Landsbankinn hagnaðist um 16,1 milljarð króna á fyrri helmingi þessa árs, þar af var hagnaðurinn á öðrum ársfjórðungi 9 milljarðar króna. Er það talsvert hærra en á öðrum ársfjórðungi í fyrra þegar hagnaðurinn var 6,7 milljarðar.
Þetta kemur fram í uppgjöri Landsbankans fyrir fyrri helming ársins.
Landsbankinn heldur áfram að njóta góðs af núverandi vaxtastigi sem stendur í 9,25 prósentum. Hreinar vaxtatekjur á fyrri helmingi ársins voru 29,1 milljarðar króna, þar af 14,8 milljarðar á öðrum ársfjórðungi. Það er svipað og árið á undan en þá voru tekjurnar 14,5 milljarðar.
Þjónustutekjurnar voru aftur á móti örlítið lægri á öðrum ársfjórðungi þessa árs (2,6 milljarðar) en árið á undan, þegar þær námu 2,7 milljörðum.
Heimilin glíma við hækkandi greiðslubyrði
Háir vextir hafa leitt af sér miklar hækkanir á greiðslubyrði heimilanna. Gert er ráð fyrir því að hækkandi greiðslubyrði muni ná til fleiri heimila eftir því sem líður á árið og fleiri heimili með óverðtryggð lán á föstum vöxtum losna.
Í fyrra greiddu heimili landsins samtals um 125,3 milljarða króna. Það er um 39,1 milljörðum króna meira en heimilin greiddu í vexti árið þar á undan.
Samtals námu hreinar vaxtatekjur bankanna í fyrra um 150,9 milljarðar króna. Mest tók Landsbankinn inn, 57,6 milljarða króna, sem var 78 prósent af hreinum rekstrartekjum hans.
Óljóst er hvenær stýrivextir verða lækkaðir en margir binda vonir við að Seðlabanki Íslands muni hefja vaxtalækkanir undir lok þessa árs.
Athugasemdir