Sjálfstæðisflokkurinn fengi aðeins 14,7 prósent atkvæða ef gengið yrði til þingkosninga í dag. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu.
Flokkurinn fékk 25 prósent atkvæða í kosningum árið 2021 og mældist með 17 prósent í könnun Maskínu í maí. Vinstri græn mælast áfram með 5 prósenta fylgi og Framsóknarflokkurinn með 10,2 prósent.
Samtals eru ríkisstjórnarflokkarnir þrír með 29,9 prósenta stuðning. Er það í fyrsta sinn sem fylgi flokkanna mælist svo lágt og vel undir kjörfylgi þeirra árið 2021 sem var samtals 55 prósent og skilaði þeimm 37 þingmönnum.
Samfylkingin áfram stærst
Samfylkingin mælist áfram stærst í könnunum Maskínu með 27,1 prósent. Marktækur munur er á fylgi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins sextánda mánuðinn í röð. Samfylkingin fékk aðeins 10 prósent í kosningunum 2021.
Þá bætir Sósíalistaflokkurinn við sig fylgi og fer úr 4 prósentum í 5,9 á milli kannanna. Flokkurinn fékk ekki þingmann kjörinn í síðustu kosningum. Miðflokkurinn mælist með 12,7 prósenta fylgi, Viðreisn með 10,1 prósent, Píratar með 9,3 prósent og Flokkur fólksins með 5 prósent. Fylgi flokkanna hefur lítið hreyfst frá síðustu könnun í maí.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er hópur dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur voru alls staðar af landinu og 18 ára og eldri. Þess var sérstaklega gætt að úrtök endurspegli fjölbreytileika samfélagsins hvað varðar aldursdreifingu, búsetu og menntunarstig.
Könnunin fór fram dagana 31. maí til 20. júní og voru 1.846 svarendur sem tóku afstöðu til flokks.
mælinganna og hvaða viðhorf þær endurspegla.
Athugasemdir (2)