Í Kaupmannahöfn rann þriðjudagurinn 16. apríl upp bjartur og fagur. Starfsmenn ríkis og bæja höfðu tekið daginn snemma og á opinberum byggingum og víðar mátti sjá danska fánann, Dannebrog, dreginn að húni í tilefni afmælis Margrétar Þórhildar drottningar. Bakarar í Kaupmannahöfn kepptust við að baka og skreyta sérstakar afmæliskökur sem allir íbúar hjúkrunarheimila og íbúðarhúsa aldraðra í borginni fá sendar í tilefni dagsins. Sá siður var tekinn upp þegar Covid herjaði árið 2020 og hefur verið viðhaldið síðan. Fátt benti til stóratburða.
Fjöldi iðnaðarmanna var þennan þriðjudag mættur til vinnu í Børsen þar sem undanfarin ár höfðu staðið yfir miklar viðgerðir og endurbætur á þessari þekktu byggingu. Á næsta ári verða 400 ár síðan hún var tekin í notkun og Børsen var fyrsta byggingin í Danmörku sem var friðlýst.
Á þakinu við turnspíruna var 25 ára blikksmíðanemi, Kenneth Dühring, að ganga frá koparplötum og hugsaði með sér að það yrði gaman að geta bent ættingjum og vinum á koparplöturnar sem hann hefði lagt og áttu að endast í 100 ár. Klukkan 7:36 heyrði Kenneth að brunabjalla, beintengd við slökkviliðið, fór í gang einhvers staðar í húsinu. Slíkt var alvanalegt og slökkviliðið hafði margoft komið á staðinn en fram til þessa farið erindisleysu ef svo mætti að orði komast. Kenneth sá engan reyk, hann fór niður á pall við þakið þar sem vinnufélagi hans var, þar stóðu þeir örskamma stund en urðu einskis varir. Kenneth fór svo aftur upp til að halda áfram við að ganga frá koparplötunum, en sá þá smávegis reyk koma upp meðfram turnspírunni. Hann kallaði í félaga sinn og eins og hendi væri veifað blossaði mikill eldur upp, þeim félögum og fleirum sem voru við vinnu á þakinu tókst að komast niður.
Slökkviliðið sem hafði fengið boð frá brunabjöllunni var tæplega fjórar mínútur að komast á staðinn, sá fyrst engan eld en áður en varði æddi eldurinn um og eldtungurnar teygðu sig upp eftir turnspírunni. Klukkan 8.30, aðeins 54 mínútum eftir að fyrsta brunabjallan hringdi, féll 56 metra há turnspíran með brauki og bramli. Fljótlega varð ljóst að lítt yrði við eldinn ráðið og slökkviliðið mátti sín lítils, þrátt fyrir sín öflugu tæki. Hluti slökkviliðsins einbeitti sér að því að verja syðri hluta byggingarinnar (um 40 prósent hússins) og tókst að hindra að eldurinn bærist þangað.
Í Børsen var að finna óteljandi ómetanleg listaverk, málverk og styttur. Á myndum sem birst hafa í fjölmiðlum má sjá fólk á harðahlaupum með málverk og fyrir einskæran dugnað tókst, að sögn framkvæmdastjóra Viðskiptaráðsins, að bjarga 99 prósentum þeirra listaverka sem í húsinu voru. Þau voru, í lögreglufylgd, flutt í öruggar geymslur fyrir utan borgina. Sama gilti um gömul og mikilvæg skjöl sem geymd voru í húsinu.
Allt brunnið sem brunnið gat
Í nyrðri hluta Børsen brann allt sem brunnið gat. Hluti af útveggjum hússins stóð eftir þegar tekist hafði að ráða niðurlögum eldsins. Ekki er á þessari stundu ljóst hvort eitthvað af útveggjunum verður nothæft við endurbygginguna. Hluti veggjarins sem sneri að Børsgade (götunni sem liggur að Knippelsbrú) hrundi tveimur dögum eftir brunann og sömuleiðis gaflinn sem sneri að Kristjánsborgarhöll.
Fyrirferðarmikla vinnupalla utan á og innan í húsinu hefur reynst tímafrekt og erfitt að fjarlægja, til verksins hefur einn stærsti krani sem til er í Danmörku verið fluttur á staðinn, hann vegur 200 tonn. Ljóst er að hreinsunarstarf í brunarústunum tekur langan tíma og óvíst hvenær því lýkur.
Húsið verður endurreist
Ekki þarf að fjölyrða um að tjónið af völdum brunans er gríðarlegt. Danskir fjölmiðlar hafa greint frá því að húsið hafi verið vel tryggt og Brian Mikkelsen, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðsins (fyrrverandi þingmaður og ráðherra), hefur í viðtölum sagt að Børsen verði endurreistur. Flestir, ef ekki allir, virðast sammála því en eitt er að endurreisa, annað hvernig sú endurreisn verður. Þar eru ýmis og ólík sjónarmið uppi. Miðað við ummæli framkvæmdastjóra Viðskiptaráðsins má gera ráð fyrir að turnspíran fræga verði nákvæmlega eins og sú sem eyðilagðist í eldinum.
