„Við erum reið“

Í að­drag­anda kosn­inga boð­ar Emm­anu­el Macron að hann sé rödd skyn­sem­inn­ar milli tveggja öfga­flokka til vinstri og hægri sem nauð­syn­legt sé að berj­ast gegn. Á sama tíma vilja aðr­ir fram­bjóð­end­ur flokks­ins halda for­set­an­um sem lengst fyr­ir ut­an kosn­inga­bar­átt­una. Fyrri um­ferð þing­kosn­inga í Frakklandi fer fram í dag.

„Við erum reið“
Frakklandsforseti Ein afleiðingin þess að boða til kosninga með örskömmum fyrirvara er sú að þegar flokksmenn Macrons fara í skyndingu að gyrða sig fyrir kosningabaráttuna vilja þeir sem minnst láta bendla sig við þann sem var fyrir örskömmu leiðtogi þeirra. Mynd: AFP

Þegar blaðamaður einn fór á stúfana til að komast að því hvers vegna kjósendur væru nú í stórum stíl farnir að halla sér að „Þjóðarfylkingu“ Marine Le Pen, fékk hann einfalt svar (með orðaleik á frummálinu): „On n´est pas facho, on est faché“, sem útleggst: „Við erum ekki fasistar, við erum reið“.

Þetta má segja að liggi í augum uppi, kjósendur eru upp til hópa reiðir yfir þeirri stjórnarstefnu sem Macron forseti hefur nú fylgt í sjö ár og af því sem af henni hefur hlotist. Og nú hefur annað bæst við til að gera menn enn reiðari og ringlaðri, það er sú furðulega ákvörðun Macrons að rjúfa þing og efna til nýrra kosninga strax í kjölfar Evrópukosninganna með stysta fyrirvara sem stjórnarskráin leyfir án þess að nokkuð knýði á um það. Þetta kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, ekki aðeins yfir allan almenning heldur og stjórnmálamenn. Að sögn blaða ákvað forsetinn þetta í kyrrþey í samráði við þrjá ráðgjafa sína, skuggasveina sem enginn veit hvað heita og enginn þekkir á myndum. Pukrið var svo mikið að reglum stjórnarskrárinnar var ekki einu sinni fylgt. Hún mælir svo um að forsetinn hafi vald til að rjúfa þing og efna til kosninga „að höfðu samráði við forsætisráðherra“, en ekkert minnsta samráð var haft við hinn unga Gabriel Attal forsætisráðherra, hann fékk rétt að vita um ákvörðun Macrons þegar forsetinn var í þann mund að tylla sér fyrir framan sjónvarpsvélarnar til að ávarpa alþjóð. Það kom yfir hann eins og köld gusa, eftir það skreið hann í felur í tvo daga og vildi hvorki tala við kóng né prest.

HressingGabriel Attal forsætisráðherra fær sé ís í kosningabaráttunni.

Sagði skilið við forsetann 

Af þessu hefur skapast ástand sem er engu líkt, eitthvað hefur gerst mönnum gersamlega að óvörum sem gerbreytir öllum framtíðarhorfum. Það er ekki aðeins utan Frakklands sem menn velta því fyrir sér hvort forsetinn kunni að hafa oltið á kollinn. Ein afleiðingin er sú að þegar flokksmenn Macrons fara í skyndingu að gyrða sig fyrir kosningabaráttuna vilja þeir sem minnst láta bendla sig við þann sem var fyrir örskömmu leiðtogi þeirra. Undir eðlilegum kringumstæðum hefðu frambjóðendur flokksins átt að hafa mynd af forsetanum á áróðursblöðum sínum við hliðina á myndinni af sér sjálfum, kannske með vígorði eins og „öll saman með Macron“. En sú mynd er harla sjaldséð, í staðinn er þar mynd af Gabriel Attal forsætisráðherra sem prýðir áróðursspjöldin – eða þar er einungis mynd af frambjóðandanum sjálfum.

