Birna Loftsdóttir, annar stærsti hluthafi Hvals hf. og systir Kristjáns Loftssonar forstjóra, segir að líklega verði engar hvalveiðar hjá fyrirtækinu í sumar þrátt fyrir að matvælaráðherra, Bjarkey Gunnarsdóttir, hafi gefið út veiðileyfi til fyrirtækisins sem og kvóta upp á 128 langreyðar. „Að sjálfsögðu ekki,“ segir hún við Heimildina.
Ákvörðun Bjarkeyjar um leyfisveitingarnar var afar umdeild, bæði hjá fylgismönnum sem og andstæðingum hvalveiða.
Kristján, bróðir Birnu, sagði í vikunni að líklega verði ekki af hvalveiðum í sumar þrátt fyrir leyfisveitingarnar þar sem ekki sé tími til að skipuleggja veiðarnar af því leyfin komi svo seint. „Ég sé ekki fyrir mér að orðið geti af hvalveiðum í sumar.“ Þau systkinin eru börn eins stofnenda Hvals hf., Lofts Bjarnasonar, og erfðu þau hlutabréfin í félaginu.
Birna segist ekki geta bætt miklu við þessi orð Kristjáns. „Ef hann segir að það verði ekki veitt þá verður ekki veitt. Ég hef engu við það að bæta.“ Aðspurð hvaða skoðun hún hafi á því að Hvalur ætli sér ekki að veiða hval í sumar segist hún ekki vilja svara því.
Athugasemdir