Fyrir nokkrum árum kaus einn kunningi minn Sjálfstæðisflokkinn, en strikaði yfir nafn Bjarna Benediktssonar. Það er eitthvað kómískt við það að kjósa flokk og strika yfir nafn formannsins, en að mörgu leyti er það táknrænt fyrir stjórnmálaferil Bjarna Benediktssonar. Bjarni hefur aldrei beinlínis verið maður alþýðunnar, aldrei notið hylli út fyrir raðir flokksmanna, og ætíð hefur hann verið umdeildur innan flokksins. Ástæðan er einföld: Bjarni er ættarlaukur úr Garðabænum, kemur úr rótgróinni valdaætt og umfangsmikilli í viðskiptalífinu. Mörgum finnst þetta vafasamur baggi í nútímastjórnmálum, þó það hafi verið algengt á árum áður. Hrunið, Panamaskjölin og sala Íslandsbanka – svo eitthvað sé nefnt – tengja Bjarna í hugum almennings við brask sem hæfi ekki formanni stjórnmálaflokks.
Umdeildur innanflokks
Bjarni varð formaður flokksins 2009 og hefur því setið óvenju lengi í formannsembætti. Formannsferillinn hefur þó ekki verið neinn dans á rósum. Mótframboð hafa komið frá Pétri Blöndal, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Þegar tugir þúsunda skrifa nú undir einskonar vantraustsyfirlýsingu (margir nafnlaust) á nýjan forsætisráðherra, þá er full ástæða til að ætla að margir þeirra séu fylgismenn eða fyrrverandi fylgismenn Sjálfstæðisflokksins. „Minn tími er ekki liðinn“ segir Bjarni nú vígreifur, en hann hefur oft á ferlinum haft ástæðu til að lýsa því yfir. Bjarni er því augljóslega flinkari stjórnmálamaður en hörðustu gagnrýnendur hans vilja vera láta.
Löng ríkisstjórnarseta
Bjarni tók við formennsku í Sjálfstæðisflokknum á erfiðum tíma í kjölfar hruns bankakerfisins. Í aðdraganda kosninga vorið 2009 var flokkurinn ekki aðeins með allt niður um sig í efnahagsmálum, heldur komu í ljós miklar greiðslur banka og útrásarfyrirtækja til flokksins. Flokkurinn beið mikinn ósigur, fékk 24% atkvæða og hefur verið á því róli lengst af formannsferli Bjarna. Þrátt fyrir að stórveldistíð Sjálfstæðisflokksins hafi í raun lokið við hrunið, hefur Bjarna tekist að halda flokknum í ríkisstjórn óslitið frá 2013. Þetta er nokkuð afrek hjá honum og áhugavert að bera saman stöðu flokksins í landsmálum og borgarmálum. Í borginni hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið einangraður og ekki átt möguleika á meirihlutaaðild frá 2010. Bjarni hefur, ólíkt flestum fyrri formönnum flokksins, þó þurft að sætta sig við fjármálaráðuneytið fremur en forsætisráðuneytið. Löng ríkisstjórnarseta bendir til þess að Bjarni sé ekki erfiður í samstarfi, þó hann haldi sínum stefnumálum á lofti.
Afdrifarík mistök
Í formannstíð sinni hefur Bjarni reynt að færa flokkinn til nútímans í ýmsum atriðum, ekki síst með því að bæta stöðu kvenna. Það er kannski ekki tilviljun að helstu óánægjuraddir innan flokksins í dag eru síð-miðaldra menn á borð við Jón Gunnarsson. Þeir hafa ekki sömu völd og áður og hafa allt á hornum sér. Þá dreymir helst um stjórn með Miðflokknum, sem er ekki svo fjarlægur möguleiki.
Bjarni hefur einnig gert sín mistök. Afdrifaríkustu mistök Bjarna voru að samþykkja framlagningu þingsályktunartillögu um að draga aðildarumsókn Íslands að ESB til baka. Tillagan var flutt að undirlagi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þáverandi forsætisráðherra og leiddi til klofnings í Sjálfstæðisflokknum. Í kjölfarið var Viðreisn stofnuð og möguleikar Sjálfstæðisflokksins til að stækka hafa minnkað í kjölfarið. Stofnun Viðreisnar hefur einnig raskað valdahlutföllum innan Sjálfstæðisflokksins. Innan Viðreisnar hafa ekki aðeins ESB-sinnar fundið heimili, heldur einnig fólk sem var gagnrýnið á ýmislegt í stefnu flokksins, m.a. í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Innan Sjálfstæðisflokksins er því ekki jafn hátt til lofts og vítt til veggja og áður var. Flokkurinn virkar íhaldssamari en áður, meiri áhersla er lögð á landsbyggðina en höfuðborgina, og umfram annað er varðstaða um sjávarútveginn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki beinlínis yfirbragð umbóta eða nýjunga. Samstarf við Vinstri græna og Framsóknarflokkinn eru við þessar aðstæður góður kostur, fáum bátum er ruggað og möguleikar til málamiðlana eru miklir.
Íslenskir og breskir íhaldsmenn
Sjálfstæðismenn hafa gjarnan sótt hugmyndir sínar til breska Íhaldsflokksins. Eftir langa valdasetu eru flokkarnir báðir í vanda. Á Bretlandseyjum er efnahagurinn slæmur og Brexit vonbrigði. Innflytjendavandinn verður við þessar aðstæður kjörið umræðuefni. Þegar frjálshyggjan lendir í vanda, er hægrisinnuð þjóðernishyggja lausnin. Bjarni Benediktsson vill nú „verja landamærin“ og taka upp „raunsæja“ innflytjendastefnu, talar eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki haft dómsmálaráðuneytið samfleytt í heilan áratug. Bjarni er ekki náttúrlegur popúlisti, honum fer betur að tala um skatta og hagvöxt en „innflytjendaógnina“. Líkt og breskir Íhaldsmenn hafa komist að, dugar þó lítt að hjala um innflytjendur ef efnahagsmálin eru í ólestri og flokkurinn virkar þreyttur og hugmyndasnauður eftir langa valdasetu.
Kjörtímabilið klárað?
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hefur göngu sína í mótbyr. Óvinsælasti ráðherrann er nú andlit ríkisstjórnarinnar og helsti talsmaður hennar. Bjarni er þó vanur slíku andstreymi og væri það í samræmi við feril hans til þessa ef ríkisstjórnin kláraði kjörtímabilið. Hvort „tími Bjarna“ endi við lok kjörtímabilsins skal ósagt látið, en hitt er víst að stjórnarflokkanna bíður erfið kosningabarátta.
Athugasemdir