Það er mars á Flateyjarskaga. Veturinn á Norðurlandi hefur framan af verið mildur og snjóléttur en það er ekki öll von úti enda norðan stormur í kortunum. Við öndum að okkur frískandi köldu lofti á einum af þessum minnisstæðu sólardögum vetrarins. Okkur líður í litla stund eins og vorið sé að koma. Það hreyfir ekki vind, ský sjást í fjarska og nálgast. Dagurinn verður góður, og sólin með okkur í liði í nokkra klukkutíma enn. Það liggur lausamjöll yfir öllu. Hún er glæný og fislétt. Á Íslandi er maður þakklátur þegar snjóar í logni. Dúnmjúkt, glitrandi hvítt teppi liggur á hnjúkum og fyllir dali og það er ekki sálu að sjá, við eigum fjöllin alveg út af fyrir okkur. Við þurfum þau ekki öll enda ferðumst við um á fjallaskíðum og náum einum eða kannski tveimur toppum á tveimur jafnfljótum. En tilfinningin er góð. Að vera ein fjarri mannabyggðum í stærstu kennslustofu skólakerfisins, sjálfum okkur næg og öræfakyrrðin alltumlykjandi.
Þetta er vinnustaðurinn og gríðarstór kennslustofa Fjallamennskunáms Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Nemendur eru allskonar fólk á öllum aldri sem sækir lærdóm í náttúruna og fjöllin. Það sækir þekkingu í námið sem nýtist allsstaðar í samfélaginu þegar það snýr til baka til sinna ólíku starfa. Námið felst í því að auka eigin færni, læra að leiða aðra á fjöll og stækka heim náttúruupplifunar og fjallamennsku á Íslandi. Við kennararnir færum þeim fjöllin og þá kunnáttu og ábyrgð sem þarf í umgengni við náttúruna. Það eru forréttindi en ekki léttvægt hlutverk því fjöllin gefa ekkert svigrúm fyrir mistök. Í náminu lærum við að nýta styrkleika og finna veikleika. Við lærum á okkur sjálf, stækkum þægindarammann og finnum ný mörk. Við kennararnir komum með þekkingu og reynslu inn í þessa kennslustofu. Þekkingu í náttúrulæsi og viðbragði við ólíkustu aðstæðum. Fjöllin sjálf eru leiðbeinandi og kenna glímuna við; sjálfið, heiminn og náttúruna, veita styrk og innblástur en líka ró sem er ekki auðfundin á annan hátt. Það er oft sem hlutirnir fara ekki eins og maður hafði hugsað sér og aðstæður breytast á svipstundu. Þá eru nemendur komnir með verkfærasett til að bregðast við hinu óvænta. Fjallamennskunámið er valdeflandi, opnar hugarheim og styrkir tengslanet. Það dregur til sín manneskjur á öllum stigum lífsins úr bókstaflega öllum geirum samfélagsins og það eru einhverjir töfrar sem eiga sér stað þegar fólk kynnist á fjöllum. Sambandið er sterkara þegar þú þarft að sofa með fólki í tjaldi, ganga saman í línu, tryggja hvort annað í klifri, rata saman í gegnum hríðarbyl eða horfa saman til allra átta í logni á fjallstoppi. Í því felst traust og nánd sem erfitt er að nálgast í nútímanum þar sem fjarlægðin við næsta mann hefur aldrei verið meiri.
Náttúruupplifunin er meginástæða þess að fólk kemur til Íslands. Að sjá og upplifa ósnortna náttúru, kyrrðina á hálendinu, lætin í fossunum. Aðdráttarafl jöklanna er ótvírætt, þeir eru fallegir og ógurlegir í senn. Sá fjöldi fólks sem heimsækir landið í ævintýraleit hefur aldrei verið meiri. Fleiri Íslendingar sækja einnig á fjöll, í leit að upplifun og tengingu. Þetta er þó ekki án áhættu, fólk getur lent í lífsháska og slasast. Þjálfun er oftast týndi hlekkurinn milli ævintýraferðamennsku og þess að ferðast af öryggi. Mikilvægi þess að læra að lesa í náttúruna, jöklana, veðrið, snjóinn, fólkið og fjöllin er gríðarlegt. Hlutverk fjallaleiðsögumanns er að leiða sína gesti af öryggi um varhugavert landslag og í erfiðum aðstæðum. Það þarf þekkingu og skilning á veðurfari, landslagi, snjóalögum og eðli jökla. Og þegar hlutirnir fara úrskeiðis þarf að kunna handtökin; meðhöndla línur, framkvæma hvers konar björgun, rata í vondu skyggni og hafa styrk til þess að sinna bæði sínum þörfum og gesta sinna í krefjandi aðstæðum. Fjalla-, jökla- eða gönguleiðsögumaður þarf því að hafa sterkan grunn, þjálfun og reynslu til að sinna starfi sínu.
