Síðasta sumar þá fór ég út á svalirnar á íbúðinni minni með kex og ost á litlum diski. Það var sól og ég ætlaði að njóta lífsins með bók í blíðunni. Ég var varla búin að taka bita af einni kexkökunni þegar ég mundi skyndilega eftir einhverju stórkostlega aðkallandi inni við. Ég man svo sem ekkert hvað það var núna.
Þegar ég mundi eftir matnum og áætlunum mínum um bóklestur stuttu síðar hitti ég fyrir á svölunum sílamáf sem var í makindum sínum að gæða sér á kexinu mínu.
Máfar tyggja ekki mat – þeir gleypa hann. Eiginlega sama hve stórt eða hart það sem þeir borða er. Það er alveg rosalegt. Ég horfði úr gættinni á meðan kvikindið sporðrenndi öllu kexinu og át stærðarinnar oststykki í einum munnbita.
Að svo búnu varð máfurinn var við mig og lét sig hverfa. Það var svekkjandi að missa matinn en ég hef yfirleitt ekki lagt það í vana minn að fara í fýlu út í dýr svo ég reyndi bara að hlæja að þessu.
Það sem er ávanabindandi við spilakassa
Nema hvað. Ég hafði séð á netinu að það hafði einhver maður í Bretlandi hænt að sér máf sem hann kallaði Steven. Það tók heila eilífð en þetta gekk svona glimrandi vel. Máfurinn og Bretinn urðu perluvinir. Steven treysti þessum fuglelska manni meira að segja fyrir ungunum sínum. Þetta fannst mér hjartnæmt. Máfar hafa svo slæmt orðspor. „Rottur háloftanna,“ kallaði einhver kunningi minn þá. Ef til vill væri það rangnefni.
Ég lagði stund á nám í sálfræði í háskólanum áður en ég sneri mér að öllu ópraktískara námsvali (ég er bókmenntafræðingur). Ég stoppaði ekki lengi – en nægilega lengi til að hafa setið heilan áfanga í atferlisfræði. Það eru alveg merkileg vísindi sem hverfast um hegðun lífvera og hvað stjórni henni. Aðferðir atferlisfræða virka alveg gríðarlega vel á fólk, sem og aðrar lífverur. Maðurinn er dýr sem lýtur sömu lögmálum og dúfur og rottur.
Eitt sem hefur mikil áhrif á tíðni hegðunar er þegar styrking fyrir hegðunina er tilviljanakennd. Þá er tiltekin æskileg hegðun verðlaunuð, en þó alls ekki alltaf. Ég man eftir að hafa séð myndbönd í tíma af dúfum sem gátu ekki hætt að ýta á takka því að þær fengu stundum korn fyrir. Þetta var alveg óháð því hvort þær væru svangar eða ekki. Þær voru orðnar háðar tilviljanakenndum verðlaununum. Þetta eru sömu vísindi og liggja að baki velgengni spilakassa.
Rosalega ávanabindandi dæmi sem sagt.
Lífræna tunnan hver?
Innblásin af breska manninum á YouTube skildi ég eftir mat í dalli úti á svölum fyrir þennan vin minn stuttu eftir að hann hafði rænt af mér kexinu.
Dallurinn var samviskusamlega tæmdur um leið og ég yfirgaf svalirnar. Svona eftir á að hyggja dettur mér í hug að fuglinn hafi haft fyrri reynslu af svona matargjöfum vegna þess að allt frá þessu tók hann sér nánast varanlega stöðu á svölunum.
Þess er vert að geta að svalirnar liggja út frá svefnherberginu mínu.
Svo fuglinn sat á svölunum, við gluggann minn, starði á mig ásökunaraugum og beið eftir því að ég gæfi sér meira. Að því er virtist tímunum saman.
Sem ég gerði.
Stundum að minnsta kosti.
„Hér væri komin samviskusöm lífræn tunna með vængi.“
Hann spratt alltaf upp þegar ég birtist úti á svölum og flaug dágóðan hring hlæjandi. Kom svo og gúffaði í sig matarleifar. Ég hugsaði með mér að þetta væri fínasta fyrirkomulag. Svo umhverfisvænt. Ekkert myndi fara í lífræna ruslið því máfurinn myndi bara éta matarleifarnar fyrir mig. Hér væri komin samviskusöm lífræn tunna með vængi.
Ég bý á fjórðu hæð í lyftulausu húsi og hér er óvenjulega leiðinlegt að henda lífrænu rusli. Ég þarf að labba alla leið niður á jarðhæð, fara út úr húsinu og niður í frekar illa lyktandi ruslageymslu í kjallaranum. Auk þess sem það er frekar leiðinlegt að henda mat (og reyndar rusli líka) svona almennt.
