Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segist ekki geta tjáð sig mikið að svo stöddu um hvernig áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf muni líta út. Blaðamaður Heimildarinnar tók formann Framsóknarflokksins tali skömmu eftir að fundi þingflokksformanna á Alþingi lauk.
„Við vorum bara að ræða áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf sem hefur auðvitað verið til umfjöllunar milli formanna flokkanna núna um helgina,“ sagði Sigurður Ingi spurður um hvað var rætt á fundinum.
Ríkisstjórnarsamstarfið hefur undanfarið gengið brösuglega og hefur ýmsum þótt þreyta vera komin í samstarf stjórnarflokkanna. Spurður hvort líkja mætti tilraunum stjórnarflokkanna til þess að endurskipuleggja stjórnarsamstarfið við það að berja dauðan hest segir Sigurður Ingi svo ekki vera.
„Maður á ekki að berja neina hesta, ekki dauða heldur. En þetta er engan veginn þannig. Þetta er fyrst og fremst, við höfum notað síðustu daga til þess að fara yfir málin. Þetta er svona ákveðin áskorun sem gerist óvænt þegar forsætisráðherra hverfur af braut og eðlilegt að við tökum nokkra daga í það.“
Framsókn styður áframhaldandi samstarf
Þá segist Sigurður Ingi vænta þess að nánari skýringa á samkomulagi ríkisstjórnarflokkanna megi vænta síðar í dag.
„Við munum skýra nánar frá öllum hlutum er varða þessa ákvörðun okkar, annars vegar þingflokksins og þingflokka annarra stjórnarflokka seinna í dag af því að málið er enn til umfjöllunar í einum þingflokknum, eða í einum flokknum.“
Þar á Sigurður eflaust við Vinstri græn en þingflokksfundur hófst hjá þeim klukkan ellefu og stóð enn yfir þegar viðtalið var tekið um hádegið.
„[M]ér finnst óeðlilegt að ég sé að upplýsa meira heldur en bara við í Framsókn erum tilbúin til þess að halda þessu samstarfi áfram.“
Spurður hvort hann muni taka við fjármálaráðuneytinu segist Sigurður ekki geta tjáð sig um nokkurn skapaðan hlut fyrr en seinna í dag.
Athugasemdir