Þessi heimur opnast nemendum í Fjallamennskunámi FAS. Námið leggur ríka áherslu á alls konar ferðalög á jöklum, þar sem nemendur læra að umgangast jökla, vinna með línur og bjarga félögum úr sprungu. Færni í rötun og kortalestri getur síðan skipt sköpum þegar þarf að komast niður af fjalli í hríðarbyl, svartaþoku eða niðamyrkri. Nemendur hljóta grunn í snjóflóðafræðum og björgun. Þau læra á fjallaskíði og að klifra í ís og klettum. Þau læra fyrstu hjálp og viðbragð í óbyggðum. Þau gista í tjöldum um miðjan vetur og ganga með vistir fyrir marga daga á fjöllum og verja töluverðum tíma á Vatnajökli sjálfum sem gnæfir yfir bakgarði skólans á Höfn.
FAS er eini skólinn á landinu sem býður upp á slíkt nám. Rauði þráðurinn í gegnum námið er þekking, fagmennska, færni og öryggismál í fjallaleiðsögn. Námið veitir faglega þjálfun, fer eftir stöðlum í fjallaleiðsögn og leggur línurnar fyrir grunnnám í þessu fagi. Það er aðgengilegt öllum og á viðráðanlegu verði. Eftir námið bíða starfsmöguleikar í lifandi umhverfi sem hentar mörgum betur en annað. Nemendur FAS hafa farið um víðan völl eftir námið og mörg nýtt námið í spennandi verkefni. Tækifærin liggja ekki eingöngu í fjallaleiðsögn heldur líka í nýsköpun í ferðaþjónustu, landvörslu og störfum á friðlýstum svæðum, náttúrufræðslu og loks liggja gríðarleg tækifæri innan skólakerfisins þar sem bráðvantar aukna áherslu á útivist og náttúrulæsi.
Nú stendur skólinn frammi fyrir breytingum en fjármagn til reksturs á náminu stendur á sér. Annað hvort þarf að leggja námið niður eða sækja fjármuni á fleiri staði. Aukið fjármagn er nauðsynlegt fyrir næsta skólaár svo hægt sé að halda áfram að starfrækja námið. Þetta nám er bæði mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna í heild sinni en einnig fyrir flóru menntunar á Íslandi. Það er styrkur í fjölbreyttu námsframboði fyrir okkur öll, og þarna eru tækifæri til þess að hafa jákvæð áhrif á ört stækkandi atvinnugrein. Ljóst er að áhersla á náttúrukennslu og útivist í skólakerfinu þarf einnig að aukast. Þar spilar Fjallamennskunámið mikilvægt hlutverk.
Kennarar og nemendur FAS berjast nú fyrir því að halda náminu gangandi og við það vantar okkur hjálp. Annars vegar er mikil hjálp fólgin í því að láta stjórnendur hjá ráðuneytum, þingmenn og fólk í áhrifastöðu vita af mikilvægi menntunar í fjallamennsku og útivist á Íslandi. Hins vegar hjálpar að dreifa orðinu um Fjallamennskunám FAS, sækja um í námið og tala opinberlega um mikilvægi námsins. Það er opið fyrir umsóknir í námið fyrir skólaárið 2024-2025. Við höldum ótrauð áfram og bjóðum öll 18 ára og eldri sem vilja læra með okkur á fjöllum velkomin í Fjallamennskunám FAS.
Athugasemdir