Verðbólgan er enn óvenju há á Íslandi, þrátt fyrir einstaklega háa stýrivexti í samanburði við önnur Evrópulönd. Til að ná árangri í lækkun verðbólgu er mikilvægast að úrræðin sem beitt er hafi rétt áhrif á helstu virku orsakaþætti verðbólgunnar hverju sinni. Uppá það hefur vantað.
Þegar úrræði Seðlabankans og stjórnvalda gegn verðbólgunni á síðustu árum og mánuðum eru skoðuð blasir við að þau hafa ekki snert helstu orsakir nógu vel og í sumum tilvikum hafa úrræði beinlínis stuðlað að hækkun verðbólgu. Þetta verður rökstutt í þessari grein. Einnig eru færð rök fyrir því að ríkisvaldið þurfi að beita sér gegn verðbólgu af mun meiri krafti en verið hefur. En skoðum fyrst yfirlit um helstu orsakir verðbólgu og virkni vaxtahækkana.
Helstu orsakir verðbólgu frá 2021 til 2024
Þegar fjallað er um orsakir verðbólgu hefur verið algengt að einblína á nokkur atriði og þá gjarnan gengið út frá því að orsakirnar séu nær alltaf þær sömu. Of mikið peningamagn í umferð segja sumir; of miklar launahækkanir segja aðrir; of mikil ríkisútgjöld segja enn aðrir og svo eru gengisbreytingar og innflutningsverð líka nefnd. Hjá mörgum eru svona staðlaðar alhæfingar oft meira byggðar á hugmyndafræði en raunverulegum gögnum.
Nú orðið mælir Hagstofa Íslands betur en áður framlag helstu orsakaþátta til verðbólgunnar hverju sinni og af þeim gögnum má sjá að helstu orsakir verðbólgu geta verið mjög breytilegar frá einum tíma til annars, jafnvel til skemmri tíma. Því þarf að skoða orsakir verðbólgu heildrænt og jafnframt hvernig orsakirnar breytast frá einum tíma til annars. Úrræðin þurfa að ráðast af orsökunum á sveigjanlegan hátt.
Mögulegar orsakir verðbólgu geta til dæmis verið eftirfarandi:
Hækkandi innflutningsverð; gengislækkanir; hækkun húsnæðisverðs; almenn eftirspurnarþensla; of ör vöxtur ferðaþjónustu; aukin ófjármögnuð útgjöld hins opinbera; aukin álagning fyrirtækja; og launahækkanir umfram framleiðniaukningu. Og þá er ónefndur viðvarandi fákeppnisvandi í íslensku viðskiptalífi, sem ýtir undir verðbólgu og alltof lítið er tekið á.
Ljóst má vera að vaxtahækkanir Seðlabankans virka ekki á suma þessara þátta. Þannig hafa vaxtahækkanir ekki bein áhrif á innflutningsverð, fjölgun ferðamanna, ríkisfjármál, álagningu fyrirtækja né launahækkanir – og alls ekki á fákeppnisvandann.
Helst hafa vaxtahækkanir bein áhrif á almenna eftirspurn (einkaneyslu) og íbúðarkaup. Þessi áhrif vaxtahækkana eru þó ekki öll á einn veg, eins og nánar verður fjallað um hér á eftir og þau dreifa byrðum verðbólgubaráttunnar ekki jafnt á þjóðfélagshópa.
Hækkun húsnæðiskostnaðar er stærsta rót verðbólgu
Frá því verðbólgan fór að aukast á árinu 2021 hefur húsnæðiskostnaður verið stærsta driffjöður verðbólgunnar. Hann vegur bæði mikið í verðlagsvísitölunni og hann hefur einnig hækkað óvenju mikið. Húsnæðisliðurinn er enn stærsti orsakavaldur verðbólgunnar skv. nýjustu mælingum Hagstofunnar.
Bensín og olía hækkuðu líka í upphafi verðbólgubylgjunnar og tóku síðan stökk eftir innrás Rússa í Úkraínu, ásamt verði á innfluttum matvælum og áburði. Þessir síðustu liðir hafa hins vegar gengið til baka á síðasta ári. Nú skýrir hækkun innlendra vara og þjónustu mest af því sem húsnæðisliðurinn skýrir ekki. Hann er þó enn áhrifamestur og virðist líklegur til að vera svo áfram.
Vaxtahækkanir bitna mest á þeim yngri og tekjulægri
Megin hugsunin á bak við helsta úrræði Seðlabanka Íslands er að hækkun vaxta muni draga úr eftirspurn innanlands, þ.e. almenningur muni draga úr einkaneyslu og íbúðarkaupum og það muni létta þrýstingi af verðhækkunum á almennri neysluvöru, þjónustu og íbúðum. Markmiðið er sem sagt að draga niður kaupgetu launafólks.
