Fyrsti þingfundur nýrrar ríkisstjórnar undir forsæti Bjarna Benediktssonar fór fram í dag. Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu endurnýjað stjórnarsamstarf flokkanna þriggja fyrir stefnu- og getuleysi til þess að beita sér fyrir í mikilvægum málaflokkum sem talin eru áríðandi.
Í kjölfar yfirlýsingar nýs forsætisráðherra og andsvara tóku við sérstakar umræður þar sem þingmönnum stjórnarandstöðunnar gafst tækifæri til að tjá sig um nýju ríkisstjórnina.
Fyrst til þess að taka til máls var Kristrún Frostadóttir sem sagði ríkisstjórnina ekki geta orðið við kröfum þjóðarinnar um árangur án þess að breyta um stefnu. Ekki sé nóg að stokka upp ráðherrastólum.
„Þetta er sama fólkið — með sömu stefnu — í nýjum stólum.“
Fráfarandi ríkisstjórn hafi skilið lítið eftir sig og náð litlum árangri á sviði efnahagsmála, samgöngumála, útlendingamála og fleira. Taldi hún að stjórnarflokkarnir hefðu átt að nýta tækifærið við endurnýjun samstarfsins til þess að boða skýra stefnubreytingu. Það hafi hins vegar ekki verið gert. …
Athugasemdir