Í gær sagði Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, við Heimildina að þær 29 langreyðar sem leyfi væri fyrir að veiða milli Austur-Íslands og Færeyja árið 2024 yrðu aldrei veiddar sökum fjarlægðar frá hvalstöðinni. Sagði Árni að honum fyndist óábyrgt að blanda þessu svæði saman við svæðið milli Vestur-Íslands og Grænlands í veiðileyfinu. En á því svæði verður leyft að veiða 99 hvali í sumar.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra segir aðspurð að svona hafi þetta verið gert í gegnum tíðina. Að leyfi hafi verið gefin út á báðum þessum svæðum þrátt fyrir að sennilega hafi þau aldrei verið nýtt á öðru þeirra. „Leyfisreglan hefur verið sú að gefa þetta út á báðum stöðum. Og við breyttum engu í því núna,“ segir hún.
Er þetta þá ekki smá villandi framsetning að tala um 128 þegar þetta eru þá í rauninni bara 99 dýr sem má veiða?
„Þetta hefur verið með þessum hætti fram til þessa. Við í rauninni breyttum engu í því varðandi framsetninguna. Það má vel vera að það sé ruglandi fyrir einhverja,“ segir Bjarkey.
Hefur áður tekið langan tíma
Hún neitar að einhver sérstök hugsun eða mögulegur vilji liggi bak við það að draga ákvörðun sína svo lengi. „Ég kem hérna inn, það eru rétt um tveir mánuðir síðan. Þegar ég fékk þetta verkefni til mín þá óskaði ég eftir því að við myndum fara ofan í kjölinn á þessu máli. Og afla okkur gagna sem við höfum svo verið að gera“ segir hún.
„Ég vil halda því til haga að þetta er ekki í fyrsta sinn, þetta hefur gjarnan tekið talsverðan tíma.“ Hún bendir á að árið 2019 hafi Kristján Þór Júlíusson tekið sér fjóra mánuði í afgreiðslu málsins. „Án þess að nokkuð hefði í sjálfu sér breyst í lagaumhverfinu.“ Þá hafi leyfið ekki komið fyrr en 5. júlí.
Nú hafi þurft að taka tillit til álit umboðsmanns Alþingis frá í upphafi árs, sjónarmið og velferð dýra auk alþjóðlegra skuldbindinga. „Þetta erum við búin að vera að taka okkur tíma í að fara vel yfir. Þetta var til dæmis ekki undir á sínum tíma þegar þáverandi ráðherra tók sína ákvörðun.“
Nú hafa bæði þú og fulltrúar hinna stjórnarflokkanna vísað í að þessi ákvörðun sé tekin með vísun í lög. Það hefur verið mikill tími til að breyta lögum ef að vilji hefði verið til. Stóð vilji VG til þess að breyta lögum í þessa veru?
„Ég held að vilji Vinstri grænna liggi alveg fyrir í þessu máli. Vinstri græn hafa ályktað um það að hætta hvalveiðum. Ég kem eins og kunnugt er inn þegar vel er liðið á vorið og við erum u.þ.b. að ljúka þingi. Það er alveg ljóst að ég hefði ekki getað farið með jafn umdeilt mál inn á Alþingi og gert ráð fyrir því að fá afgreiðslu á því fyrir vorið.“
Bjarkey segir þó að halda þurfi áfram að taka samtal um málið í samfélaginu.
Ekki alltaf hægt að hafa hlutina eftir eigin höfði
Ef ég skil þig rétt þá er þín sannfæring að Íslendingar ættu ekki að veiða hvali. Finnst þér rétt að sitja sem ráðherra málaflokks þegar þú ert í rauninni að taka ákvarðanir gegn þinni samvisku?
„Í sjálfu sér er margt sem maður stendur frammi fyrir í stjórnsýslunni þegar maður þarf að taka ákvarðanir. Það er alveg ljóst að ráðherra hvers málaflokks á hverjum tíma getur aldrei búist við því að standa ekki frammi fyrir ákvörðunum sem honum falla alltaf í geð eða eru samkvæmt hans stjórnmálaskoðun. Þannig er það bara.“
Þá segir Bjarkey að sennilega væri enginn ráðherra ef hann þyrfti ekki að horfast í augu við það að hlutirnir væru ekki alltaf eftir hans eigin höfði. „Það væri heldur ekki gott ef það væri alltaf þannig að það gæti allt verið eftir manns eigin höfði. Þess vegna erum við nú með lög og reglur.“
Bjarkey vildi ekki svara því hvernig henni liði með ákvörðunina. „Í sjálfu sér er kannski tæplega hægt að tala um mína líðan, þetta er bara ákvörðun sem ég varð að taka og ég er svosem bara ósköp fegin að vera búin að taka hana og lítið meira um það að segja.“
Þetta mál er vel til þess fallið að setja í þjóðaratkvæði. Við höfum vel vit á því Íslendingar hvort leyfa skuli hvalveiði eða ekki. Og ef við kysum að leyfa ekki, þá má gefa Hvalamanninum 2 ár til að snúa sér að einhverju öðru. Ef við kysum að leyfa veiðar, þá það. Máli lokið.
Að eyða tíma og fé þings og þjóðar í þetta mál lengur er fáfengilegt og raunar hlægilegt hvernig umræðan er nú.
Hvað er þetta eiginlega með ísl. stjórnvöld og þjóðaratkvæði?