Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur óskað eftir því við fjárlaganefnd Alþingis að gerð verði grein fyrir aðkomu stjórnvalda að starfsemi Running Tide á Íslandi. Hann vill sömuleiðis vita hvort starfsemi Running Tide skipti máli fyrir fjárheimildir ríkisins, en fyrirtækið gerði ráð fyrir að eiga vörubirgðir til kolefnisförgunar upp á 1,3 milljarða króna í síðasta ársreikningi sínum.
„Ef það kemur svo í ljós að þetta er allt einhvers konar grænþvottur og að stjórnvöld hafi verið plötuð til þess að gefa fyrirtækinu gæðavottun með undirritun sinni, þá er það augljóslega ámælisvert – upp á ansi háa upphæð. Stóra spurningin hlýtur því að vera hvort stjórnvöld hafi verið plötuð?“ spyr Björn Leví í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Hann staðfestir í samtali við Heimildina að hann hafi lagt fram beiðni til fjárlaganefndar um að málið verði tekið til skoðunar. Að minnsta kosti einn fundur er á dagskrá nefndarinnar fyrir þinglok, en ekki liggur fyrir hvenær hann verður.
Eins og Heimildin greindi frá í ítarlegri rannsókn í síðasta tölublaði, hafði Running Tide áætlanir uppi um að sökkva allt að 50 þúsund tonnum af kalksteinsblönduðu trjákurli, eftir að hafa fengið til þess leyfi íslenskra stjórnvalda. Fyrirtækið hafði þegar fleytt tæplega 20 þúsund tonnum í hafið undan Íslandi, í fyrrasumar. Running Tide hefur nú hætt starfsemi í Bandaríkjunum og sömu sögu er að segja af dótturfélagi þess á Akranesi.
Án þess að afla nokkurra óháðra álita skrifuðu fjórir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands undir vilja- og stuðningsyfirlýsingu við þessi áform fyrirtækisins árið 2021. Þrátt fyrir efasemdir stofnana sem fara með málefni umhverfis og hafs á Íslandi, var svo ákveðið að veita fyrirtækinu leyfi til að stunda starfsemi í íslenskum sjó. Það fékk fyrirtækið að gera án eftirlits, þar sem Bjarni Benediktsson, settur ráðherra umhverfismála, komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri um að ræða svokallað „varp í hafið“ þegar tugum þúsundum tonna af kanadísku trjákurli væri hent í sjóinn. Þar af leiðandi taldi Umhverfisstofnun hendur eftirlits síns hafa verið bundnar, þar sem „varp í hafið“ væri forsenda þess að stofnunin hefði með starfseminni eftirlit.
Þrátt fyrir viðvörunarorð og efasemdir komu íslenskir ráðherrar fram bæði með forsvarsmönnum Running Tide og töluðu fyrir því á opinberum vettvangi. Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- orku og auðlindamálaráðherra sagði til að mynda að Running Tide væri „stærsta einstaka kolefnisföngunarverkefni í heimi“ í viðtali í Kastljósi. Hann viðurkenndi í viðtali við Heimildina að hafa byggt þá fullyrðingu eingöngu á orðum forsvarsmanna fyrirtækisins.
„Þetta virðist vera lenskan hjá núverandi ríkisstjórn – að treysta bara því sem þeim er sagt í blindni,“ skrifar Björn Leví í grein sinni í Morgunblaðið í dag. „Eftirlit með laxeldi er víst með besta móti. Allt var í himnalagi þegar Íslandsbanki var seldur – best heppnaða útboð Íslandssögunnar hvorki meira né minna. Það er í fína lagi að brjóta stjórnsýslulög eða skipa góða vini í embætti – og þess háttar. Það þarf bara einhver að segja þeim að allt sem þau geri sé rétt og gott og þá þurfi ekki að hafa áhyggjur af neinu.“
Athugasemdir (2)