Auður Jónsdóttir (Laxness), handhafi Íslensku bókmenntaverðlaunanna, höfundur fjölmargra skáldsagna og álitsgjafi er mikið niðri fyrir um kosningabaráttu Katrínar Jakobsdóttur og sérstaklega stuðningsmanna hennar. Við lestur greinarinnar virðist það helst fara fyrir brjóstið á henni að fólk eins og hún sjálf lýsi yfir stuðningi við Katrínu. Hvað er svona slæmt við það?
Jú, það er elítismi og forréttindablinda. Aumingja Bubbi Mortens og Víkingur Heiðar, þeir skilja greinilega ekkert í hvers konar villu þeir vaða þegar fagurfræðin þjónar valdinu. Skrif Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu virðast hafa farið sérstaklega fyrir brjóstið á Auði, en hún sakar Kolbrúnu um eineltistilburði og efast um að hún skilji neitt í samtímanum – hvað þá bókmenntum. Það er eitthvað hálf broslegt við þann móralska ásökunartón sem hér birtist. Hefur Auður aldrei lesið neitt sem Kolbrún skrifar? Hefur Auði aldrei fundist ástæða til að stinga niður penna um afdráttarlausar skoðanir Kolbrúnar á mönnum og málefnum? Í kosningabaráttu gildir að forðast ekki ágreining og vera ekki móðgunargjarn. Um leið og Auður hvetur til átaka (eða skautunar eins og hún orðar það), er hún móðguð og full vandlætingar á andstæðum skoðunum Kolbrúnar. Auður eiginlega þolir ekki að Kolbrún hafi aðrar skoðanir en hún sjálf.
Og hverjar eru þá skoðanir Auðar Jónsdóttur? Hér vandast málið. Ekki vill hún Katrínu og alls ekki stuðningsmenn hennar, þetta óheilaga bandalag Bjarna Ben og þeirra góðu og rétthugsandi. En hún lýsir ekki yfir stuðningi við neinn, hún skilar auðu. Afstöðuleysi af þessu taginu er heppilegur og kannski óhjákvæmilegur fylgifiskur þeirrar vandlætingar sem einkennir grein Auðar. En þetta er ekki sérlega lýðræðislegt eða uppbyggjandi, en nokkuð lýsandi að vísu fyrir stöðu mála víða á vinstri vængnum þessa dagana. Nýlega lýstu tveir fyrrverandi forsætisráðherrar yfir stuðningi við Höllu Hrund. Ekki veit ég í hvaða samhengi Auður Jónsdóttir setur þær yfirlýsingar, líklega telur hún þær mistök og dæmi um elítisma.
Auður Jónsdóttir vill sveipa sig klæðum hins valdalausa almennings og gagnrýna þekkt fólk í listum og stjórnmálum, en hún gerir það í krafti þess að vera þekktur rithöfundur og vel skrifandi. Hún er ekki beinlínis hluti af þessum almenningi sem hún segist tala fyrir, hún sjálf er menningarelítan holdi klædd. Hún ætti kannski að hafa það í huga næst þegar hún gagnrýnir elítuna. Er ekki einhver forréttindablinda hér á ferðinni?
Þessar kosningar munu verða sögulegar í huga næstu kynslóðar fræðimanna. Aðstöðumunur frambjóðenda er geigvænlegur og kosningar fara fram án eftirlits.
Kosningar sem fela í sér siðrof.
Auður er hluti af listaelítunni og gerir sér vel grein fyrir því en hún er ekki blind og sér út fyrir þann ramma.
Kosningar eru leynilegar. Það er til þess að fólk geti kosið það sem það vill án afleiðinga. Það er því ekkert að því að halda því leyndu hvað maður kýs. Nú kannski hefur Auður bara ekki ákveðið sig. Þeir sem hugsa, vaða ekki áfram í blindni, beita oft útilokunaraðferðinni. Í hugum flestra (ekki þeirra blindu) er enginn frambjóðandinn fullkominn og því er valinn sá skásti/besti.
Katrínu er auðvelt að útiloka strax. Hún hefur verið að vinna að lagafrumvörpum, sem munu á næstu misserum jafnvel næstu árum koma til undirritunar forseta. Þannig séð er hún því í sömu stöðu og þingmaður, sem vill verða forseti á sama tíma. Framboð hennar gengur því ekki upp, er siðlaust. Þá skilur hún eftir sig sviðna jörð hvert sem litið er.
Ég get því miður ekki sagt hvern ég kýs, hef ekki ákveðið mig en er búinn að útiloka einn.
Það eru mikilvæg forréttindi að vera Íslendingur og búa við lýðræði. Við erum góðu vön og full vandlætingar yfir því hvernig valdhafar í útlöndum reyna að sölsa undir sig öll völd, meira en þeir voru kosnir til. Reyna t.d. að draga úr þrískiptingu ríkisvaldsins með því að skipa flokksmenn í dómarastöður og veikja fjölmiðla. Lítum á Pólland, Ungverjaland, Tyrkland, Rússland og USA. En hvað með skipun dómara á Íslandi og skipun lögreglustjóra án auglýsinga? Hvað með það þegar VG og D sameinuðust um að yfirtaka RÚV og skipa útvarpsstjóra sér þóknanlegan, sem síðan skipti út fréttastjóranum. Og nú er Bjarni Ben orðinn forsætisráðherra og Katrín á að verða forseti. Þetta er bara að verða huggulegt eins og þegar bræður voru (eða ætluðu sér að verða) forseti og forsætisráðherra í Póllandi en því miður ekki í samræmi við gott lýðræði.
Árás Kolbrúnar Bergþórsdóttur á Steinunni Ólinu fyrir að gagnrýna framboð Katrínar er hins vegar hrein lágkúra og Kolbrúnu til mikillar skammar. Ég man ekki eftir aumari tilraun til að þagga niður réttmæta gagnrýni.
Katrín sér það ekki því hún er, einhverra hluta vegna, ekki fær um það. Rörsýn? Blinda? Ég veit það ekki. En hún er, því miður, ekki fær um að sjá svikaslóðina sem hún dregur á eftir sér. Ég sé slóðina og fjöldi annarra kjósenda sömuleiðis.
Af hverju ætti hún að lýsa yfir stuðningi við einhvern frambjóðanda í umræddri skoðanagrein, þó hún setji fram vangaveltur um Katrínu og hennar stuðningslið? Má hún ekki bara hafa það fyrir sjálfa sig, nú eða skila auðu? Er þetta einhver barnaleg frekja í Birgi, nú eða kjánaleg tilætlunarsemi? Honum varðar einfaldlega ekkert um það, frekar en mér eða þér.