Skipulagsstofnun telur endurbætur á núverandi hringvegi í gegnum þéttbýlið í Vík ákjósanlegasta valkostinn sem Vegagerðin setur fram í umhverfismatsskýrslu sinni um hringveginn í Mýrdal, sérstaklega með tilliti til áhrifa á náttúrufar. Stofnunin segir að allir þeir valkostir sem Vegagerðin leggur mat á í skýrslu sinni komi til með að bæta umferðaröryggi og samtímis ljóst að nýr vegur, hvar sem hann mun liggja, verður meira áberandi í landslaginu en sá sem nú er ekið um og ástæða hefur þótt til að endurbæta verulega eða færa. Verði valkostur 5, sem felst í endurbótum nýverandi vegar fyrir valinu, myndi hann áfram liggja í gegnum þéttbýlið í Vík en færsla hans þaðan, í þeim tilgangi að auka umferðaröryggi, var meðal markmiða framkvæmdarinnar. Verði þessi kostur valinn mun hann því „viðhalda þeim neikvæðu áhrifum á samfélag sem fylgja þjóðvegi um þéttbýli,“ segir í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar.
Aðalvalkostur Vegagerðarinnar er að leggja hringveginn norður fyrir Vík. Það myndi, að mati Skipulagsstofnunar, krefjast meira rasks á landi ofan Víkur samanborið en endurbætur á núverandi vegi, m.a. á svæðum friðlýstra plöntutegunda. Sömuleiðis gæti sá valkostur haft neikvæð áhrif á útivist og byggðaþróun.
Skipulagsstofnun telur óvissu um hversu mikið umferð í gegnum Vík muni minnka við færslu hringvegarins norður fyrir þéttbýlið „þar sem allir sem vilja stoppa í Vík munu áfram keyra í gegnum bæinn,“ segir í áliti hennar. Telur stofnunin mikilvægt að gripið verði til aðgerða til að bæta umferðaröryggi í þéttbýlinu, þó svo að hringvegurinn yrði fluttur norður fyrir það.
Að auki bendir Skipulagsstofnun á að af umsögnum sem aflað var við gerð álitsins að dæma sé ljóst að miklir sviptivindar geti skapast á veglínum ofan Víkur. „Telur Skipulagsstofnun tilefni til að kanna nánar hvort mögulegt sé að draga úr áhrifum vinds á svæðinu, t.d. með trjágróðri eða vindskermum. Jafnframt telur Skipulagsstofnun mikilvægt að gripið verði til viðeigandi mótvægisaðgerða þar sem hljóðstig fer yfir mörk reglugerðar um hávaða.“
Vegagerðin lagði einnig mat á þrjá kosti sem fælu í sér að leggja nýjan veg meðfram ströndinni og í gegnum Reynisfjall í jarðgöngum. Þessa kosti telur Skipulagsstofnun sísta vegna mikilla neikvæðra staðbundinna áhrifa á náttúrufar, einkum gróðurfar og fuglalíf við Dyrhólaós. Einnig gæti lagning veglínu og bygging grjótvarnargarða við Víkurfjöru haft talsvert neikvæð áhrif á upplifun þeirra sem nýta svæðið. Þá séu þessir valkostir jafnframt óheppilegir með tilliti til náttúruvár.
Vegagerðin áformar að gera verulegar endurbætur á hringveginum í Mýrdal á um sextán kílómetra kafla milli Skeiðflatar og þéttbýlisins í Vík. Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hefur verið áfram um jarðgöng í gegnum Reynisfjall en sú leið hefur sætt mikilli gagnrýni vegna neikvæðra umhverfisáhrifa.
Í fyrra ákvað Vegagerðin, sem legið hefur yfir málinu í mörg ár, að gera færslu vegarins norður fyrir byggðina í Vík að aðalvalkosti sínum. Áfram voru þó margir aðrir kostir skoðaðir. Skipulagsstofnun segirí áliti sínu að mat Vegagerðarinnar byggi á fjölda sérfræðiskýrslna um málið segir umhverfismatsskýrsluna vandaða og til þess fallna að varpa ljósi á umhverfisáhrif framkvæmdarinnar.
Athugasemdir (1)