Heimilin borguðu 39 milljörðum krónum meira í vexti í fyrra en árið 2022
Þessi grein birtist fyrir rúmlega 2 mánuðum.

Heimilin borguðu 39 milljörðum krónum meira í vexti í fyrra en árið 2022

Vaxta­gjöld heim­ila hafa hækk­að um 80 pró­sent á tveim­ur ár­um og kaup­mátt­ur ráð­stöf­un­ar­tekna, virði þeirra pen­inga sem eru í vasa lands­manna, hef­ur lækk­að í fimm af sex síð­ustu árs­fjórð­ung­um. Heim­il­in borg­uðu rúm­lega 125 millj­arða króna í vexti í fyrra. Sam­hliða juk­ust vaxta­tekj­ur banka veru­lega, og hagn­að­ur þeirra með.

Vaxtagjöld heimila landsins voru 125,3 milljarðar króna á árinu 2023. Heimilin greiddu 39,1 milljarði króna meira í vexti á síðasta ári en þau gerðu árið 2022, eða rúmlega 45 prósent meira. Ef horft er til ársins 2021, þegar vaxtahækkunarferli Seðlabanka Íslands hófst, hafa vaxtagreiðslur heimilanna aukist um 55,6 milljarða króna, eða um 80 prósent. 

Þetta kemur fram í nýbirtu tekjuskiptingauppgjöri heimilisgeirans sem Hagstofa Íslands tekur saman

Þar má einnig finna upplýsingar um að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila hafi haldið áfram að dragast saman á síðustu þremur mánuðum síðasta árs, alls um 0,4 prósent. Samkvæmt endurskoðuðum tölum Hagstofunnar hefur hann nú dregist saman í fimm af síðustu sex ársfjórðungum. Mestur var samdrátturinn á öðrum ársfjórðungi í fyrra, þegar kaupmátturinn dróst saman um 4,5 prósent. Hann hafði ekki lækkað jafn mikið á þriggja mánaða tímabili frá árinu 2010. Eini fjórðungurinn sem hefur verið jákvæður frá því á miðju ári 2022 er fyrsti ársfjórðungur síðasta árs, en þá var kaupmáttur ráðstöfunartekna upp um 0,7 prósent. 

Ráðstöfunartekjur í krónum talið jukust um 9,6 prósent í fyrra en að teknu tilliti til verðlagsþróunar er áætlað að kaupmáttur þeirra á mann hafi dregist saman um 1,7 prósent á árinu 2023, þar sem vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu, hækkaði um 8,8 prósent á sama tímabili. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2012 sem kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna dregst saman. 

Fá minna fyrir krónurnar

Ráð­stöf­un­ar­tekjur eru þeir pen­ingar sem standa eftir þegar búið er að draga skatta og önnur gjöld frá launum við­kom­andi og kaup­máttur þeirra lýsir því hvað hver getur keypt fyrir þær tekj­ur. Þegar kaup­mátt­ur­inn dregst saman þá getur við­kom­andi keypt minna fyrir krón­urnar sem hann hefur til ráð­stöf­unar í hverjum mán­uð­i. 

Ástæða þess að íslensk heimili fá minna fyrir krónurnar sínar er sú að útgjöld þeirra hækka mun hraðar en tekjurnar um þessar mundir, enda verðbólga búin að vera mjög há og þrálát frá því snemma á síðasta ári. Það hefur leitt til þess að heildarútgjöld jukust um tæp 16 í fyrra. 

Langstærsti hluti útgjaldaaukningarinnar er vegna þess að heimilin eru að greiða miklu meira í vexti en áður. Í byrjun árs í fyrra voru vegnir óverðtryggðir meðalvextir á íbúðalánum um 7,7 prósent. Í dag eru þeirt tæplega ellefu prósent, enda stýrivextir búnir að fara úr því að vera sex í 9,25 prósent. 

Hlutfallslega aukningin sem varð á vaxtagjöldum á fyrstu sex mánuðum ársins í fyrra var sú mesta á ársgrundvelli að minnsta kosti frá byrjun árs 2003, en tölur Hagstofunnar ná ekki lengra aftur en það.

Fyrra metið var sett í kjölfar bankahrunsins. Þá varð mesta hækkun vaxtagjalda á ársgrundvelli milli þriðja ársfjórðungs 2008 og sama tímabils ári síðar þegar vaxtagjöld heimilanna jukust um tæp 56 prósent á einu ári. 

Vaxtatekjur banka jukust mikið

Þessi staða hefur verulega jákvæð áhrif á afkomu stóru bankanna þriggja: Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka. Þeir högnuðust samtals um 83,5 milljarða króna í fyrra sem var 25 prósent meiri hagnaður en þeir sýndu árið 2022. 

