Þegar ég var 15 ára voru svokallaðar ofurfyrirsætur á hátindi frægðar sinnar. Konur eins og Naomi Campbell og Cindy Crawford voru heimsfrægar fyrir það eitt að vera fallegar. Eitthvað virðist frægðin þó hafa stigið þeim til höfuðs því allt í einu lék Crawford í kvikmynd og Campbell gaf út plötu. Þær voru hvorki færar leikkonur né söngkonur. Þær voru í raun afleitar sem slíkar. Af hverju þær renndu á þessi mið veit ég ekki en ég velti því fyrir mér hvort þær hafi mögulega búið við óhóflega og óheilbrigða dýrkun fremur en góða og gagnreynda endurgjöf. Hvort þeim hafi verið hælt á þann hátt að þær töldu sig æðri og sérstakari en aðrir og þar af leiðandi raðað í kringum sig fólki sem einungis upphóf tilvist þeirra. Sjálfsmat þeirra hafi í kjölfarið orðið svo uppblásið að það hafi farið á stjórnlaust flug og kjölföst lending ekki lengur innan seilingar. Í þeirra augum varð þeim allt fært og þar bjó hættan.
„Sjálfhverfa beinir athyglinni mjög að eigin skoðunum og miðar allt við sjálfa sig. Viðmót getur orðið hrokafullt og yfirlætislegt og upplifun á sérstöðu og mikilvægi er ráðandi. Sjálfhverft fólk getur verið bæði skaðlegt og leiðinlegt í samskiptum.“
Ég fór í kjölfarið að leiða hugann að því hvort allir geti ofmetið eigið ágæti ef þeir fá of mikla athygli og of mikið lof. Þegar maður telur að góð hæfni í einu leiði sjálfsagt af sér góða hæfni í öðru eða jafnvel öllu. Mér varð að lokum hugsað til forsetaframbjóðendanna áttatíu og tveggja og fór að velta því fyrir mér hvort einhverjir þeirra væru hugsanlega að ofmeta eigið ágæti.
Heilbrigt sjálfsmat eða sjálfhverfa?
Þegar við tölum um sjálfsmat erum við að tala um innri upplifun um eigið ágæti og gildi. Heilbrigt sjálfsmat kemur frá reglulegu innliti í eigin garð og stöðugri sjálfsrýni. Fólk með heilbrigt sjálfsmat er meðvitað um virði sitt, sama hvað á móti blæs. Heilbrigt sjálfsmat er meðvitað um takmarkanir sínar og gengst við þeim.
Sjálfhverfa gerist hins vegar þegar ofmat verður á eigin virði. Sjálfhverfa beinir athyglinni mjög að eigin skoðunum og miðar allt við sjálfa sig. Viðmót getur orðið hrokafullt og yfirlætislegt og upplifun á sérstöðu og mikilvægi er ráðandi. Sjálfhverft fólk getur verið bæði skaðlegt og leiðinlegt í samskiptum.
Forleikur, miðspil og eftirspil
Einn sá fyrsti til leiks í framboðssókninni var góðkunningi þjóðarinnar og sjálfsyfirlýstur friðarsinni með meiru. Ástþór virðist ekki ná upp á dekk meðal landsmanna en þó gefst hann ekki upp á að reyna að sannfæra okkur um að hann sé verðugur leiðtogi lýðveldisins og að flestir aðrir séu spilltir. Á þessu stigi leiks stigu einnig fram maður að nafni Arnar og fleira fólk sem fáir könnuðust við. Forleiknum síðan lauk þegar Fönix reis úr öskunni og skreytti sig með myllumerkinu #Frúforseti. Sigríður Hrund sagði innan um ógrynni háfleygra orða í viðtali á Instagram-síðu sinni að hún muni vinna þessar kosningar. Svo einfalt væri það. Sigríður hefur þegar þetta er skrifað, enn ekki náð lágmarki undirskrifta til stuðnings forsetaframboði sínu. Einkennist forleikurinn að aðdáunarverðri þrautseigju eða ranghugmyndum oflætisins? Það verður hver að dæma fyrir sig.
Miðspilið einkennist af einstaklingum sem hafa hlotið árangur og aðdáun á sínu sviði og sem virðast þykja sjálfsagt að yfirfæra þann meðbyr í átt að virðingarfyllsta sæti þjóðar okkar. Í þennan hóp má telja Höllu Tómasdóttur, viðskiptakonu og forstjóra erlendis, Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur leikkonu, Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar, Guðmund Felix handþega og Ásdísi Rán, þekkta fyrirsætu í Búlgaríu sem kann á þyrlu. Miðspilið fór aldrei á flug og þrátt fyrir skort á stuðningi halda flest þeirra baráttu sinni áfram. Einkennist miðspilið af ofmati á mikilvægi og röklausri yfirfærslu? Það verður hver að dæma fyrir sig.