„Eins og flestir munu nú gera sér grein fyrir er frjálshyggjan í eðli sínu ekki annað en bylting hinna ríku gegn hinum fátæku“

Greinilegt er að frambjóðendur flokksins vilja halda forsetanum sem lengst fyrir utan kosningabaráttuna. Gabriel Attal leitast nú við að vera í forystu, hann nefnir ekki Macron og getur þess rétt í framhjáhlaupum að þetta séu ekki forsetakosningar. Hins vegar leggur hann á það ríka áherslu að nú í fyrsta sinn fái Frakkar að kjósa forsætisráðherra, og gengur þá út frá því sem vísu að ef hann leiði flokkinn fram til sigurs geti Macron ekki sett hann af og útnefnt annan. Edouard Philippe, fyrrverandi forsætisráðherra í stjórn Macrons, gengur mun lengra og hefur enga tæpitungu: „Macron er búinn að drepa macronismann“ segir hann, „nú þarf að mynda nýjan meirihluta.“ Með þessu hefur hann í raun sagt skilið við forsetann.

Bylting hinna ríku 

Þetta ástand sem skapast hefur og leiddi í fyrstu umferð til mótmælaöldu „gulstakkanna“ svokölluðu og síðan til ólgu í úthverfum Parísar er bein afleiðing af þeirri frjálshyggjustefnu sem Macron hefur jafnan fylgt. Eins og flestir munu nú gera sér grein fyrir er frjálshyggjan í eðli sínu ekki annað en bylting hinna ríku gegn hinum fátæku, með þeim litla fyrirvara þó að „hinir ríku“ væru ekki alltaf svo auðugir þegar byltingin hófst, þótt margir væru það, heldur urðu þeir ríkir á því að vera á réttum stað á réttum tíma og kunna klækina. Þessi bylting heldur stöðugt áfram víða um heim og hefur alls staðar sömu afleiðingar. Tæki hennar eru sífelldar einkavæðingar, þar sem auðmönnum eru afhentar eignir almennings fyrir slikk, ekki síst einkavæðingar á ýmsu sem jafnan hefur verið talið að ríkisvaldið ætti að sjá um, svo sem póstþjónustu; einnig eru aðferðirnar skjattaívilnanir fyrir auðkýfinga undir ýmsum fyrirslætti, svo og viðleitni til að draga sífellt meira úr félagslegri þjónustu af hvaða tagi sem er, ekki síst heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Menn geta svo lesið á síðum blaða hvernig byltingunni miðar áfram. Fyrir skömmu var frá því sagt að einn ofurauðkýfingurinn hefði haft einar 300 miljónir evra í laun á síðasta ári, sem var mikið stökk upp á við, og með sama göngulagi fara tekjur þessara súper-Krösusa sífellt hækkandi. Þetta er allt réttlætt um leið með ýmsu kenningaklambri, svo sem því að auðmenn verðskuldi sinn auð fyrir snilld og dugnað, ekkert atvinnuleysi sé til heldur einungis menn sem „nenna ekki að vinna“ og fátækt sé réttlát afleiðing af dugleysi. (Postular þessara trúarbragða sitja yfirleitt í þægilegum og vel launuðum stöðum í virtum háskólum.)

Þessari stefnu hefur Macron fylgt gegnum árin, nánast því af barnslegu sakleysi, og hefur það meðal annars komið fram í ýmsum orðskviðum sem honum hafa hrotið af vörum, nánast ósjálfrátt að því er virðist. Hann sagði til dæmis við atvinnuleysingja einn: „Þú þarft ekki annað en fara yfir götuna til að fá vinnu.“ Og þegar atvinnuleysingjar komu saman á mótmælafund sagði hann: „Af hverju fara þessir menn ekki að leita að vinnu í staðinn fyrir að æpa þetta?!“ Um fátækrahjálp sagði hann einu sinni: „Það eru geðveikislegir peningar sem fara í þetta!“ (Á frummálinu hét þetta „pognon de dingue“ og er erfitt að koma til skila á íslensku þeirri lítilsvirðingu sem í orðunum felst.) Og þegar einu sinni sem oftar var verið að draga úr félagshjálp sagði hann: „Menn mega ekki venja sig við þá hugsun að allt eigi að vera ókeypis.“ Þetta virkar á menn eins og þarna sé kominn einhver banderillo og þeir séu nautið, en Macron virðist ekki gera sér hina minnstu grein fyrir því.

