Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, mælist með mest fylgi í nýjustu kosningaspá Heimildarinnar, eða alls 23,2 prósent. Munurinn á henni og Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra er þó sáralítill og ekki marktækur, en Halla Hrund mælist með 22,5 prósent fylgi. Um er að ræða minnsta fylgi sem Katrín hefur mælst með í þeim kosningaspám sem keyrðar hafa verið síðan að hún tilkynnti um framboð sitt snemma í síðasta mánuði. Halla Hrund hefur sömuleiðis verið að dala hratt í síðustu spám eftir að hafa mælst með 31 prósent fylgi í byrjun maímánaðar. Hún hefur ekki mælst með jafn lítinn stuðning og nú síðan 26. apríl.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur líka verið að síga í fylgi síðustu daga og vikur eftir að hafa mælst með yfir 27 prósent fylgi um miðjan síðasta mánuð. Það er nú komið niður í 17,8 prósent sem er það minnsta sem Baldur hefur mælst með í þeim kosningaspám sem keyrðar hafa verið í ár.
Sá forseti Íslandssögunnar sem kosinn hefur verið með minnstu hlutfalli atkvæða er Vigdís Finnbogadóttir þegar hún sigraði forsetakosningarnar 1980. Þá fékk hún 33,8 prósent atkvæða. Miðað við stöðu mála í kosningaspánni nú mun næsti forseti að óbreyttu verða kosinn með mun lægra hlutfalli atkvæða, og jafnvel með stuðningi minna en fjórðungs þjóðarinnar.
Nýr „fjórði“ frambjóðandi
Fyrrverandi borgarstjórinn og leikarinn Jón Gnarr var „fjórði“ frambjóðandinn allt þar til nú, hann er sá sem hefur meira og minna mælst með fjórða mesta fylgi þeirra sem hafa reglulega mælst með tveggja stafa tölur. Á því er nú orðin breyting þrátt fyrir að fylgið hans sé aðeins að hressast frá því í byrjun mánaðar og sé komið upp í 12,2 prósent.
Ástæðan er sú að Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team, er á mikilli siglingu og mælist nú með 14,4 prósent stuðning. Hún var með undir fimm prósent fylgi fyrir tíu dögum síðan. Síðast þegar Halla bauð sig fram til forseta, árið 2016, átti hún líka mikinn lokasprett. Þá náði hún hins vegar ekki fylgi í kosningaspám líkt og hún er að mælast með nú, tveimur vikum fyrir kosningar, fyrr en tveimur dögum áður en íslensk þjóð gekk í kjörklefann til að kjósa sér nýjan forseta.
Þegar atkvæðin voru talin þá endaði Halla með 27,9 prósent sem var langt umfram þá stöðu sem síðustu skoðanakannanir fyrir kosningarnar höfðu sýnt.
Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður og fyrrverandi dómari, er einnig að bæta við sig fylgi, en er þó einungis kominn upp í 5,7 prósent. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona er svo með 1,5 prósent og hinir fimm frambjóðendurnir skipta á milli sín 2,7 prósentustigum.
Hvað er kosningaspáin?
Kosningaspá Heimildarinnar er unnin í samstarfi við dr. Baldur Héðinsson. Hann hefur keyrt kosningaspálíkan sem hann smíðaði fyrir fyrirrennara Heimildarinnar í öllum kosningum sem fram hafa farið á Íslandi síðastliðinn áratug, og mun gera það í aðdraganda forsetakosninganna einnig.
Líkanið miðar að því að setja upplýsingar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar reglulega í Heimildinni, jafnt á prenti og vef, í aðdraganda kosninga.
Athugasemdir (1)