Sorpa hefur nú greitt verktakafyrirtækinu ÍAV samtals rúmlega 114 milljónir króna í skaðabætur og vexti í tengslum við útboð á byggingu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar Gaju í Álfsnesi. ÍAV kom hvergi að þeirri byggingu enda hreppti Ístak verkið. Það er einmitt sú ákvörðun og hvernig að henni var staðið sem varð til þess að ÍAV fór fram á skaðabætur og fór með sigur af hólmi í bæði héraðsdómi og Landsrétti sem dæmdi Sorpu til að greiða fyrirtækinu 88,5 milljónir króna. Kröfu ÍAV um dráttarvexti var hins vegar vísað frá dómi en nú, tæplega ári seinna, hefur náðst sátt milli aðila um greiðslu 26 milljóna króna í vexti.
Allt þetta mál snýst um útboð Sorpu á gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi árið 2017. Fjögur tilboð bárust og voru þau opnuð í byrjun árs 2018. Tilboðin voru frá ÍAV, Ístaki, Munck og Mannverki. ÍAV átti lægsta tilboðið en öll voru þau yfir viðmiðunarmörkum Sorpu. Í lok febrúar þetta ár var öllum tilboðum hafnað. Sorpa sagðist þá hafa endurskilgreint verkefnið með það að markmiði að leita leiða til að draga úr kostnaði og að þeim sem upphaflega skiluðu tilboði hafi verið boðið að taka þátt í samningskaupum um verkefnið.
Um miðjan apríl voru tilboð opnuð á ný og þá bauð Ístak lægst. Og gengið var til samninga við það fyrirtæki við byggingu jarðgerðarstöðvarinnar sem seinna hlaut nafnið GAJA.
Við þetta felldi ÍAV sig ekki og höfðaði mál á hendur Sorpu, taldi sig hafa upplýsingar um að mótbjóðandinn hefði lagt fram frávikstilboð sem gengi í berhögg við lög um jafnræði bjóðenda og gagnsæi við innkaup.
Misvísandi skilmálar
Í dómi Landsréttar, sem kveðinn var upp síðasta haust, kemur fram að skilmálarnir sem giltu um samningsferlið hefðu verið misvísandi og til þess fallnir að valda misskilningi um að hvaða marki þeim væri heimilt að víkja frá skilmálum samningskaupanna með frávikum og undanþágum. Þannig hafi fyrirtækinu sem hafði betur í útboðinu, þ.e. Ístaki, talið það heimilt en ekki ÍAV.
„Í kjölfar þess að Hæstiréttur hafnaði beiðni Sorpu um áfrýjunarleyfi var krafan greidd“
Í ljósi óskýrleika skilmála útboðsins taldi Landsréttur að fyrirtækin tvö hafi ekki setið við sama borð. Af þeim sökum voru tilboðin ekki samanburðarhæf og byggð á mismunandi forsendum. Það hafi valdið ÍAV bótaskyldu tjóni sem metið var á rúmar 88,5 milljónir króna.
Bótakrafa ÍAV hljóðaði upp á um 180 milljónir króna, sem var áætlaður hagnaður af verkinu, en dómstóllinn féllst ekki á þann útreikning samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og lækkaði upphæðina um helming.
Gengið til samninga við ÍAV
Á fundi stjórnar Sorpu í byrjun júlí var tekið fyrir minnisblað, unnið af lögmönnum, þar sem lagt var til að ganga til sátta við ÍAV um greiðslu vaxta. Aðdragandi þessa er sá að kröfu ÍAV um dráttarvexti vegna skaðabótanna var vísað frá dómi. „Í kjölfar þess að Hæstiréttur hafnaði beiðni Sorpu um áfrýjunarleyfi var krafan greidd,“ segir Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta- og þróunarstjóri Sorpu í skriflegu svari til Heimildarinnar um málið. Í kjölfarið hófust viðræður aðila um vaxtakröfu ÍAV sem lyktuðu með því að stjórn Sorpu samþykkti einróma að greiða vexti, samtals 26 milljónir króna, með eingreiðslu.
Minnisblaðið fæst hins vegar ekki afhent þar sem það var ritað í tengslum við dómsmál og er því bundið trúnaði, að sögn Gunnars Dofra.
Langt fram úr áætlunum
Kostnaður við byggingu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar Gaju fór verulega fram úr öllum áætlunum. Hann átti að vera um 3,7 milljarða en árið 2021 var hann kominn upp í 6,2 milljarða. Þessi mikla framúrkeyrsla varð til þess að samið var um starfslok þáverandi framkvæmdastjóri Sorpu.
Framleiðsla Gaju fór svo einnig brösuglega af stað en líkt og Stundin greindi frá haustið 2021 var allt að tuttugu sinnum meira magn þungmálma í moltu þeirri sem stöðin framleiddi en staðlar sögðu til um. Vorið þetta ár hafði komið í ljós að moltan var plastmenguð.
Nú í vor var framleiðslan komin í gott horf, enda lífrænn úrgangur sem höfuðborgarbúar hafa vandað sig við að flokka síðustu misseri, notaður til framleiðslunnar.
Athugasemdir