Hér eru mín lokaorð um forsetakosningarnar.
Ein athugasemd áður en forsetakosningarnar gleymast:
Það er ekkert ljótt og þaðan af síður ósiðlegt við að „kjósa taktískt“.
Það eru engin svik eða illmennska eða lágkúra í því fólgin.
Enda getur fólk ekki annars vegar krafist þess til dæmis að teknar verði upp tvær umferðir í forsetakosningum á Íslandi og svo hins vegar amast við því að fólk „kjósi taktískt“.
Það sem greinilega gerðist var að fólkið sjálft, kjósendur, skipulagði í sjálfum kjörklefanum „aðra umferð“ forsetakosninganna síðasta sólarhringinn.
Á grundvelli fjölmargra skoðanakannana á lokasprettinum sem allar settu Höllu Tómasdóttur og Katrínu í efstu sætin tvö.
Margir stuðningsmenn Höllu Hrundar og Baldurs litu því svo á að „fyrsta umferð“ forsetakosninganna væri í raun búin, og „önnur umferð“ fælist nú í að kjósa milli Höllu Tómasdóttur og Katrínar Jakobsdóttur.
Halla Hrund og Baldur kæmu ekki lengur til greina.
Og þetta fólk tók þá afstöðu samkvæmt eigin sannfæringu í sinni eigin „annarri umferð“.
Það spurði: Vil ég frekar Höllu Tómasdóttur eða Katrínu? Og svaraði því með atkvæði sínu.
Þetta er mjög eðlileg og sjálfsögð hegðun kjósanda í kjörklefa, og það á ekki að amast við því eða níða skóinn af því fólki sem þetta gerði.
Það kaus ekkert síður „með hjartanu“ en aðrir. Það var bara komið út í nýja umferð kosninganna.
Sjálfur gerði ég þetta reyndar ekki og kaus Höllu Hrund eins og ég hafði alla tíð ætlað, en biturleiki á ekki við í garð þeirra sem „kusu taktískt“.
Og það er heldur enginn álitshnekkir fyrir Höllu Hrund eða Baldur þó þau hafi „tapað atkvæðum“ á lokasprettinum síðasta sólarhringinn.
Þá var í raun, svo ég ítreki, komið í „aðra umferð“ kosninganna og stuðningsmenn þeirra litu (margir og réttilega) svo á að þau tvö væru þegar dottin naumlega úr leik.
Það var ekki „hatur í garð Katrínar Jakobsdóttur“ sem réði þessu, heldur tók fólk sína lýðræðislegu ákvörðun, eins og það hafði lýðræðislegan rétt til: Hvorn af tveimur frambjóðendum vil ég frekar?
Það er heldur ekki álitshnekkir fyrir Höllu Tómasdóttur þó hún hafi augljóslega fengið fullt af svona „taktískum atkvæðum“.
Þetta var einfaldlega sú „önnur umferð“ forsetakosninganna, sem svo margir höfðu óskað eftir, og Halla Tómasdóttir vann þá umferð bara mjög örugglega.
Því varð sigur hennar meiri en nokkur hafði spáð.
***
Upphaflega skrifað á Facebook.
https://www.rikisend.is/skyrslur/nanar?id=287
Fróðlegt verður að sjá uppgjör Katrínar Jakobsdóttur 2024
og ljóðin, er þutu um þitt blóð frá draumi til draums,"
Ég er gersamlega miður mín yfir þessari Amerísku Dale Carnegie innrás á Bessastaði. Við þurfum ekki sjálfshjálparnámskeið, meðan við höfum stórskáld á borð við Jóhann Jónsson:
SÖKNUÐUR
Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað,
og ljóðin, er þutu um þitt blóð frá draumi til draums,
hvar urðu þau veðrinu að bráð, ó barn, er þig hugðir
borið með undursamleikans
eigin þrotlausan brunn þér í brjósti, hvar?
Við svofelld annarleg orð,
sem einhver rödd lætur falla
á vorn veg - eða að því er virðist
vindurinn blæs gegnum strætin,
dettur oss, svefngöngum vanans, oft drykklanga stund
dofinn úr stirðnuðum limum.
Og spunahljóð tómleikans lætur í eyrum vor lægra.
Og leiðindin virðast í úrvinda hug vorum sefast.
Og eitthvað, er svefnrofum líkist, á augnlok vor andar,
vér áttum oss snöggvast til hálfs, og skilningi lostin
hrópar í allsgáðri vitund
vor sál:
Hvar!
Ó hvar? Er glatað ei glatað?
Gildir ei einu um hið liðna, hvort grófu það ár eða eilífð?
Unn þú mér heldur um stund, að megi ég muna,minning, hrópandi rödd,
ó dvel!
En æ, hver má þér með höndum halda,
heilaga blekking!
Sem vængjablik svífandi engla
í augum vaknandi barna
ert þú hverful oss, hversdagsins þrælum,
og óðar en sé oss það ljóst, er undur þitt drukknað
í æði múgsins og glaumsins.
Svo höldum vér leið vorri áfram, hver sína villigötu,
hver í sínu eigin lífi vegvilltur, framandi maður;
og augu vor eru haldin og hjörtu vor trufluð
af hefð og löggrónum vana, að ljúga sjálfan sig dauðan...
En þei, þei, þei - svo djúpt er vor samvizka sefur,
oss sönglar þó allan þann dag
við eirðarlaus eyrun
eitthvað þvílíkt sem komið sé hausthljóð í vindinn,
eitthvað þvílíkt sem syngi vor sálaða móðir
úr sjávarhljóðinu í fjarska.
Og eyðileik þrungið
hvíslar vort hjarta
hljótt út í bláinn:
Hvar?...Ó hvar?
Kjósendur bjarga sér einfaldlega því þeir eru að eiga við fáránlegt kosningakerfi. Þessu kerfi þarf að henda á haugana og taka upp írska kerfið.
:-) :-) :-) :-) :-) :-)