Eftirspilið einkennist af kanónunum. Þjóðþekktu fólki sem eru skör hærra þegar kemur að áhrifum og áhugaverðum afrekum. Þessi hópur er þó gífurlega fjölbreyttur. Við erum með Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóra og grínara. Hann gefur þessari baráttu kómískan blæ sem fólk almennt veit ekki hvort eigi eða megi taka alvarlega. Hann er sem stendur einn af fremstu í skoðanakönnunum og lengi vel var ég fylgjandi honum. Síðan fór hann í hlaðvarpsþátt sem ég og margir eiga erfitt með að umbera. Ég lít nefnilega svo á að þolendur eigi að njóta vafans.
Þar á eftir erum við með stjórnmálafræðinginn Baldur sem er giftur ástsæla leikaranum Felix. Það væri femínískt að kjósa samkynja hjón á Bessastaði en ég er ekki viss um að Baldur sé femínískur.
„Sumir upplifa hana hafa skilið okkur eftir í súpunni. Eftirmaður hennar í ríkisstjórn er ekki allra og viðurkennir helst aldrei mistök eða bara neitar að þau hafi átt sér stað“
Dökki hestur forsetakosninganna er Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og afkastamikil kona bæði að mennt og afrekum. Hún er hins vegar ekki jafnþekkt hinum almenna borgara og hinir og það gæti unnið á móti henni þótt hún áhugaverð sé.
Að lokum erum við með Katrínu Jakobsdóttur sem þar til fyrir korteri fór fyrir ríkisstjórn Íslands. Margir eiga erfitt með að hún hafi farið í þessa baráttu sökum þess að hún baðst lausnar frá öðru starfi sem hún var einnig kosin í af þjóðinni. Sumir upplifa hana hafa skilið okkur eftir í súpunni. Eftirmaður hennar í ríkisstjórn er ekki allra og viðurkennir helst aldrei mistök eða bara neitar að þau hafi átt sér stað. Margir upplifa hann beita gaslýsingu í samtölum sínum við kollega og þjóð. Það er skaðlegt og eykur á aðskilnaði, ótta og ruglingi. Stjórnmálarýnandinn geðþekki og prófessorinn Ólafur Þ. Harðarson virðist allavega ekki hafa haft undan síðustu misseri að koma í fréttirnar á RÚV og reyna að útskýra fyrir okkur óreiðuna og sviptingarnar í íslenskum stjórnmálum. Hvernig verður rjóminn þegar mjólkin er mygluð? Það verður hver að dæma fyrir sig.
Sundurslitin þjóð?
Við erum svolítið tætt þjóð sem stendur og virðumst eiga erfitt með að taka afstöðu sem heild landinu okkar til sóma. Við fordæmum söngkonu á leið í Eurovision en styðjum galvösk fótboltaleik Íslendinga við Ísrael þrátt fyrir að maður grunaður um kynferðisbrot sé þar innan okkar vébanda. Við leyfum manni að njóta ágóðans af mektarstöðu í Washington þrátt fyrir að grunsemdir um ósiðlegt athæfi á hótelherbergi hafi farið hátt í fjölmiðlum. Við erum með ríkisstjórn sem gefur út dvalarleyfi handa fólki á átakasvæðum en látum vopnlausar miðaldra mæður fara út á stríðssvæði og sækja börn í lífshættu. Við upphefjum bitlausa áhrifavalda og vafasama fótboltamenn á meðan fæstir vita um afreksfólkið okkar hérlendis í vísindum og þekkingu. Við erum orðin að þjóð sem látum ekki kné fylgja kviði og virðumst verðlauna slæma hegðun. Eitt sinn heilbrigt og jarðbundið sjálfsmat örlítillar þjóðar eru orðið sjúklega sjálfhverft og uppblásið. Það er því kannski er ekki svo einkennilegt að aragrúi alls konar einstaklinga sem margir hafa lítið sem ekkert til afreka unnið líti svo á að þeir séu verðugir leiðtogar lýðveldisins.
Lokaorð
„Ísland ekki lítið land, Ísland er stórasta land í heimi“, kvað ein forsetafrúin okkar þegar við urðum eitt sinn sigursæl á alþjóðavettvangi. Síðan þá hefur verið einhver andskotans rembingur í okkur. Við eigum ekki lengur einungis fallegustu konur og sterkustu menn í heimi. Gott silfur er orðið gulli betra og strákarnir okkar eru alltaf strákarnir okkar óháð kærufjölda. Íslenska þjóðarsálin er farin að remba sig og margir ætla sér yfirgengilega góða mannkosti í orði og telja það nægt farteski á Bessastaði. Eins gott og það er að vera með gott sjálfstraust þá er öllu heilla að vera meðvitaður um takmarkanir sínar og vera á varðbergi gagnvart ofmati á eigin ágæti. Ég leyfi því hér með að berast til frambjóðendanna áttatíu og tveggja og þeirra sem þá lofa.
Athugasemdir (4)