Hinn þekkti hagfræðingur Isabella Weber segir í nýlegri grein að við þurfum að átta okkur á því hvað felst í hækkun stýrivaxta. „Hún eru einkum til að koma kostnaðinum af verðbólgu yfir á launafólk (með því að rýra kaupmátt launa), yfir á velferðarkerfið (með niðurskurði opinberra útgjalda) og yfir á yngri kynslóðir (með minni fjárfestingum í íbúðarhúsnæði og atvinnutækifærum)“, segir hún. Þetta dregur athyglina að því að vaxtahækkanir bitna mjög misjafnlega á fólki í ólíkum þjóðfélagshópum.
Hagfræðingurinn Gylfi Zoega bendir einnig á að vaxtahækkanir lenda með mestum þunga á þeim sem skulda meira (þeir yngri sem hafa keypt íbúðir tiltölulega nýlega). Það bitnar einnig meira á þeim sem hafa minni tekjur og eiga minni sparnað eða eignir aflögu til að setja í íbúðarkaup, þ.e. fólk í lægri og milli tekjuhópum. Almennt finna þeir sem hafa hærri tekjur minna fyrir hækkun vaxta og því draga þeir betur settu síður úr eftirspurn sinni en þeir tekjulægri og eignaminni. Vaxtahækkunarúrræðið mismunar þannig fólki eftir stéttum í samfélaginu.
Vaxtahækkunarúrræðið er sem sagt ekki samfélagslega hlutlaust verkfæri. Hið sama á við um annað úrræði sem Seðlabankinn hefur beitt undanfarið, en það er bein takmörkun á heimildum þeirra tekjulægri til að fá lán til íbúðarkaupa, með hertari skilyrðum um greiðsluhæfi.
En það er ekki aðeins að vaxtahækkunarúrræðið geri upp milli fólks í ólíkum stéttum og á ólíkum aldri. Það gerir líka upp á milli fyrirtækja, þeirra sem framleiða fyrir erlenda og innlenda markaði.
Útflutningsfyrirtæki gera upp í erlendum gjaldmiðlum og geta hæglega sótt sér lánsfé á erlendum mörkuðum þar sem vextir eru almennt mun lægri. Fyrirtæki á innlendum markaði eru bundnari við innlendan lánamarkað og verða þar fórnarlömb vaxtahækkana íslenska seðlabankans sem skekkir samkeppnisstöðu þeirra. Fleira slíkt mætti tína til.
Vaxtahækkanir geta bæði lækkað og hækkað verðbólgu
En áhrif vaxtahækkana á verðbólgu eru heldur ekki öll til lækkunar verðbólgunnar. Helstu áhrif vaxtahækkana á verðbólgu eru sýnd á meðfylgjandi mynd.
Skoðum fyrst áhrifin á stærstu orsök verðbólgunnar frá 2021, þ.e. húsnæðiskostnað verðlagsvísitölunnar (efsta boxið hægra megin á myndinni). Þegar Seðlabankinn hækkar vexti þá eykur hann kostnað við íbúðabyggingar sem hægir á framboði íbúða. Þetta hefur þegar komið fram svo um munar. Það hefur verið að gerast á sama tíma og eftirspurn eftir íbúðum hefur verið mjög mikil og vaxandi, meðal annars vegna örs vaxtar ferðaþjónustu og fleiri greina. Nú er mjög mikið misvægi milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði.
HMS áætlar að á árunum 2024 og 2025 samanlögðum verði einungis um 60% af íbúðaþörf á landinu fullnægt, eða um 5.800 nýjar íbúðir af þörf upp á meira en 9.000 íbúðir. Því hefur íbúðaverð hækkað langt umfram annað verðlag og miklar hækkanir vaxta hafa einungis gert þetta ástand enn verra en það var fyrir.
Miklar hækkanir vaxta hafa þannig aukið eftirspurnarþrýsting á íbúðaverð í stað þess að draga úr slíkum þrýstingi. Með öðrum orðum, vandinn hefur aukist vegna vaxtahækkana. Meðalið virkar í ranga átt – verðbólga eykst.
Annar þátturinn snertir áhrif vaxtahækkana á fyrirtæki sem framleiða vöru og þjónustu fyrir innlendan markað. Þau skulda mörg mikið og verða fyrir kostnaðarþrýstingi vegna vaxtahækkana sem hætt er við að þau fleyti áfram út í verðlagið. Þetta á án efa þátt í talsverðum hækkunum á innlendri framleiðsluvöru og þjónustu undanfarið (box nr. 2 hægra megin á myndinni).
