsþáttar sem ég sá fyrir nokkrum árum. Fylgst var með Íslendingum sem flutt höfðu til Spánar. Sumir sóttu í sólina, vildu prófa eitthvað nýtt, en margir fluttu einfaldlega því þeir náðu ekki endum saman heima á Íslandi. Mér er sérstaklega minnisstæð kona sem hafði borið út póst, verkað fisk, þið vitið, svona kona sem ber samfélag á bakinu – en þegar bakið bregst hefur samfélagið ekkert pláss fyrir hana.
Þátturinn hét: Hvar er best að búa? Egyptaland hið forna eftir 3.000 ár af 4,5% hagvexti hefði ekki verið sá staður. Eigur ríkisins hefðu ekki rúmast í Egyptalandi, ekki á jörðinni, tunglinu, sólinni, ekki einu sinni í sólkerfinu, þær hefðu fyllt meira en milljarð sólkerfi.
Það er táknrænt að ofurmilljarðamæringar samtímans, þessi skrípalegu afsprengi vitstola hagkerfis: Elon Musk, Jeff Bezos o.s.frv. – þegar þeir eru spurðir hvar sé best að búa er svarið einhvern veginn svona: Úti í geimnum.
Athugasemdir (2)