Dregið úr þjónustu 

Afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Áður hefur verið sagt frá því hvernig eftirlaunaaldur hefur verið hækkaður og einnig hafa verið nefndar tillögur um að draga úr atvinnuleysisbótum. Enn annað vegur kannske enn þyngra og það er hvernig alls kyns opinber þjónusta dregst sífellt saman vegna fjársveltis og þeirrar stefnu að fækka ríkisstarfsmönnum. Í smábæjum er pósthúsum lokað, svo og ýmsum opinberum skrifstofum sem menn verða að leita til, einnig eru minni járnbrautarlínur felldar niður  og járnbrautarstöðvum fækkað. Jafnframt er dregið úr skólastarfi, ekki aðeins í smábæjum heldur líka í París. Á þeim tveimur skólabyggingum sem ég geng fram hjá daglega hanga stór spjöld þar sem fækkun bekkja er mótmælt. Heilbrigðisþjónusta víða með afbrigðum léleg – fréttir um ástandið þar gætu reyndar alveg eins átt við um Ísland.

„Flokkur hennar hefur aldrei setið í neinni stjórn og ber því enga ábyrgð á ástandinu“

Ekki er því að furða þótt sjóði í mönnum, en hvers vegna halla menn sér þá að Le Pen? Það er vegna þess að flokkur hennar hefur aldrei setið í neinni stjórn og ber því enga ábyrgð á ástandinu, öfugt við alla aðra flokka. Svo virðist líka að henni hafi tekist einkar vel að „afdjöfla“ flokkinn eins og sagt er, þvo af honum gyðingahatur og önnur merki um uppruna hans á útnáranum allra yst til hægri.

Stillir sér upp sem rödd skynseminnar

Macron hefur ekki á nokkurn hátt orðið við þeim óskum sinna eigin fylgismanna  að halda sér sem lengst frá kosningabaráttunni, fara semsé í fjölmiðlafrí. Þvert á móti, þá blaðrar hann sem aldrei fyrr. Ástandið er reyndar öðru vísi en hann mun hafa vonast eftir, því vinstri mönnum – flokki Melanchons, kommúnistum, sósíalistum og umhverfisverndunarsinnum – tókst að koma sér saman um sameiginleg framboð undir heitinu „Alþýðufylkingin nýja“ þótt það væri greinilega ekki sársaukalaust eftir öll illindin fyrir Evrópukosningarnar. Macron stendur því upp og boðar að hann sé rödd skynseminnar milli tveggja öfgaflokka til vinstri og hægri sem nauðsynlegt sé að berjast gegn. Ef önnur hvor þeirra myndi ná völdum leiddi það til borgarastyrjaldar.  En hann beinir spjótum sínum þó fyrst og fremst gegn Alþýðufylkingunni nýju og slíkt hið sama gera þeir sem áður studdu hann og vilja nú sem minnst af honum vita. Spara þeir þá ekki stóru orðin, heimspekingurinn Luc Ferry, fyrrverandi menntamálaráðherra, skrifaði fyrir skömmu hysteríska grein í blaðið „Le Figaro“ og var eins og þar væri kominn einn fullur á fésbók um miðja nótt.

Óánægjan sterkasta vopn Le Pen

Svo virðist sem Marine Le Pen álíti – kannske réttilega – að óánægja almennings sé hennar sterkasta vopn. Því forðast bæði hún og Jordan Bardella að setja fram ákveðna stefnuskrá. Marine Le Pen er reyndar þegar farin að undirbúa framboð sitt í næstu forsetakosningum eftir þrjú ár og vill því halda sér til hlés að svo stöddu. Það sem þau Bardella setja helst á oddinn er andúðin gegn innflytjendum. Er þá efst á baugi að láta Fransmenn jafnan sitja í fyrirrúmi í félagsmálum, svo sem við úthlutun félagshúsnæðis, á undan mönnum af erlendum uppruna, en það brýtur að vísu í bága við stjórnarskrána. Einnig eru þau andvíg þeim aðgerðum sem áætlað  hefur verið að gera í umhverfismálum. Svo vilja þau gera að reglu að þegar lögregluþjónar freti úr sínum hólkum og særi einhvern eða skutli honum yfir landamærin, en slíkt ber ósjaldan við, sé jafnan gengið út frá því að fyrra bragði, og þangað  til eitthvað annað reynist sannara, að þeir hafi verið í sjálfsvörn. Það myndi hafa í för með sér að lögreglumenn yrðu aldrei hnepptir í gæsluvarðhald meðan mál er í rannsókn, og er sú tillaga líkleg til að fylkja lögreglunni um Le Pen enn meira en verið hefur. 