Þriðji þátturinn í áhrifum vaxtahækkana og hertra lántökuskilyrða felur í sér að kaupendamarkaði er því sem næst lokað fyrir ungum íbúðakaupendum, einkum þeim tekjulægri og eignaminni. Það fækkar kaupendum sem vinnur gegn eftirspurnarþrýstingi á íbúðaverð til skemmri tíma, en gerir það með því að fresta lausn vandans. Eftirspurnin hverfur ekki en hleðst upp til framtíðar. Það getur þýtt að mun lengri tíma getur tekið að komast fyrir rót vandans og þá verður verðbólgan hugsanlega þrálátari til lengri tíma. Verðbólga getur lækkað til skemmri tíma en leysist svo aftur úr læðingi síðar. Umframeftirspurn verður áfram eftir íbúðum.
Loks er síðasti áhrifaþátturinn (neðsta boxið hægra megin á myndinni) sem er líklegastur til að lækka verðbólguna, en það felst í þeirri rýrnun kaupmáttar launafólks sem orsakast af hækkun vaxtakostnaðar hjá þeim sem skulda í íbúðarhúsnæði. Það getur vissulega dregið úr eftirspurnarþrýstingi á verðbólgu með því að hægja á neyslu og á hagvexti. Þetta virkar þó lítið sem ekkert á þá sem lítið skulda, sem oft er eldra og/eða efnameira fólkið.
Seðlabankinn hefur með vaxtahækkunum sínum dregið niður hagvöxt úr um 8,9% árið 2022 niður í rúm 4% árið 2023 og nú er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði einungis um 1,5% á yfirstandandi ári. Það er sem sagt að hægja stórlega á hagvextinum – en samt gerir Seðlabankinn mikið úr því að enn sé þensla á vinnumarkaði.
Þó þessi aðferð Seðlabankans að beita vaxtahækkunum óvenju mikið miðað við grannríki okkar í Evrópu geti þannig að einhverju leyti lækkað verðbólgu þá hefur það gengið hægar en annars staðar, ekki síst vegna þeirrar sérstöðu sem ríkir á húsnæðismarkaðinum hér og vegna mótsagnakenndra áhrifa vaxtahækkana á verðbólgu.
Úrræði Seðlabankans duga ekki til
Ofangrein umfjöllun hefur dregið fram takmarkanir og galla vaxtahækkunarúrræðisins sem hefur verið lykilþátturinn í baráttu Seðlabankans gegn verðbólgunni. Úrræðið virkar ekki á allar orsakir verðbólgu. Það getur bæði virkað til hækkunar og lækkunar á sumum þáttum verðbólgu og er þannig ekki öflugt og markvisst. Aukaverkanir þess eru einnig alvarlegar fyrir húsnæðismarkaðinn. Þær viðhalda verðbólguhvetjandi vanda sem þar er og auka óréttlæti í samfélaginu.
Því þarf nú að breyta um áherslur. Verðbólgan lækkar alltof hægt og vextir eru alltof háir og raunvextir eru nú ört hækkandi. Margir spá því að verðbólgan verði áfram þrálát, einmitt vegna ástands og horfa framundan á húsnæðismarkaði. Seðlabankinn þarf að hefja vaxtalækkunarferil sem fyrst og ríkisstjórnin þarf að taka á verðbólguvandanum með meira afgerandi hætti en verið hefur. Í húfi er að ná betri árangri og tryggja að nýgerðir kjarasamningar virki eins og til er ætlast.
Ríkisvaldið þarf að taka betur á verðbólgunni
Til að rjúfa vítahring verðbólgunnar þarf ríkisstjórnin að koma með annars konar úrræði en Seðlabankinn hefur notað. Þeir sem horfa til þess að ríkisvaldið hafi hlutverki að gegna í baráttunni við verðbólguna segja oftast að ríkið ætti bara að draga niður útgjöld sín því þau séu þensluhvetjandi á verðbólguna. Það er ekki fær leið nú vegna mikilla innviðaskulda sem hafa safnast upp á síðasta áratug – í samgöngum, heilbrigðismálum, menntamálum og velferðarmálum. Að ganga enn lengra á innviðina magnar misvægi í samfélaginu og eykur vanda til framtíðar.
