Yfir landinu öllu liggur ládeyða. Lognmolla sem ég ímynda mér að sé grákennd á litinn og lyktar eins og skítugur, blautur ullarsokkur. Á Facebook poppa reglulega upp færslur hjá fólki sem finnur þörf fyrir að vitna í Styrmi Gunnarsson heitinn. Hann sagði við rannsóknarnefnd á vegum Alþingis í kjölfar hrunsins að þetta væri ógeðslegt þjóðfélag, þetta væri allt ógeðslegt, engin prinsipp, engar hugsjónir, ekki neitt nema tækifærismennska og valdabarátta. Ládeyðan er ekki vegna þess að það sé lítið um að vera og að við séum að upplifa tímabil þar sem ríkir stöðugleiki.
Þvert á móti eru hrókeringar í hverju horni. Óvinsælasti stjórnmálamaður samtímans vann í stólalottóinu og náði að hrifsa til sín valdamesta stólinn eins og fingralangur óþokki í japanskri teiknimynd. Hann segir hælisleitendamálin, lögreglufrumvarp dómsmálaráðherra og orkumálin vera sér efst í huga. Við yppum bara öxlum og setjum ekkert spurningarmerki við forgangsröðunina sem á mannamáli þýða: bara sum börn stríðshrjáðra landa, ekki öll, forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu fela í sér miklar skerðingar á friðhelgi einkalífsins, og svo orkumálin: Virkja, virkja og virka svo enn meira.
Það er engin áhersla á málefni sem bæta samfélagið og gerir það manneskjulegra. Skaðaminnkunarúrræði eins og afglæpavæðing neysluskammta, verndun óspilltrar náttúru og víðerna. Móttaka fólks á flótta undan stríði og dauðanum. Heilbrigðiskerfið er ekki bara í molum, heldur að breytast í fjársvelt hættusvæði þrátt fyrir óbilandi velvilja og þolgæði starfsfólks.
„Það er engin áhersla á málefni sem bæta samfélagið og gerir það manneskjulegra.“
Það gengur engin bifreið á ást og hugsjón, það þarf að fylla á tankinn með beinhörðum peningum ef vélin á að ganga eins og henni er ætlað að gera. Þetta er fallegt samfélag sem við búum í, en ógeðslegt stjórnarsamstarf. Engin prinsipp, engar hugsjónir, bara tækifærismennska og valdabarátta. Við getum byrjað á því að rífa okkur upp úr ládeyðunni, taka stærri skammta af D-vítamíni, lyfta þungu, næra okkur vel og mæta svo tvíefld eftir sumarfrí og endurnýta gullmola eins og helvítis fokking fokk – í sameiningu. Þessi skítugi blauti ullarsokkur er farinn að úldna verulega.
Athugasemdir