„Í Børsen var að finna óteljandi ómetanleg listaverk, málverk og styttur. Á myndum sem birst hafa í fjölmiðlum má sjá fólk á harðahlaupum með málverk og fyrir einskæran dugnað tókst, að sögn framkvæmdastjóra Viðskiptaráðsins, að bjarga 99 prósentum þeirra listaverka sem í húsinu voru.“
Einhverjar raddir hafa heyrst sem segja að nú eigi, í takt við breytta tíma, að setja nýja og öðruvísi turnspíru, en fleiri og háværari raddir segja slíkt fráleitt. Þar er gjarnan vitnað í umræður og ákvarðanir varðandi turninn á Notre Dame-kirkjunni í París, hugmyndir um „nútímaturn“ kölluðu fram mikil mótmæli og niðurstaðan varð að fylgja upprunalegum teikningum. Þess má geta að turnspíran á Børsen hefur einu sinni verið endurgerð, það var árið 1776 en þá var fylgt upphaflegu teikningum arkitektanna Lorenz van Steenwinckel og Hans van Steenwinckel yngri sem teiknuðu húsið, með „aðstoð“ Kristjáns IV konungs, sem sagður er hafa skipt sér af öllu stóru og smáu. Ástæða endurgerðarinnar 1776 var að upphaflega spíran var, ásamt undirstöðum, ekki talin nógu traust. Það er kaldhæðni örlaganna að drekarnir fjórir sem mynda spíruna áttu að vera „eins konar verndarengill hússins“ sem sæi til þess að það myndi aldrei brenna.
Hvað með húsið að innan?
Þegar endurgera þarf 400 ára gamalt hús er í mörg horn að líta. Þótt Børsen hafi talsvert verið breytt frá upprunalegu horfi er þó margt nánast óbreytt. Stórtækasta breytingin var salurinn, Børssalen, eins og hann heitir. Salurinn er, eða var, um það bil 500 fermetra stór, á 19. öld var salnum breytt mikið og mörgum fannst hann einna helst vera eins konar eftirlíking hátíðasalarins í Frederiksborgarhöllinni á Sjálandi. Hvað sem því líður hefur salurinn verið vettvangur margra stórviðburða á liðnum árum.
Salurinn og fleiri minni salir hafa verið leigðir fyrir alls kyns veislur og mannfagnaði, sama gildir um fundarherbergi sem voru fjölmörg í húsinu.
Skiptar skoðanir
Áður en endurreisnarstarfið hefst þarf að ákveða hvort innrétta eigi húsið sem líkast því sem það var áður en ósköpin riðu yfir þann 16. apríl sl. eða hvort húsið verði innréttað að nútímahætti. Nákvæmar teikningar af húsinu, bæði að utan og innan, eru til, þær voru gerðar áður en hafist var handa um viðgerðir á húsinu.
Arkitektinn Jørgen Overby, sem rekur arkitektastofu í eigin nafni og hefur sérhæft sig í endurgerð gamalla stórbygginga, hefur ákveðnar skoðanir varðandi Børsen. Útlit hússins á að hans mati að vera óbreytt en öðru máli gegnir um húsið að innan. „Margir eru mjög uppteknir af salnum, Børssalnum, mér finnst engin eftirsjá í honum enda seinni tíma breyting og hálfgerð eftiröpun á innréttingum í þekktum enn eldri byggingum.“ Varðandi aðra hluta hússins segir Jørgen Overby að þar hafi svo miklu verið breytt að ekki sé hægt að tala um neitt upprunalegt, „það sem ekki brann er eiginlega eins og dæmigert skrifstofuhúsnæði frá 7. áratug síðustu aldar, og þannig var það líka með þá hluta hússins sem eldurinn gleypti“.
Myndlistarmaðurinn Bjørn Nørgaard, einn þekktasti núlifandi myndlistarmaður Dana og fyrrverandi formaður ráðgjafarnefndar danska menningarmálaráðuneytisins, hefur ákveðnar skoðanir varðandi endurbyggingu Børsen. Útlit hússins á að vera algjörlega óbreytt en innandyra mætti hluti þess vera sem líkastur því sem var eftir breytingar sem gerðar voru á 18. öld en hluti hússins yrði innréttaður í nútímastíl, eins og listamaðurinn komst að orði. Hann lagði líka áherslu á að við allt efnisval yrði kappkostað að nota efni sem hefðu staðist tímans tönn og nefndi kopar, múrstein, sandstein og úrvals timbur. „Ekki að kaupa það ódýrasta á einhverju útboði, af slíku hefur verið allt of mikið gert á síðustu áratugum og útkoman blasir við, mikilla endurbóta þörf á svo til nýjum húsum,“ sagði Bjørn Nørgaard.
Hallarkirkjan, Slotskirken, sem stendur við hlið Kristjánsborgarhallar, fjær Børsen, skemmdist mikið í eldi árið 1992, þegar flugeldur kveikti í þakinu. Þá var leitað til ítalskra sérfræðinga varðandi viðgerðir á kirkjunni og einn viðmælenda dagblaðsins Politiken sagði að sú viðgerð hefði heppnast einstaklega vel, „við kunnum margt og sumt betur en aðrir, en ekki allt,“ sagði Kirsten Nielsen, formaður fagfélags byggingafræðinga í viðtali.
Hvernig endurbyggður Børsen kemur til með að líta út kemur ekki í ljós fyrr en eftir nokkur ár, kannski áratug.
Athugasemdir