Nokkrum dögum eftir að ég greindist með heitustu veiru sumarsins vaknaði ég og við mér blasti nýr veruleiki. Það tók smá tíma að átta sig á aðstæðum, það var skrýtin flatneskja í loftinu, eins og andrúmsloftið væri áþreifanlega flöt og sandlituð lína. Ég hellti mér upp á kaffi og settist við stofugluggann. Þá áttaði ég mig á því að ég væri að drekka bragðlausan og lyktarlausan vökva. Veiran hafði að fullu tekið yfir lyktar- og bragðskynið. Heilbrigt nef getur fundið um 10.000 mismunandi lyktir og við erum með um 50 milljónir þefnema í nefholinu. Það má því kalla þetta gríðarstóran missi á tölulegum skala.
Fyrir manneskju eins og mig sem er töluvert samskynja tók aðeins meira en eitt augnablik að átta mig á hvaða skynfæri virkuðu og hver ekki. Sársaukaskynið blandaðist við bragðskynið og ég þurfti að vinna með heilanum til að aðlagast nýjum veruleika, uppfæra taugabrautirnar í heilanum með nýju upplýsingunum: „Þú finnur ekki lykt af kaffinu en þú finnur fyrir sjóðandi heitum vökvanum þegar þú hellir yfir þig“.
Það minnti mig á upphaf samkomubannsins þegar tveggja metra reglan var við lýði og ég stóð mig að því að raða matardiskunum með tveggja diska millibili í uppþvottavélinni.
Ég var fegin að geta skýlt mér á bak við veiruna og haldið mig til hlés á meðan lyktarskynið kom hægt og rólega til baka. Hver treystir konu sem finnur ekki sína eigin prumpulykt? Móðurhlutverkið treystir einnig mikið á lyktarskynið og það var blanda af blessun og bölvun að finna ekki lyktina af kúkableyjunum. Það mætti jafnvel segja að ég saknaði hennar.
Nú eru liðnir 10 dagar frá því ég missti frumstæðasta skynfærið. Það kemur hægt og bítandi til baka, fyrst kom hættulega lyktarskynið, dísilolía og súlfúrsameindir, og daginn sem ég finn uppáhaldsilminn minn af nýslökktri eldspýtu er dagurinn sem allt verður aftur eins og það á að vera.
Pistillinn birtist fyrst í prentútgáfu Heimildarinnar síðastliðið sumar.
Athugasemdir