Aðeins 16 prósent aðspurðra eru ánægð með ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks, að því fram kemur í nýrri könnun Maskínu. 56 prósent segjast óánægð með störf hennar.
Stjórnarandstaðan er ekki vinsælli samkvæmt könnuninni en 12 prósent segjast ánægð með störf hennar. 39 prósent aðspurðra segjast almennt óánægð með störf stjórnarandstöðunnar.
Stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins er ánægðast með ríkisstjórnina og sögðust 51 prósent þeirra ánægð með störf hennar. 36 prósent stuðningsfólks Framsóknarflokksins voru ánægð og 37 prósent stuðningsfólks Vinstri grænna. Alls voru 45 prósent stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna ánægð með störf stjórnarinnar en aðeins 16 prósent óánægð.
Eldra fólk sáttara
Stuðningsfólk stjórnarandstöðuflokkanna var almennt óánægt með störf ríkisstjórnarinnar og sögðust 75 prósent óánægð en aðeins 5 prósent ánægð.
Yngra fólk er almennt óánægðara með ríkisstjórnina en eldra. 23,4 prósent 60 ára og eldri sögðust ánægð með störf hennar.
Könnunin var lögð á netinu fyrir Þjóðgátt Maskínu sem er hópur fólks valinn með tilviljun úr Þjóðskrá. Svarendur voru alls staðar af landinu og yfir 18 ára að aldri. Könnunin fór fram frá apríl til júní 2024 og voru svarendur 7.798 talsins.
Athugasemdir