Árið 2019 var metár í danskri ferðaþjónustu. Aldrei höfðu fleiri ferðamenn heimsótt landið, gistinætur voru fleiri en nokkru sinni fyrr, og öflugt kynningarstarf danskra ferðamálayfirvalda að skila sér. En svo kom kórónaveiran í ársbyrjun 2020 og setti stórt strik í reikninginn hjá Dönum eins og öðrum þjóðum. Hrun varð í komu ferðamanna til Danmerkur og tvö ár liðu áður en ástandið tók að batna og brúnin að lyftast. Og nú er rífandi gangur í ferðamennskunni, svo mikill að sumum þykir nóg um.
Margir íbúar í miðborg Kaupmannahafnar hafa áhyggjur af sífellt aukinni umferð ferðafólks á svæðinu og óttast að sjarmi þessa gamla bæjarhluta (orðalag eins íbúa) hverfi. Ferðamálayfirvöld í borginni hafa tekið undir þessar áhyggjur en segja hægara sagt en gert að stjórna því hvert ferðafólk leggi leið sína.
Þjóðverjar, Svíar og Norðmenn fjölmennastir í hópi ferðamanna
Löng hefð er fyrir því að Þjóðverjar og Svíar ferðist til Danmerkur en fyrir nokkrum árum fór Norðmönnum að fjölga og sömuleiðis Hollendingum. Þjóðverjarnir eru lang fjömennastir í hópi ferðamanna sem leggja leið sína til Danmerkur, þeir fara einkum til Jótlands og dvelja þá í sumarhúsum sem þeir leigja, eða í hjólhýsum og tjaldvögnum. Verðlag á mörgum nauðsynjum, t.d. matvörum, er hærra í Danmörku en Þýskalandi og Svíþjóð og þess vegna koma ferðalangar frá þessum löndum gjarna með vistir að heiman í fríið. Tekjur af þessum sumardvalargestum eru því minni en af þeim gestum sem dvelja á hótelum.
Óttast að sérkennin hverfi
Ferðamennskan er orðin veigamikill þáttur í efnahagslífi margra landa, ekki síst í Evrópu. Ferðamönnum hefur víða fjölgað svo mjög að mörgum þykir nóg um. Þetta á einkum við í borgum þar sem verður vart þverfótað fyrir ferðafólki sem flykkist þangað yfir sumarmánuðina. Það sem heimamenn kalla eðlilegt mannlíf verður undan að láta, íbúðarhús verða að hótelum og gistiheimilum. Þetta er alþekkt. Þar sem áður voru fjölbreyttar verslanir koma matsölustaðir, barir, kaffihús og minjagripabúðir.
Dæmi um þetta er Strikið í Kaupmannahöfn þar sem áður voru alls kyns verslanir, sérdanskar, ef svo mætti að orði komast. Þær eru með einni undantekningu (Randers handsker) horfnar. Margir íbúar Kaupmannahafnar leggja aldrei leið sína á Strikið, segjast aldrei eiga þangað erindi og þar séu bara ferðamenn. Á allra síðustu árum hefur borgin gripið til ýmissa aðgerða í því skyni að hefja Strikið, sérstaklega þann hluta sem næstur er Ráðhústorginu, til vegs og virðingar á nýjan leik, eins og yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar komst að orði í viðtali við danska útvarpið, DR.
Vilja ferðamenn sem skilja meira eftir
Forsvarsmenn ferðaþjónustunnar hér á Íslandi tala gjarna um að það sé gott og blessað, og æskilegt, að ferðamönnum fjölgi. En tala líka um að varðandi tekjur af ferðamennskunni skipti máli hverjir það séu sem leggja leið sína hingað. Mestu skila þeir í þjóðarbúið sem gista á hótelum og borða á veitingastöðum. Það á ekki síst við um ferðamenn frá Bandaríkjunum.
Fjölgar mikið í Danmörku
Ferðamönnum frá Bandaríkjunum sem leggja leið sína til Danmerkur hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Á síðasta ári voru gistinætur bandarískra ferðamanna í Danmörku rétt um eina milljón og útlit er fyrir að þeim fjölgi verulega á þessu ári. Þessi fjölgun er afrakstur margra ára kynningarstarfs danskra ferðamálayfirvalda en jafnframt hefur framboð á flugi milli Bandaríkjanna og Danmerkur aukist mikið. Ekki skemmir fyrir að gengi dollarans hefur, miðað við dönsku krónuna, verið hátt þannig að ferðamenn fá mikið fyrir peningana.
Maturinn, mannlífið, náttúran og litla hafmeyjan
Dönsk ferðamálayfirvöld hafa ekki einungis auglýst mikið í Bandaríkjunum, þau hafa líka látið gera könnun til að finna út hvað það er sem gerir Danmörku eftirsóknarverða í augum Bandaríkjamanna. Danska ferðamálaráðið greindi nýlega frá þessari könnun og nokkur helstu atriði sem þátttakendur í könnuninni nefndu.
Fyrst er það maturinn. Dönsk matargerð hefur á síðustu árum komist á heimskortið ef svo má segja og danska matinn kunna Bandaríkjamenn að meta. Þótt góður matur kosti meira en skyndibiti skiptir það ekki máli. Súrdeigsbrauðið danska nefndu margir og sögðu það í allt öðrum gæðaflokki en það sem fáanlegt er í Bandaríkjunum. Smurbrauðið var líka iðulega nefnt en líka kjötbollur og fleira.
Danska náttúran skorar líka hátt hjá Bandaríkjamönnum. Strendurnar við Vesterhavet á Jótlandi nefndu margir og sömuleiðis Møns Klint og Stevns Klint. Gulu repjuakrarnir og strendurnar norðan við Kaupmannahöfn voru líka meðal þess sem nefnt var.
Svo var það líka mannlífið, bæði í Kaupmannahöfn og annars staðar, fyrir utan Tívoli og Litlu hafmeyjuna. Margir Bandaríkjamenn nefndu líka að þeim fyndist þeir öruggir í Danmörku og fannst með ólikindum að hægt væri að ganga nánast heim að dyrum á Amalienborg og Kristjánsborg. Það væri gott dæmi um hve örugg Danmörk væri.
Athugasemdir (1)