Hagnaður stóru bankanna þriggja í fyrra var fyrst og síðast vegna undirliggjandi rekstrar, og aðallega vegna vaxtatekna. Vaxtamunur bankanna þriggja var 3,0 til 3,1 prósent á árinu 2023. Hann segir til um muninn sem er á þeim vöxtum sem bankarnir borga fyrir lán og þess sem þeir rukka fyrir að lána einstaklingum og fyrirtækjum peninga og er mun hærri hérlendis en í norrænum bönkum af svipaðri stærð.

Samanlagt voru hreinar vaxtatekjur bankanna í fyrra 150,9 milljarðar króna. Mest tók Landsbankinn inn, 57,6 milljarða króna, sem var 78 prósent af hreinum rekstrartekjum hans. Íslandsbanki tók inn 48,6 milljarða króna, en sú upphæð var 76 prósent af hreinum rekstrartekjum, og hreinn vaxtahagnaður Arion banka var 44,7 milljarða króna, eða 70 prósent af rekstrartekjum bankans. 

Alls jukust greinar vaxtatekjur Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka í fyrra um 21 milljarð króna. 

Vextir ekki að lækka

Greint var frá því í gær að stýrivextir verði áfram 9,25 prósent, að minnsta kosti um sinn. Miðað við það má gera ráð fyrir því að vaxtakostnaður heimila haldi áfram að aukast. Verðbólga hefur verið þrálát og stendur nú í 6,6 prósentum. 

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, sem ákveður vaxtastígið í landinu, sagði að langtímaverðbólguvæntingar hefðu lítið breyst og haldið nokkuð yfir markmiði. „Þótt hægt hafi á vinnumarkaði er spenna þar enn til staðar. Verðbólga gæti því áfram reynst þrálát. Þá er einnig óvissa um niðurstöður kjarasamninga og mögulegar aðgerðir í ríkisfjármálum tengdar þeim og vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Mótun peningastefnunnar á næstunni mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. “

Mikil áhrif á greiðslubyrði

Hækkandi stýrivextir hafa haft mikil áhrif á greiðslubyrði heimila og fyrirtækja og hratt hefur dregið úr lántökum þeirra. Hærri greiðslubyrði heimila, sem hefur í mörgum tilvikum allt að tvöfaldast hjá þeim sem eru með óverðtryggð lán, hefur leitt til þess að sífellt fleiri færa sig úr því lánaformi og yfir í verðtryggð íbúðalán. Þau hafa þann kost að greiðslubyrðin er lægri en þann vankant að verðbætur leggjast á höfuðstól lána í mikilli verðbólgu. 

Á því vaxtahækkunartímabili sem hófst 2021 og stóð óslitið fram að síðasta vaxtaákvörðunardegi Seðlabankans voru raunvextir óverðtryggðra lántakenda lengi vel neikvæðir. Það þýðir að vextirnir sem þeir borguðu voru lægri en verðbólgan. Sömu sögu er að segja að innlánsvöxtum. Vextirnir sem fólk fékk fyrir að geyma peninganna sína í banka voru almennt lægri en verðbólgan og því rýrnaði raunvirði sparnaðarins. 

Á síðustu mánuðum hefur það snúist við og raunvextir eru nú ekki lengur neikvæðir. 

Sú staða, ásamt því að mörg fastvaxtalán á óverðtryggðum vöxtum hafa verið að losna, hefur stóraukið flutning heimila yfir í verðtryggð lán.

Á fyrri helmingi þessa árs munu vextir á óverðtryggðum íbúðalánum upp á samtals 67 milljarða króna svo losna. En það eru um 2,9 prósent af öllum útistandandi íbúðalánum heimila landsins. 

Í lok janúar voru vegnir meðalvextir óverðtryggðra íbúðalána á breytilegum vöxtum um 10,9 prósent. Til samanburðar eru vegnir meðalvextir óverðtryggðra lána á föstum vöxtum á fyrri hluta ársins 2021, þegar lánin voru mörg hver tekin og vextir festir, 4,5 prósent.

Því má búast má við að tilfærslan yfir í verðtryggð lán muni halda áfram næstu ár að óbreyttu. Frá byrjun árs 2024 og fram til loka árs 2025 munu 569 milljarðar króna, 80 prósent allra þeirra lána sem festu óverðtryggða vexti, losna og lántakarnir að óbreyttu færðir úr mjög lágum vöxtum yfir í mjög háa vexti. 

Kjósa
16
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • JA
    Jón Arnarson skrifaði
    Er þetta ekki eðlileg niðurstaða í samfélagi sem hefur ráðamann með markmið að gera ekki neitt og því þurfi Seðlabankinn að nota sitt sitt eina vopn, án frekari endurskoðunar?
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár