Límmiðar. Af hverju safna börn ekki límmiðum lengur? Límmiðar gerðu okkur gott, kenndu okkur að býtta, að vera hörð í viðskiptum, góðir kapítalistar. Og bjölluat. Þegar ég var ung vorum við alltaf að gera bjölluat. Sérstaklega hjá gömlum konum því þær voru svo lengi að koma til dyra.
Sonur minn er átta ára í dag. Þegar hann var yngri sá eiginmaður minn um að fara með hann í leikskólann. Einhverju sinni kom áhyggjufull móðir að máli við mann minn sem þá var eini pabbinn sem sást reglulega á leikskólalóðinni. „Ertu með vinnu?“ spurði konan feimnislega. Þegar maðurinn minn kvað svo vera virtist konunni létt – veröldin varð aftur eins og henni fannst hún eiga að vera.
Vasadiskó. Af hverju hlusta krakkar ekki lengur á vasadiskó? Og af hverju eru þeir ekki allir með bakpoka; bakpoka til að geyma vasadiskóið í, kassetturnar og auka batteríin? Nú eru allar græjur orðnar svo litlar að það þarf enginn bakpoka.
Í byrjun árs árið 1930 birtist grein í Skinfaxa, tímariti Ungmennafélags Íslands, þar sem æska landsins var hvött til að taka aftur upp hina fornu list, bændaglímu. „Við þann leik undi sér æska gamla lýðveldisins, treysti orkuna og brýndi viljann.“
Í þvegnum leggings-buxum
Þegar ég var ellefu ára fór ég í fyrsta fjölskyldufríið til útlanda með foreldrum mínum. Dögum saman gramsaði ég í fataskápum heimilisins í leit að rétta dressinu fyrir flugið. Fyrir valinu urðu bleikar smekkbuxur og blússa með herðapúðum. Tíminn hefur leikið stílinn grátt og fjarlægðinni ekki tekist að draga úr stærð herðapúðanna en mér fannst ég fáránlega flott þar sem ég sat í vélinni umkringd uppábúnum Íslendingum.
Af hverju dressar fólk sig ekki lengur upp fyrir flug heldur situr með sætisbakið aftur í þvegnum leggings-buxum rétt eins og að það flatmagi á sófanum heima hjá sér og hámhorfi Netflix?
Sumarið 1980 voru forsetakosningar á Íslandi. Vigdís Finnbogadóttir, fráskilin, einstæð móðir, ákvað að bjóða sig fram. Mótframbjóðendur hennar voru þrír virðulegir karlar. „Ég átti ekki von á að sigra,“ sagði Vigdís í viðtali fyrir nokkrum árum við breska blaðið The Guardian. „Ég vildi einfaldlega sýna fram á að kona gæti gefið kost á sér.“
Þegar ég var átján ára tók ég í fyrsta skipti þátt í kosningum. Ég man ekki hvað ég kaus en ég man að ég valdi klæðnaðinn sem ég mætti í á kjörstað af kostgæfni: míní-pils og klumbuskór í anda Spice Girls – „yo, I’ll tell you what I want, what I really, really want.“
Af hverju dressar sig enginn lengur upp til að kjósa?
Hvað er svona merkilegt við það?
Yngsta barn mitt gengur nú í sama leikskóla og sonur minn forðum. Enginn spyr þó eiginmann minn hvort hann sé með vinnu. Það heyrir ekki lengur til tíðinda í London að feður sjáist drösla börnum sínum í leikskólann.
„Kjör Vigdísar í embætti forseta Íslands breytti viðhorfi fólks til kvenna í valdastöðum“
Árið 1980 varð Vigdís Finnbogadóttir fyrsta konan í heiminum sem kosin var í lýðræðislegum kosningum til að gegna hlutverki þjóðhöfðingja. Ég var eitt sinn spurð að því af Breta hvort mér hefði ekki þótt merkilegt að alast upp við slíkan kvenleiðtoga. Spurningin vafðist fyrir mér. Að endingu tókst mér að stynja upp svari: „Nei.“
Um síðustu helgi bauð forsetaframbjóðandinn Ásdís Rán Gunnarsdóttir hinum frambjóðendunum til veislu. Þótt oft virðist sem allt hafi verið betra í gamla daga fönguðu ljósmyndir af sex kvenframbjóðendum í samkvæminu hversu órökrétt sú tilfinning er. Þar birtist Ásdís Rán eins og samruni Marilyn Monroe og Jackie Kennedy, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir sem fjallkonan haldin ástríðu Jóhönnu af Örk, Halla Hrund Logadóttir sem næsta Vigdís, Helga Þórisdóttir sem óttalausi embættismaðurinn, Halla Tómasdóttir sem heimsborgari og Katrín Jakobsdóttir sem kona sem ber með reisn framagirni sem löngum var talin sjálfsögð í fari karla en merki um dramb hjá konum.
Kjör Vigdísar í embætti forseta Íslands breytti viðhorfi fólks til kvenna í valdastöðum. Ekki vegna þess hve merkilegt það var, heldur einmitt vegna þess hversu hversdagslegt það varð í sextán ára forsetatíð hennar að sjá konu gegna æðstu stöðu landsins.
Það er lán þjóðar að eiga svo margar frambærilegar konur í framboði. Enn meira lán er hvað okkur þykir það orðið sjálfsagt.
Athugasemdir (4)