Aðalatriðið er að ríkið fjármagni útgjöld sín til fulls með einum eða öðrum hætti – öðrum en með almennum skattahækkunum á venjulegt launafólk. Það var óheppilegt að ríkið skyldi ekki fjármagna þær dýru aðgerðir sem ráðist var í vegna Kóvid, en það er orsök þess verðbólguhvetjandi halla á ríkisbúskapnum sem hefur verið viðloðandi síðan þá. Ekki er þörf á almennum skattahækkunum á launafólk til að laga það, en tímabærar lagfæringar á skattkerfinu sem ASÍ hefur bent á geta skilað því sem þarf.
Ríkisvaldið (ríki og sveitarfélög) þarf að grípa mun fastar inn í ástandið á húsnæðismarkaði (t.d. fækka strax Airbnb-íbúðum á höfuðborgarsvæðinu mikið og innleiða aftur endurgreiðslu virðisaukaskatts á byggingaframkvæmdir, sem og að koma á virkri leigubremsu og hömlum á brask með lóðir og íbúðir).
Ríkið þarf líka að tempra eftirspurnarþenslu þeirra tekjuhærri og eignameiri (t.d. með virkum hvötum til aukins sparnaðar og/eða með beinum skattabreytingum). Slíkar aðgerðir munu virka mun betur og hraðar en vaxtahækkanir Seðlabankans.
Þá þarf ríkið að tempra vöxt ferðaþjónustunnar sem hefur skapað mikið ójafnvægi gagnvart innviðum í landinu, auk þess sem hinn öri vöxtur ferðamanna og einkaneysla þeirra hefur bein verðbólguáhrif. Til að ná þessu fram mætti setja á komugjöld og draga úr skattaafslætti fyrirtækja í ferðaþjónustu. Fleiri úrræði af svipuðum toga koma til álita.
Loks þurfa Samtök atvinnulífsins (SA) að beita sér af meiri krafti fyrir verðlagsaðhaldi í fyrirtækjum og stjórnvöld þurfa að styðja við samkeppniseftirlit í stað þess að grafa undan því.
Niðurstaða
Ljóst er að úrræði Seðlabankans í baráttunni gegn verðbólgunni eru of takmörkuð og ómarkviss til að skila nægum árangri. Ríkisstjórnin þarf því að koma mun meira að verkefninu en verið hefur, með skynsamlegri og öflugri beitingu hagstjórnartækja sinna. Tryggja þarf að úrræði beinist betur að helstu orsökum verðbólgunnar til skemmri og lengri tíma, svo sem húsnæðismarkaðinum. Einnig að byrðum verðbólgubaráttunnar sé skipt með réttlátari hætti en verið hefur.
Nýgerðir kjarasamningar tryggja að launaþrýstingur umfram framleiðniaukningu verður ekki til staðar næstu 4 árin. Ef það dugar ekki til að ná verðbólgu og vöxtum vel niður verður það mjög afdrifaríkt fyrir stöðugleika og sátt í samfélaginu í framhaldinu.
???????
Að hella bensín á eld er ekki takmörkuð eða ómarkviss aðferðarfræði... hún er bara fyrir eitthvað allt annað en að slökkva eldinn.
Í guðanna bænum hættu að tala niður vandann vegna prótókóla og kurteisi... þetta er löngu komið yfir catalysispunktinn og verður ekki reddað með kurteisu prótókólhjali og smáskammtalækningum. Sem hefur auðvitað engin áhrif á verðbólguna en hún lækkar vegna sveltis í stækkandi þjóðfélagi. Vaxtaverkir eru ekki þensla.
Þessar hófsömu athugasemdargreinar vegna þátta sem hafa legið ljóst fyrir í áratugi hafa engin áhrif... staðan er catastrófa og lágvært mjálm verkalýshreyfinga og feiminna fræðinga og emeritius prófessora er þreytandi. Brýndu kutann og notaðu hann. Ekki hljóma eins og gamla meðvirka ASI.
Sjúkrahúsið er vel rekið og vel fjárhagslega statt..... verst allir sjúklingarnir eru dauðir.... er það lausnin sem verið er að vinna að ? Nýgerðir kjarasamingar eru horfnir... glópagull því allt hækkaði áður en blekið þornaði. Seðló hækkaði ekki vext ???? Ójú... þeir juku bindisskylduna... sem eru sama dæmið undir öðru nafni. Og Bankar og aðrir skila aldrei lækkunum til baka. Og skoðaðu Airbnbdæmið betur... ekki er allt sem sýnist og jafnvel verkalýðsfélög eiga tugi orlofsíbúða ... þessvegna í miðbæ Reykjavíkur. Og ríkið og borg hafa ekkert gert og ætla ekkert að gera enda þarf að fjármagna sérstök pálmatréstorg... ef þú skildir hafa gleymt því.