Orðið samhygð er mér kært. Það kjarnar svo mikið og margt af því sem lífið hefur kennt mér. Þetta hefur ekki alltaf verið einfalt og eins og lífið getur oft verið flókið og erfitt held ég að samhygð hafi komið mér á þann stað sem ég er í dag. Samhygð sem aðrir hafa sýnt mér og ég í framhaldinu reynt eftir fremsta megni að sýna öðrum.
Þegar ég var að alast upp í gamla vesturbænum í lok síðustu aldar voru aðrir tímar. Það var mikið í gangi í þjóðfélaginu. Kvennalistinn kom fram og margir skörungar hófu að stinga á kýlum samfélagsins. En sem samfélag vorum við þó ekki enn komin á þann stað að talað væri um hlutina upphátt. Margt af því sem markaði, og mótaði, mína kynslóð voru hlutir sem ekki mátti ræða um. Hlutir sem þóttu skammarlegir og ekki eiga erindi við almenning. Það sem gekk á innan fjölskyldna skyldi haldið innan þeirra, vafalítið vegna þess hve mikil skömm fylgdi því að eitthvert vandamál væri til staðar. Þetta voru hlutir á borð við alkóhólisma, ofbeldi, vanrækslu á börnum, geðsjúkdóma og svo mætti lengi telja.
„Margt af því sem markaði, og mótaði, mína kynslóð voru hlutir sem ekki mátti ræða um“
Við krakkarnir gengum mörg hver sjálfala um hverfið og allir þekktu alla, þannig séð. Það vissu t.d. allir krakkarnir hvar „perrarnir“ í hverfinu bjuggu en ég efast um að nokkrir foreldrar hafi vitað af því enda slíkt ekki rætt. Við vissum nákvæmlega hvar vændishúsið var staðsett og hvaða kallar voru óþægilegir þegar við komum að rukka fyrir Moggann eða Dagblaðið. Þegar einhver nákominn kom fullur heim í hverfið hjálpuðumst við krakkarnir að við að koma honum heim en um þetta var heldur aldrei rætt. Þau sem voru beitt ofbeldi töluðu ekki um það en flest vissum við þó af því – þetta var bara partur af veruleikanum, við þessu var ekkert að gera.
Ég minnist þess vel þegar ég var níu ára og pabbi minn fór í meðferð. Um þetta mátti ekki ræða utan fjölskyldunnar og mér var því uppálagt að segja að hann væri að vinna úti í sveit ef einhver skyldi spyrja. Ég geri mér þó grein fyrir því í dag að það vissu allir hvers kyns var.
Þegar ég byrjaði í gagnfræðaskóla var það regla, frekar en undantekning, að unglingar reyktu og drykkju. Þetta þótti okkur hinn eðlilegasti hlutur og ég minnist þess ekki að um þetta hafi nokkurn tíma verið rætt þannig séð, a.m.k. ekki við okkur krakkana. Hvorki af kennurum, foreldrum né öðrum.
Þegar ég hugsa til baka geri ég mér grein fyrir því hvað þessi þöggun hafði mikil áhrif á okkur öll – krakkana. Eftir því sem við eltumst fórum við ólíkar leiðir og lífið lék okkur misjafnlega. Við lentum ekki öll „réttum megin“ við línuna og mörg okkar dönsuðu á henni um tíma.
Undanfarin ár hef ég unnið mikið og náið með einstaklingum sem hafa einhverra hluta vegna lent fremur harkalega í lífinu. Þetta eru einstaklingar sem eru gjarnan heimilislausir, nota vímuefni og/eða glíma við geðsjúkdóma. Ástæður þess að einstaklingar lenda í þeirri stöðu geta verið margar. Það sem flest eiga þó sameiginlegt er einhvers konar áfall eða áföll sem hafa leitt til þess vanda sem einstaklingurinn er kominn í.
Það sem hefur breyst frá því að ég var að alast upp er það að í dag er um þetta rætt. Við getum talað um það opinberlega að einstaklingar og fjölskyldur glími við ýmiss konar vanda. Einstaklingar koma gjarnan sjálfir fram og greina frá því að þeir glími við, eða hafi glímt við, einhvers konar vanda.
Við höfum opnað á umræðuna um það í samfélaginu að víða sé mikið um alls konar vanda og vanlíðan. Stundum afmarkaðan en oft og tíðum flókinn og fjölþættan vanda. Þessi grundvallarbreyting hefur gert það að verkum að við getum tekið á vandanum, eða a.m.k. reynt það. Við getum stutt við þá einstaklinga sem glíma við vanda og fjölskyldur þeirra. Í stað þess að reyna að þegja hlutina í hel og láta eins og vandamálin séu ekki til getum við rætt þau. Við getum rætt við fólkið sem glímir við vandann og þá sem að þeim standa.
„Í stað þess að reyna að þegja hlutina í hel og láta eins og vandamálin séu ekki til getum við rætt þau“
Það sem kemur þó gjarnan í ljós þegar rætt er við einstaklinga um vanda og vanlíðan er rótin – nefnilega hlutirnir sem ekki voru ræddir og ekki mátti ræða.
Því miður er það síðan stundum þannig að við getum ekki leyst allan vanda. En það þýðir þó ekki að við getum ekkert gert. Við getum nefnilega gert heilmikið samt. Eitt það mikilvægasta sem lífið hefur kennt mér er nefnilega það að með því einu að vera til staðar og sýna samhygð getur maður gert ansi mikið. Við þurfum ekki að hræðast það að taka upp mál eða ræða þótt við höfum ekki lausn – við getum alltaf sýnt samhygð.
Sjálf hef ég sem betur fer ekki verið í þeirri stöðu að vera heimilislaus, háð vímuefnum eða að missa börnin mín frá mér en það þarf þó ekki að koma í veg fyrir það að ég geti sýnt fólkinu í kringum mig samhygð.
Að sýna fólki samkennd, hlýhug og samstöðu getur vegið þungt því eins og skáldið sagði: „Bros getur dimmu í dagsljós breytt, aðgát skal höfð í nærveru sálar.“
Athugasemdir