Í huga okkar Vinstri grænna er farsælasta undirstaða þróttmikils efnahagslífs blandað hagkerfi þar sem hin efnamestu eru skattlögð umfram hin tekjulægri. Sú stefna hefur jú skilað mestri hagsæld og jöfnuði í þeim samfélögum þar sem hún hefur verið rekin. Breiðu bökin í samfélaginu og atvinnugreinar sem standa vel þurfa að leggja meira til samfélagsins og vera stolt af því. Þá á innheimta gjalda af nýtingu sameiginlegra auðlinda að vera ein af undirstöðum fjármögnunar velferðarkerfisins.
Skattkerfið er langáhrifamesta tæki samfélagsins til að auka jöfnuð og sanngirni í samfélaginu. Ríkisstjórnin hækkaði fjármagnstekjuskatt og innleiddi þriggja þrepa tekjuskattkerfi á síðasta kjörtímabili sem voru mikilvægir liðir í því að jafna kjörin. Þá erum við Vinstri græn óhrædd við að beita skattkerfinu svo það þjóni velferðarsamfélaginu og ýmsum félagslegum markmiðum, svo sem í umhverfismálum, lýðheilsu og byggðamálum. Þar að auki teljum við löngu tímabært að tekið sé samtal um hvað sé ásættanlegur launamunur í samfélaginu. Það hefur sýnt sig að of mikill ójöfnuður, hvort sem hann er mældur í tekjum eða eignum, veldur samfélagslegu rofi milli ólíkra hópa samfélagsins. Vinna verður af öllum krafti gegn slíkri þróun. Það er hægt að gera til að mynda með hóflegum auðlegðarskatti á þau sem eiga miklar eignir eða þrepaskiptum fjármagnstekjuskatti sem ver betur ævisparnað hjá venjulegu fólki, en skattleggur auðmenn.
„Velsæld verður þó ekki aðeins mæld í hagtölum heldur einnig í því hvernig fólki líður“
Við Vinstri græn stundum velferðarpólitík og viljum að samfélagið styðji með ríkulegum hætti við þau sem á þurfa að halda, hvort sem það er í gegnum örorkulífeyri, ellilífeyri, barnabætur, atvinnuleysisbætur, námslán eða önnur tilfærslukerfi. Velsæld verður þó ekki aðeins mæld í hagtölum heldur einnig í því hvernig fólki líður. Í stjórnartíð okkar höfum við innleitt nýja velsældarmælikvarða sem meta hagsæld, félagslegan auð, kynjasjónarmið og loftslagsmarkmið. Slíkir mælikvarðar gera það kleift að byggja efnahagsstjórn á fjölbreyttari sjónarmiðum en áður hefur verið gert. Þá viljum við að kynjagleraugun séu tekin upp í öllum ákvörðunum um hagstjórnina.
Seinni hluta nýliðins vetrar var gengið fá kjarasamningum til fjögurra ára á almennum vinnumarkaði og ríkisstjórnin kom inn í það með ríflegan kjarapakka. Sá kjarapakki er sniðinn að lágtekju- og fjölskyldufólki og eykur jöfnuð og félagslegt réttlæti í samfélaginu. Kjarapakkinn í heild sinni er eins og snýttur út úr nös á vinstristefnunni og er stórt skref í átt að því að draga almennt úr fátækt á Íslandi. Má þar nefna aukningu til barnabóta, húsnæðisbóta, hækkað þak í fæðingarorlofi og viðbót í stofnframlög inn í almenna íbúðakerfið til að byggja fleiri leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir lágtekjufólk. Síðast en ekki síst þá eru gjaldfrjálsar máltíðir í grunnskólum orðnar að veruleika, sem hafa um árabil verið baráttumál okkar Vinstri grænna enda ein skilvirkasta og besta leiðin til að draga úr fátækt á meðal barna.
Vinstri græn munu halda áfram að vinna að auknum jöfnuði í samfélaginu.
Athugasemdir