Í febrúar voru tveir menn handteknir vegna rannsóknar á grófu kynferðisbroti á konu. Annar sakborninganna er leigubílstjóri. Brotaþoli hafði verið mjög ölvuð og tekið leigubíl þar sem hún taldi sig vera örugga. Hún rankaði hins vegar við sér á ókunnugum stað úti í bæ og taldi að brotið hefði verið á sér.
Blaðamaðurinn Jóhannes Kr. Kristjánsson fékk að fylgjast með störfum kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við rannsókn málsins. Afraksturinn er fyrsti þáttur nýrrar hlaðvarpsseríu á Heimildinni, Á vettvangi.
Hægt er að hlusta á þáttinn með því að smella á tengil hér til hliðar.
Litlar upplýsingar í upphafi
Í þættinum kynnist Jóhannes störfum deildarinnar og fylgir henni allt frá því að hún fer að leita að þeim sem grunaðir voru um aðild að kynferðisbrotinu. Í upphafi hafði lögreglan úr mjög litlu að moða vegna þess að ekki var vitað hver vettvangur glæpsins var eða um hvaða leigubíl væri að ræða.
„Það voru í rauninni engar upplýsingar, þannig að við þurfum að fikra okkur svolítið áfram og skoða myndavélar eða reyna að komast að því hvernig hún borgaði. Og það er svolítið erfitt að elta þetta og tekur mikinn tíma,“ sagði einn rannsóknarlögreglumaðurinn við Jóhannes þegar byrjað var að rannsaka málið.
Leigubílstjórinn samvinnuþýður en lyginn
Upplýsingarnar um leigubílinn fengust með dómsúrskurði frá posafyrirtækjum en þannig var hægt að komast að því hvaða nafn væri að baki greiðslunni.
Eftir þó nokkra leit að umræddum bíl fannst hann og eigandi hans í leigubílaröðinni við Keflavík. Hann var þar handtekinn, tveimur dögum eftir meint brot. Leigubílstjórinn reyndist mjög samvinnuþýður og var tilbúinn að gefa DNA. Eftir fyrstu skýrslutöku varð þó ljóst að ræða þurfti við hann aftur.
„Hann er ekki að segja okkur satt – mögulega hefur hann ekki viljað skipta sér af þessu eða hlífa vini sínum,“ sagði lögreglan við Jóhannes að fyrri skýrslutöku lokinni.
Sá handtekni hafði nýlega eytt símanúmeri sem hann hafði verið í miklum samskiptum við. Taldi lögreglan að það væri hinn maðurinn sem hún leitaði að.
Seinni sakborningurinn virtist ætla að flýja handtöku
Fékk Jóhannes að koma með í ómerktum lögreglubíl með tveimur rannsóknarlögreglumönnum sem leituðu að seinni grunaða manninum.
Maðurinn fannst eftir nokkra leit á mögulegum vettvangi glæpsins, en Jóhannes varð vitni að handtökunni sitjandi inni í lögreglubíl. Sá grunaði var í kjölfar handtökunnar færður á lögreglustöðina á Hverfisgötu ásamt vitni.
Vitnið, félagi þess grunaða, virtist hafa verið að taka saman dót með hinum grunaða. Voru þeir að þessu þegar þeir voru handteknir. Af samtölum Jóhannesar við lögregluna má greina að lögreglan taldi að hinn grunaði hafi verið að reyna að koma sér burt þegar hann náðist.
Stuttu síðar var farið fram á farbann yfir báðum sakborningum – bæði leigubílstjóranum og seinni manninum.
Eftir seinni handtökuna fékk Jóhannes að sjá þegar meintur vettvangur glæpsins var rannsakaður. Þar var ferðataska á rúmi þar sem greinilega hafði verið að pakka einhverju saman. Vettvangur er pínulítið herbergi og eitt klósett, en aðstæður virtust stemma alveg við lýsingu þolanda.
Athugasemdir