Fyrr í dag gaf Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, í skyn að bandarísk stjórnvöld íhuguðu nú að fella niður ákærur á hendur Julian Assange, stofnanda WikiLeaks.
Nú er Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, búinn að vera í fimm ár í Belmarsh fangelsinu; einu mesta öryggisfangelsinu í Bretlandi – þar sem hann er enn og berst gegn framsali til Bandaríkjanna. Hann hefur verið þar síðan lögreglan handtók hann í sendiráði Ekvador í London, í apríl árið 2019.
Ákæruliðir byggja á njósnalöggjöf frá 1917
Í mars síðastliðnum úrskurðaði breski hæstarétturinn að Julian Assange fengi að áfrýja framsalsbeiðni Bandaríkjanna, þar sem 175 ára fangelsi vomir yfir honum. Mál hans verður tekið fyrir á ný þann 20. maí.
Í úrskurðinum var farið fram á að Assange myndi ekki verða framseldur ef að Bretum hefði ekki borist skrifleg staðfesting á því að í Bandaríkjunum yrðu grundvallar mannréttindi hans virt.
Fari svo að Assange verði framseldur á hann von á hámarksrefsingu fyrir átján ákæruliði sem byggja á bandarískri njósnalöggjöf frá árinu 1917. Það er í fyrsta sinn í sögu Bandaríkjanna sem mál er rekið gegn blaðamanni grundvallað á henni.
„Við erum að íhuga það“
Síðastliðinn febrúar hafði ástralska þingið samþykkt ályktun þess efnis að Assange fengi að snúa aftur til Ástralíu en stjórnvöld þar hafa lengi þrýst á Bandaríkin að fella ákærurnar niður. Biden var í Washington í dag þegar fréttamenn spurðu hvort hann myndi verða við því.
„Við erum að íhuga það,“ svaraði Joe Biden, þar sem hann gekk í hægðum sínum með dökk sólgleraugu, nokkuð hlutlaus á svip, eftir hvítum gangi og bandaríski fáninn skyggði á hann. Svar sem gæti glætt von fyrir Assange að það grilli í ljós við enda ganga hans – að mati fréttaritara, James Matthews, hjá Sky News sem telur að hann hafi ástæðu til bjartsýni í kvöld.
Athugasemdir