Leiðtogi ÞjóðfylkingarinnarMarine Le Pen álítur – kannske réttilega – að óánægja almennings sé hennar sterkasta vopn.

Vísa í gyðingahatur

Forsprakkar Alþýðufylkingarinnar nýju hafa lagt allt kapp á að setja fram ítarlega stefnuskrá og gera andstæðingar hennar sér að sjálfsögðu mat úr henni, ef reynt yrði að hrinda henni í framkvæmd myndi það hrinda landinu öllu yfir bjargbrúnina. En þeir skjóta þó ekki síst úr annarri átt, þeir fara í manninn, og gera ýmsa framámenn hennar, einkum Melanchon, að Grýlum. Er þá eitt stef sett á oddinn sérstaklega: gyðingahatur. Þar sem Melanchon og flokksmenn hans gagnrýna harðlega framferði Ísraelsmanna á Gaza-svæðinu er það túlkað sem svo að þarna sé gyðingahatur fyrri alda og einkum þó hinnar tuttugustu farið að lyfta upp sinni ófrýnilegu ásjónu eina ferðina enn, þetta jaðraði við nasisma, Nú fer Raphael Glucksman, sem hefur verið í forystu fyrir sósíalista, hægar í þessum skelfilega harmleik  og vill sýna báðum aðilum vissan skilning, enda sjálfur gyðingur og auk þess er þessi stefna rótgróin meðal sósíalista. En þá er viðkvæðið: þessir menn eru annaðhvort gyðingahatarar eða þá í bandalagi við gyðingahatara, og það er síst betra.

Þessi áróður hefur fengið það mikinn hljómgrunn að Serge Klarsfeld, hinn annálaði nasistajagari, lýsti því yfir nýlega að ef hann ætti að velja milli flokks Le Pen og Alþýðufylkingarinnar nýju myndi hann greiða Le Pen atkvæði sitt, sá flokkur væri „gyðingavænni“.    

Kjósa
30
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • ADA
    Anna Dóra Antonsdóttir skrifaði
    Já er byltingin framundan, hvað sagði drottningin um árið þegar lýðurinn heimtaði brauð, má ekki bara gefa þeim kökur. Takk Einar, haltu áfram.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Hulduheildsali flytur inn hundruð tonna af kjöti
1
RannsóknSamkeppnisundanþága í Landbúnaði

Huldu­heild­sali flyt­ur inn hundruð tonna af kjöti

Ris­ar á ís­lensk­um kjöt­mark­aði, sem fengu í vor um­deild­ar und­an­þág­ur frá sam­keppn­is­lög­um til þess að verj­ast sam­keppni að ut­an, verða á þessu ári um­fangs­mest­ir í kjöt­inn­flutn­ingi og því keppi­naut­ar sjálfs sín. „Von­brigði,“ seg­ir formað­ur at­vinnu­vega­nefnd­ar. Um­fangs­mik­il heild­sala á hundruð­um tonna af inn­fluttu kjöti virð­ist fyrst og síð­ast leiktjald fyr­ir öfl­ug­asta hags­muna­afl­ið gegn inn­flutn­ingi land­bún­að­ar­vara.
Running Tide hafi hunsað og falið óhagstæð álit
3
FréttirRunning Tide

Runn­ing Tide hafi huns­að og fal­ið óhag­stæð álit

Banda­rísk­ur laga­pró­fess­or sem sér­hæf­ir sig í lög­gjöf vegna kol­efn­is­förg­un­ar, og sat í svo­köll­uðu vís­inda­ráði Runn­ing Tide, seg­ir fyr­ir­tæk­ið hafa stung­ið áliti hans und­ir stól og síð­an lagt ráð­ið nið­ur. Fyr­ir­tæk­ið hafi með óá­byrgri fram­göngu sinni orð­ið til þess að nú standi til að end­ur­skoða al­þjóða­sam­ing um vernd­un hafs­ins. Seg­ir fyr­ir­tæk­ið aldrei hafa feng­ið leyfi eins og hér á landi, án ít­ar­legri skoð­un­ar og strangs eft­ir­lits.
„Samt sáum við íslensku konurnar sem fóru út þegar þeim ofbauð“
7
Fréttir

„Samt sáum við ís­lensku kon­urn­ar sem fóru út þeg­ar þeim of­bauð“

Séra Agnes M. Sig­urð­ar­dótt­ir seg­ir það hafa ver­ið virð­ing­ar­vert þeg­ar ís­lensk­ar kon­ur fóru til Gaza að bjarga það­an fjöl­skyld­um sem höfðu feng­ið dval­ar­leyfi á Ís­landi. Það var fyrst eft­ir það sem ís­lensk stjórn­völd brugð­ust við stöð­unni og seg­ir Agnes að ut­an frá séð „þá finnst mér að þau hefðu getað brugð­ist fyrr við“
Kristin hugveita sendir fólki valkröfur í heimabankann
8
Fréttir

Krist­in hug­veita send­ir fólki val­kröf­ur í heima­bank­ann

Nokk­ur hundruð lands­menn fengu ný­lega senda for­vitni­lega val­kröfu frá fé­lagi sem heit­ir Pax Vobis. Um er að ræða óhagn­aða­drifna hug­veitu um kristna trú sem birt­ir efni á ýms­um sam­fé­lags­miðl­um. Nokk­ur um­ræða skap­að­ist um reikn­inga fé­lags­ins á sam­fé­lags­miðl­um en stofn­andi fé­lags­ins árétt­ir að fólki sé frjálst hundsa val­kröf­una þeim að kostn­að­ar­lausu.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Ég var bara niðurlægð“
2
Viðtal

„Ég var bara nið­ur­lægð“

Séra Agnes M. Sig­urð­ar­dótt­ir, bisk­up Ís­lands, vill skila skömm­inni til kirkju­þings þar sem hún upp­lifði nið­ur­læg­ingu eft­ir að óvissa varð uppi um lög­mæti embætt­is­gjörða henn­ar. Hún seg­ir að kirkju­þing hafi átt að greiða úr mál­inu og eyða óvissu um stöðu henn­ar. Agnes tel­ur að karl­kyns bisk­up hefði aldrei þurft að þola slíka fram­komu af hálfu kirkju­þings en hún er fyrsta kon­an sem er kjör­in bisk­up.
Í hjólastól á Lækjartorgi: „Það kemur ekki til greina að halda kjafti“
6
FréttirFlóttamenn

Í hjóla­stól á Lækj­ar­torgi: „Það kem­ur ekki til greina að halda kjafti“

Þrátt fyr­ir há­vær mót­mæli Ís­lend­inga, inn­flytj­enda og fjöl­margra rétt­inda­sam­taka er enn á dag­skrá að vísa 11 ára göml­um palestínsk­um dreng með hrörn­un­ar­sjúk­dóm úr landi. Nú reyn­ir stuðn­ings­fólk hans nýja að­ferð til þess að ná eyr­um stjórn­valda, að setj­ast nið­ur fyr­ir dreng­inn í stað þess að standa upp fyr­ir hon­um.
Hulduheildsali flytur inn hundruð tonna af kjöti
9
RannsóknSamkeppnisundanþága í Landbúnaði

Huldu­heild­sali flyt­ur inn hundruð tonna af kjöti

Ris­ar á ís­lensk­um kjöt­mark­aði, sem fengu í vor um­deild­ar und­an­þág­ur frá sam­keppn­is­lög­um til þess að verj­ast sam­keppni að ut­an, verða á þessu ári um­fangs­mest­ir í kjöt­inn­flutn­ingi og því keppi­naut­ar sjálfs sín. „Von­brigði,“ seg­ir formað­ur at­vinnu­vega­nefnd­ar. Um­fangs­mik­il heild­sala á hundruð­um tonna af inn­fluttu kjöti virð­ist fyrst og síð­ast leiktjald fyr­ir öfl­ug­asta hags­muna­afl­ið gegn inn­flutn­ingi land­bún­að­ar­vara.