Máfar eru heimtufrekar skepnur
Kannski væri þetta bara prýðilegt. Þetta vakti í það minnsta mikla lukku á Instagram. „Nýtt gæludýr, til hamingju!“ skrifaði ein vinkona mín. „Er ekki um að gera að gefa litla fríkinu nafn?“ spurði önnur. „Þetta á eftir að enda eins og í The Birds,“ sagði sannspá vinkona við mig, enda hafði ég kynnst henni í sálfræðinni.
Það voru nefnilega mistök hjá mér að halda að máfurinn myndi hegða sér eins og hænur eða smáfuglar. Eða jafnvel breski máfurinn Steven. Að hann myndi láta sér nægja að fá stundum og stundum smá mat hjá mér.
Nei. Aldeilis ekki.
Það var stórkostlegur misskilningur af minni hálfu. Þessar matargjafir áttu að vera á hans forsendum. Þetta gerði illfyglið mér fyllilega ljóst með því að taka upp á því að gogga í gluggann minn í tíma og ótíma til að tjá mér óánægju sína.
Ég hefði svo sem getað sagt mér að þetta færi illa. Máfar eru þekktir fyrir að vera frekar og ágengar skepnur. Þeirra slæma orðspor ef til vill verðskuldað. Þeir taka mikið pláss, hræðast ekkert og eira engu. Þeir éta ungviði annarra dýra og gleypa jafnvel fullvaxnar rottur. Vinkona mín lenti í því að máfur réðst á hana í Vesturbænum nýlega. Þeir eru líka frekar stórir, að minnsta kosti miklu stærri en þeir virðast úr fjarlægð.
Máfurinn fór sem sagt að gogga í gluggann hjá mér nánast öllum stundum. Þetta hljómar kannski næstum krúttlega eða jafnvel ómerkilega. Staðreyndin er hins vegar sú að máfar eru lygilega sterkir. Það glumdi í allri íbúðinni þegar hann byrjaði. Rúðan nötraði öll.
Hann vakti mig ítrekað á nóttunni með látunum í sér. Hann goggaði þegar hann sá mig koma heim úr vinnunni og starði á mig. Beið þess að ég gæfi sér meira. Í tíma og ótíma birtist hann og reyndi að ryðjast inn í hversdag minn. Eitt dúnk í einu.
Ég prófaði að gefa honum ekkert. Í beinu framhaldi hélt ég að hann myndi brjóta rúðuna. Ég prófaði að gefa honum meira. Það gekk ekki vel (sjá áðurnefnda útskýringu á tilviljanakenndri styrkingu og ávanahegðun sem úr henni getur sprottið).
Hann fór að gera það sama þegar hann sá vinkonu mína og sambýling heima. „Ragnhildur, vinur þinn er að spyrja eftir þér,” skrifaði hún í skilaboðum til mín.
Ég fór til Danmerkur í tvær vikur.
Hann var ennþá þarna þegar ég kom aftur heim.
Rúsínan í pylsuendanum
Ég hafði farið í útilegu einhvern tíma um sumarið og tekið með mér pylsupakka heim. Hann var afurð vanhugsaðra innkaupa sem áttu sér stað í ringulreið sumarblíðunnar á Suðurlandinu. Ég komst fljótlega að því að mér fyndust pylsur alls ekki eins girnilegar eða lystugar í heimahúsi og í útilegum – svo þær lágu ósnertar í ísskápnum í skammarlega langan tíma. Fimm talsins.
Ég frestaði því að henda þeim. Enda vildi ég það alls ekki. Þvílík uppgjöf. Þvílík sóun. Heill, óupptekinn og útrunninn pylsupakki að verða að flugnafóðri í brúnu tunnunni. Nei, takk.
Ég ákvað því að gefa máfinum þær til að sefa óánægjuna í honum þegar hann kom goggandi eitt skiptið sem oftar.
Ég vissi að þetta myndi að öllum líkindum ekki minnka goggið – þvert á móti myndi þetta, samkvæmt lögmálum atferlisfræðinnar, auka það. En ég vorkenndi honum. Mér fannst ég hafa lofað hjálparlausu dýrinu upp í ermina á mér. Sama tilfinning greip um sig og þegar nágrannakötturinn mjálmar ámátlega á mig þegar hann kemur í heimsókn. Mig langar alltaf að gefa honum túnfisk í dós þótt ég viti að ég megi það ekki.
Ég horfði á fuglinn sporðrenna hverri pylsunni á fætur annarri á meðan hann starði á mig köldum svörtum augum. Allur pakkinn hvarf ofan í máfinn á lygilega stuttum tíma.
Svo flaug hann burt og ég sá hann aldrei aftur.
Sá hann aumur á mér?
Varla.
Ég hef ef til vill ofboðið honum með skorti mínum á sæmilegri matseld. Kannski voru pylsurnar fyrir ellisakir orðnar eitraðar. Eða kannski var ófétið bara meira fyrir Goða en SS.
Svarið ætti að vera öllum augljóst.