Aníta Björt Berkeley missti tæplega sjö vikna gamla dóttur sína Winter Ivý í nóvember síðastliðnum. Hún hefur nú deilt reynslusögu sinni í Facebook-færslu, þar sem hún segir farir sínar ekki sléttar af viðmóti og verklagi heilbrigðiskerfsins.
Að sögn Anítu hefur engin hreyfing orðið á máli hennar sem liggur á borði landlæknis síðan frá andláti dóttur hennar, en Aníta lýsir viðbragðsleysi og gaslýsingu af hálfu heilbrigðisstarfsfólks sem gert hafi lítið úr áhyggjum hennar og ásakað hana um að valda barni sínu kvölum þegar hún krafðist rannsókna á veikindum dóttur sinnar. Hún var send heim af spítalanum með dóttur sína ennþá veika og „ekki einu sinni hálfum sólarhringi seinna er Winter farin“.
„Mér var tilkynnt að ég væri að pynta barnið mitt“
Aníta fór með dóttur sína Winter á bráðamóttöku barna 31. október 2023, „í bráðri neyð“, en Winter var þá farin að verða andstoppa og með bláma. Anítu grunaði að um flog væri að ræða. Hún segist strax hafa mætt andstöðu frá heilbrigðisstarfsfólki, „það var gert lítið úr mér sem foreldri, gert lítið úr mínum áhyggjum fyrir heilsu dóttur minnar“. Hún hafi þurft síendurtekið að biðja um og þrýsta á að rannsóknir yrðu gerðar á heilsu dóttur sinnar, sem voru þó fáar, heilbrigðisstarfsfólk hafi þannig neitað að taka þvagprufur og blóðprufur. Þvagprufur voru loks teknar eftir mikið þref, „en ekki fyrr en að mér var tilkynnt að ég væri að pynta barnið mitt með því“. Aníta segir að læknir á bráðamóttökunni hafi hellt sér yfir hana og ásakað hana um að vera „valdur allra kvala hennar [Winter]“. Í þvagprufu kom í ljós að sýkingarparametrar hefðu hækkað en aftur hafi hún mætt andstöðu starfsfólks sem hafi ekki viljað gera neitt í því.
Winter var því útskrifuð og sögð vera við fulla heilsu, „þó svo að ástandið á henni var orðið verra en þegar að við komum inn á deild!“. Aníta segist hafa grátbeðið um frekari rannsóknir enda hafi barnið hennar verið sárkvalið á þessum tímapunkti, en enga frekari aðstoð fengið. Anítu var sagt að Winter væri „textbókar kveisubarn og lagast upp úr þriggja mánaða“, en aðeins tæpum hálfum sólarhringi síðar, eftir að hún var útskrifuð, lét Winter lífið.
Aníta segir í færslu sinni að niðurstöður krufningarskýrslu liggi nú fyrir og þar sé staðfest að heilaskemmdir hafi fundist, blettur í öðru lunga barnsins og merki um veirusýkingu í lungum og blóði. Umrædd veirusýking sé fær um að valda þeim einkennum sem Winter sýndi; „bláman, andstoppin, uppköstin, óværðina, ALLT!“. Sama veirusýking geti orðið börnum undir þriggja mánaða aldri að bana.
Aníta er ósátt við niðurstöðu skýrslunnar sem segir jafnframt að dánarorsök sé óljós og andláti Winter er lýst sem vöggudauða.
„6 vikna og 6 daga gömul dóttir mín. Sem stólaði á mig fyrir öryggi og líf. Sem að ég leitaði til ótal margra lækna og heilbrigðisstarfsmanna eftir að aðstoða hana… Var send heim til að deyja….“
Aníta segir svör heilbrigðiskerfisins tómleg, hún hafi setið tvo fundi með forstjóra Landspítalans, Runólfi Pálssyni, en hann hafi sagt henni að ekkert haldbært lægi fyrir til að senda umræddan lækni, sem útskrifaði dóttur hennar og hellti sér yfir Anítu, í leyfi. Einnig á Runólfur að hafa tjáð henni að starfsfólkið, hjúkrunarfræðingarnir og læknarnir, sem horfði á hana „á hliðarlínunni grátbiðja í 3 sólarhringi að Winteri yrði hjálpað“ hafi orðið fyrir áfalli við það að heyra af andláti dóttur hennar. Anítu þykir það „mjög taktlaus alhæfing“, í ljósi aðstæðna.
Aníta segir að einnig hafi komið í ljós að ekkert af bráðaveikindaeinkennum dóttur hennar hafi verið skráð í sjúkraskýrslu hennar og spyr hún í lokin: „Þetta er heilbrigðiskerfið okkar… hvar er réttlætið fyrir börnin okkar? Hvenær verður ábyrgðinni skilað á faglærðu læknana sem framkvæma þessu óafturkræfu mistök?“
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, deilir færslu Anítu og kallar eftir að ábyrgð sé að lágmarki viðurkennd, „svo að syrgjandi foreldrar viti að þeirra upplifun sé ekki hundsuð og afskrifuð“. Dóra segist sjálf hafa upplifað „vöntun á gæðaferlum innan heilbrigðiskerfisins“ og segir engan reiðubúin að axla ábyrgð. „Ég veit að kerfið er fjársvelt og fólk undir ómennsku álagi. Það afsakar samt ekki það að viðurkenna ekki mistökin.“
Athugasemdir (2)