Mest lesið í mánuðinum

Sökktu kurli og seldu syndaaflausn
1
RannsóknRunning Tide

Sökktu kurli og seldu synda­af­lausn

„Ýttu á takk­ann og bjarg­aðu heim­in­um,“ skrif­ar vís­inda­mað­ur af kald­hæðni er hann bend­ir um­hverf­is­ráðu­neyt­inu á var­úð­ar­orð ut­an úr heimi um að­ferð­ir sem fyr­ir­tæk­ið Runn­ing Tide fékk leyfi stjórn­valda til að prófa í þágu lofts­lags í Ís­lands­höf­um. Að­gerð­irn­ar umbreytt­ust í allt ann­að en lagt var upp með. Þær voru án alls eft­ir­lits og gerðu svo þeg­ar upp var stað­ið lít­ið ef nokk­urt gagn. „Ís­land er fyrsta land­ið í heim­in­um til að búa til kol­efnisein­ing­ar með kol­efn­is­bind­ingu í hafi,“ sagði fram­kvæmda­stjór­inn.
Tvíburasystur óléttar samtímis: „Þetta er draumurinn“
6
Viðtal

Tví­bura­syst­ur ólétt­ar sam­tím­is: „Þetta er draum­ur­inn“

Tví­bur­ar, sem lík­lega eru eineggja, gengu sam­tals í gegn­um þrjú fóst­ur­lát á inn­an við ári og voru um tíma óviss­ar um að þeim tæk­ist nokk­urn tím­ann að eign­ast börn. En nú hef­ur birt til og þær eiga von á börn­um með tæp­lega tveggja mán­aða milli­bili. Gen barn­anna verða lík­lega eins lík og hálf­systkina vegna mik­illa lík­inda með genum mæðr­anna.
„Ég var bara niðurlægð“
7
Viðtal

„Ég var bara nið­ur­lægð“

Séra Agnes M. Sig­urð­ar­dótt­ir, bisk­up Ís­lands, vill skila skömm­inni til kirkju­þings þar sem hún upp­lifði nið­ur­læg­ingu eft­ir að óvissa varð uppi um lög­mæti embætt­is­gjörða henn­ar. Hún seg­ir að kirkju­þing hafi átt að greiða úr mál­inu og eyða óvissu um stöðu henn­ar. Agnes tel­ur að karl­kyns bisk­up hefði aldrei þurft að þola slíka fram­komu af hálfu kirkju­þings en hún er fyrsta kon­an sem er kjör­in bisk­up.
Tugir fyrirtækja töldu rangt fram til að fá hærri styrki í „draumalandi nýsköpunarmanna“
8
Greining

Tug­ir fyr­ir­tækja töldu rangt fram til að fá hærri styrki í „draumalandi ný­sköp­un­ar­manna“

Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­in, Al­þjóða­gjald­eyr­is­sjóð­ur­inn og Skatt­ur­inn hafa öll bent á að eft­ir­liti með út­greiðslu ný­sköp­un­ar­styrkja úr rík­is­sjóði, sem voru 1,3 millj­arð­ar króna fyr­ir nokkr­um ár­um en verða 24 millj­arð­ar króna ár­ið 2029, væri veru­lega ábóta­vant. Skatt­ur­inn hef­ur þeg­ar spar­að rík­is­sjóði 210 millj­ón­ir króna með því að gera gjalda­breyt­ing­ar hjá 27 að­il­um sem töldu fram ann­an kostn­að en ný­sköp­un til að fá styrki úr rík­is­sjóði. Einn starfs­mað­ur sinn­ir eft­ir­liti með mála­flokkn­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár