Þessi grein birtist fyrir rúmlega 8 mánuðum.

Borga ungum drengjum fyrir að vinna óhæfuverkin

Glæpa­flokk­ar borga í aukn­um mæli ung­um drengj­um fyr­ir að fremja margs kon­ar óhæfu­verk, jafn­vel morð. Tveir sænsk­ir pilt­ar voru fyr­ir skömmu hand­tekn­ir í Kaup­manna­höfn eft­ir morð­tilraun.

Miðvikudagskvöldið 31. júlí sl. var gerð tilraun til að ráða mann af dögum á Blågårdsgade á Norðurbrú í Kaupmannahöfn. Tilraunin mistókst en lögreglan hefur ekki viljað veita neinar upplýsingar um þann sem fyrir árásinni varð, eða ástand hans, annað en að hann lifði af.  Daginn eftir handtók lögreglan 16 ára sænskan pilt og degi síðar annan Svía, 17 ára gamlan. Tveimur dögum síðar handtók danska lögreglan 25 ára mann og 31 árs konu, þau eru grunuð um aðild að málinu.

11 tilvik á einu ári

Í júní var 19 ára Svíi handtekinn fyrir að kasta handsprengju inn í skartgripaverslun í Valby í Kaupmannahöfn og í sama mánuði voru tveir Svíar, 15 og 16 ára handteknir fyrir morðtilraun í Brøndby skammt frá Kaupmannahöfn. Þetta eru nýjustu tilvikin þar sem ungir sænskir piltar eru fengnir, gegn borgun, til að fremja ódæði, oftast morð í Kaupmannahöfn og nágrenni. Á einu ári hafa sænskir piltar samtals 11 sinnum verið keyptir til slíkra verka í Danmörku.

Lengi verið þekkt í Svíþjóð en nýtt í Danmörku

David Sausdal afbrotafræðingur og lektor við Háskólann í Lundi í Svíþjóð sagði í viðtali við danska útvarpið, DR, að það sem nú væri að gerast í Danmörku væri vel þekkt í Svíþjóð og hefði verið svo um langt skeið. Það sem David Sausdal átti við er að glæpagengi „auglýsi“ á netmiðlum eftir ungum mönnum til að taka að sér það sem hann kallaði skítadjobb gegn greiðslu. Fram hefur komið að fyrir að ráða mann af dögum á Blågårdsgade 31. júlí áttu piltarnir að fá 200 þúsund danskar krónur (4 milljónir íslenskar) og að sögn lögreglunnar gæti upphæðin fyrir unnið verk, í mörgum tilvikum, verið mun hærri. 

Ástæðan er einföld

Frá bæjardyrum glæpasamtaka er ástæðan til að ráða unga menn til óhæfuverka einföld. Með því móti sleppa félagar í glæpasamtökum við sektir eða langa fangavist. Fyrir ungu mennina sem taka slík verk að sér eru það peningarnir sem freista og ef verkið „heppnast“ auðveldar það kannski aðild að samtökunum.

„Þetta kemur okkur í koll, við skutum okkur í fótinn“
Henrik Vigh,
prófessor í mannfræði við Hafnarháskóla

Áðurnefndur David Sausdal sagði að þessi aðferð gæti orðið til að hæna unga menn að samtökunum, menn sem kannski myndu annars ekki kynnast þessum félagsskap. Þessi aðferð glæpasamtakanna gerir lögreglunni sömuleiðis erfiðara fyrir því ungu mennirnir eru síður í þeim hópi sem hún fylgist með. Ástæða þess að leitað er til ungra manna frá Svíþjóð til að vinna óhæfuverk í Danmörku er að í Svíþjóð eru glæpasamtökin margfalt fjölmennari en í Danmörku og jafnframt miklu fleiri ungir menn sem eru til í hvað sem er, gegn greiðslu, sagði David Sausdal.

Aukin samvinna nauðsyn

Tilræðið í Blågårdsgade um síðastliðin mánaðamót vakti mikla athygli í Danmörku þótt það væri síður en svo hið fyrsta af þessu tagi. Bæði stjórnmálamenn og lögregla hafa lýst miklum áhyggjum og segja að koma verði í veg fyrir að í Danmörku skapist sama ástand og í Svíþjóð þar sem glæpaklíkur vaða uppi (orðalag dansks þingmanns) og eru margfalt fjölmennari en í Danmörku.

Torben Svarrer sem er yfirmaður þeirrar deildar lögreglunnar sem fæst við alvarleg afbrotamál, National enhed for Særlig Kriminalitet (NSK) sagði i viðtali við danska útvarpið að tilvikum þar sem ungmenni og vopn komi við sögu fari fjölgandi, án þess að það rati í fjölmiðla. Þetta sé mikið áhyggjuefni. Torben Svarrer sagði að NSK ætti gott samstarf við sænsku lögregluna, sem hefði meiri og lengri reynslu í þessum málum.

Henrik Vigh prófessor í mannfræði við Hafnarháskóla telur að stóraukin samvinna við lögreglu í öðrum löndum sé höfuðatriði í baráttunni við glæpaklíkurnar. Einkum samvinnu við Europol. Fyrirvari Dana um óhefta og fulla samvinnu í málum er varða dóms- og lögreglumál samkvæmt Maastricht samkomulaginu var samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Þetta kemur okkur í koll, við skutum okkur í fótinn,“ sagði Henrik Vigh. „Óheft og full samvinna við miðlun upplýsinga skiptir miklu og fyrirvarinn er okkur nú til trafala.“

Málið verður tekið upp í þinginu

Preben Bang Henriksen talsmaður þingflokks Venstre, eins stjórnarflokkanna, hyggst taka málið upp þegar danska þingið, Folketinget, kemur saman að loknu sumarleyfi. Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra sagði í skriflegu svari við fyrirspurn danska útvarpsins að allt yrði gert til að koma í veg fyrir að þessi óheillaþróun nái að festast í sessi. Hann muni fljótlega boða ríkislögreglustjóra og yfirmann NSK á sinn fund og ef í ljós komi að lögreglan þurfi aukinn mannafla og viðbúnað til að bregðast við þessari tegund afbrota muni ekki standa á aðstoð stjórnvalda. 

Kjósa
16
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
4
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár