„Skynjið þið ekki enn né skiljið? Eru hjörtu ykkar sljó? Þið hafið augu, sjáið þið ekki? Þið hafið eyru, heyrið þið ekki?“ (Mark 8. 18). Þetta eru spurningar sem vekja okkur til umhugsunar á öllum tímum. Ábending um að við sjáum ef til vill ekki veruleikann í réttu ljósi og að það geti því bitnað á öðru fólki og öðrum lífverum. Okkur ber í raun skylda til að gera tilraun til að opna eyru og augu og setja okkur í spor annarra og líða með þeim.
Verkefnið er brýnt um þessar mundir, við þurfum að mæta kynþáttafordómum sem nú ganga aftur ljósum logum um Evrópu, fordómum sem eru ekki aðeins um fólk og þjóðir heldur einnig um söguna, fortíð og mögulega framtíð.
Rannsóknir og fræðimennska Kristínar Loftsdóttur, prófessors í mannfræði við Háskóla Íslands, opna meðal annars sýn í sögu kynþáttahugmynda og las ég tvær bækur eftir hana núna í mars 2024 til að leita skýringa á kynþáttafordómum sem greina má í samfélaginu. Bækurnar heita Kynþáttafordómar í stuttu máli (Háskólaútgáfan 2020) og Andlit til sýnis – Íslendingar og aðrir á Kanarísafninu (Sögufélagið 2023) en sú bók fékk tilnefningu Hagþenkis með þessum orðum: „Vandað verk um tilurð og sögu safna á tímum nýlenduvæðingar og kynþáttahyggju. Höfundur rekur slóð forvitnilegra safngripa og miðlar rannsókn sinni á myndrænan og persónulegan hátt.“
Svo heppilega vildi til að ég gat farið, á meðan lestri stóð, á safn sem er miðpunktur bókarinnar Andlit til sýnis, eða El Museo Canario í gamla bæjarhluta Las Palmas á Gran Canaria, og lifað mig enn betur inn í efni bókarinnar sem er einstaklega merkilegt verk að mínu mati. Kristín setur nokkrar brjóstmyndir á safninu, sem gerðar voru á Íslandi árið 1856, sem leiðarvísi til að segja þessa fjölþættu sögu.
„Gerð brjóstmyndanna endurspeglar jafnframt að á nítjándu öld þróaðist kynþáttahyggja frá því að samanstanda af ósamstæðum hugmyndum yfir í að hafa forræði sem hin eina sanna þekking.“ (Andlit til sýnis, 10).
Vitaskuld hef ég flestallan fróðleik í þessari grein úr bókum Kristínar Loftsdóttur en mér finnst mikilvægt að vekja athygli á þeim og miðla efninu.
Við getum snúið við blaðinu
Við höfum tilhneigingu til að flokka hluti og fólk og stimpla það en vandinn er að þau nöfn sem við gefum hlutunum geta bólgnað út og orðið skotmörk í átökum og þegar ofbeldi er beitt til að ná völdum. Það er því varasamt og í raun óverjandi að láta áróður valdsins og auðmagnsins ráða för í lífi okkar.
Við höfum alla burði, verkfæri og rannsóknarniðurstöður til að stefna annað heldur ení svaðið sem hatrið býður upp á. Við búum yfir reynslu sögunnar, mannréttindayfirlýsingar, lög og réttindi til að stefna í aðrar áttir. Um þessar mundir notar áróðursvél valdsins orð eins og flóttamannastraumur og tengir fólk á flótta við óreiðu, glæpi og annað sem skapar ótta og fyrirlitningu en enga samkennd.
Getur það hugsast að á bak við grimmdarverk í sögunni, grimmdarverk eins og þjóðarmorð standi oftast valdamenn og valdamikil stjórnvöld sem þyrstir í land og auð? Já, það er líkleg tilgáta.
Fyrstu fórnarlömb heimsvalda- og nýlendustefnu Evrópubúa
Hvað þurfum við að sjá, hvað þurfum við að heyra til að öðlast innsýn í fortíð, nútíð og framtíð, innsýn í okkar eigið sjálf og fyrri tíma kynslóðir? Kanaríeyjar urðu á 19. öld þekktar sem sólarlandastaður og paradís. Íslendingar urðu sérlega elskir að eyjunum á 20. öld og enn meira á 21. öld og oft í viku er flogið héðan á þrjár eyjar; Tenerife, Gran Canaria og Fuerteventura.
Ég flaug af stað og fór svo sem sagt á „eitthvert safn á Spáni“, nánar tiltekið El Museo Canario á eyjunni Gran Canaria, þar sem fjallað er um forsögu eyjanna. Í einum sal á safninu, sem nefnist Verneau, stíga gestir í raun inn í nítjándu öldina því umgjörðin og hönnunin er frá þeim tíma. Þarna eru um það bil 250 hauskúpur af frumbyggjum eyjanna. Þeim er raðað á hillur í glerskápum, nokkrar heilar beinagrindur og láréttar múmíur í veglegum sýningarkössum. Þessi salur er engu líkur en er einnig óhuggulegur út frá völdu sjónarmiði og sögunni.
Kanaríeyjar voru heimkynni fólks sem námu eyjarnar fyrst um 500-200 f. Kr. og bjuggu þar óslitið þar til Spánverjar hernámu allar eyjarnar. Þarna var samfélag fólks, nefnt Guanche, sem var með húsdýrahald og ræktun og nýttu afurðir sjávar. Trú þeirra var tengd við náttúruna, dulmögn sólar og tungls, hella og fjalla. Þau trúðu sennilega á líf eftir dauðann og bjuggu vel um látna og beittu aðferðum til að varðveita líkamsleifar vel og því hafa múmíur varðveist. Það eru þeirra bein, hauskúpur og múmíur sem eru nú til sýnis á safninu.
Kanaríbúar, þessir frumbyggjar, urðu fyrstu fórnarlömb heimsvalda- og nýlendustefnu Evrópubúa en eftir nokkurra ára varnarbaráttu féll síðasta eyjan, Tenerife, árið 1496. Eyjaskeggjar voru vanir heimsóknum, meðal annars frá Rómverjum, en aldrei áður hafði grimmdin sýnt sitt miskunnarlausa andlit. Konungsdæmið og hefðarfólk frá Kastilíuhéraði á Iberíuskaga lagði eyjarnar undir sig eftir harða mótspyrnu heimamanna.
„Mikill fjöldi innfæddra var drepinn og aðrir teknir höndum og fluttir frá eyjunum til að verða seldir sem þrælar“ (Andlit til sýnis, 95).
Eyjaskeggjum var ekki sýnd nein virðing, heldur var þeim skipað neðst í virðingarstigann, annars flokks fólk, villimenn andspænis hrokafullu innrásarliði. Ofbeldinu lauk ekki hér, því síðar urðu líkamsleifar frumbyggja að vinsælum varningi meðal fræðimanna, auðmanna og safna. Hauskúpur, beinagrindur og múmíur voru grafnar upp og flutt í burtu til að selja, safna og skipta.
Franskir fræðimenn gengu lengst allra og settu fram þá fölsku tilgátu að þessir frumbyggjar væru náskyldir Cro-Magnon manninum en nafnið á rætur sínar að rekja til fornleifafundar í Cro-Magnon hellisskútanum við bæinn Les Eyzies í Dordogne-héraði í suðvesturhluta Frakklands árið 1868. Þannig koma eyjaskeggjar við sögu kynþáttafordóma líka, ekki aðeins við sögu nýlendustefnu Evrópubúa.
Rasismi og kynþáttahyggja var óhjákvæmilega falin í landafunda- og nýlendustefnunni, því markmiðið var að leggja undir sig lönd, þjóðir og auðævi, að arðræna í nafni yfirburða. Það var meðal annars gert með því að flokka fólk í kynþætti og mismuna eftir útliti, litarhætti og skipa þeim neðst í virðingarstigann.
250 hauskúpur frumbyggja
Efst uppi á skápunum með hauskúpunum 250 í Verneau-salnum á safninu í Las Palmas standa hvítar brjóstmyndir gerðar úr gifsi, þetta voru andlit til sýnis og Kristín Loftsdóttir, höfundur bókarinnar, var gripin forvitni. Hugrenningatengsl urðu við sýningu Ólafar Nordal, Musée Islandique, sem var á Listasafni Íslands og Kristín hafði skrifað grein um. Spyrja má: „Hvers vegna eru þessar brjóstmyndir á safni í Las Palmas á Gran Canaria?“
Nú býðst lesendum að fræðast um brjóstmyndirnar og samhengið við nýlendustefnu Evrópuþjóða, „kynþáttavísindi“ og sögurnar á bak við stytturnar. Hvaða einstaklingar voru þetta? Þeir voru frá Brasilíu, Nígeríu, Grænlandi, Íslandi, Nýja-Sjálandi, Tonga, Norður-Ameríku og Suður-Ameríku. Oftast voru þessar brjóstmyndir teknar í landkönnunar- eða vísindaferðum. Kristín segir þeirra sögu.
Kristín setur efnið í sögulegt samhengi og fram kemur óhugguleg saga ofbeldis, þjóðarmorða og afmennsku þrælahalds og nýlendustefnu. Aðrar myndir sem hafa verið dregnar upp af Englendingum af sínum landkönnuðum sem hetjum, eins og Henry Morton Stanley og Kristófer Kólumbusi, segja aðeins hálfa söguna, því þeir voru líka ofbeldismenn og þrælahaldarar.
Fólki skipt í kynþætti í píramíða valdsins
Fjölmargt í fortíðinni er ósýnilegt en það er hægt að gera það sýnilegt – opna augun. Hvítir evrópskir landnemar heimsvaldastefnunnar ollu einnig helförum í öðrum heimsálfum; Ástralíu, Afríku, Ameríku.
Helstu nýlendulönd Evrópu voru; Portúgal, Spánn, England, Frakkland, Holland, Belgía, Ítalía og Þýskaland og Danmörk. Nýlendustefnan felur í sér að valdameira ríki hernemur valdaminna ríki til að græða á nýlendunni. Á tímabili réðu Evrópuríki og Bandaríkin um 80% af landflæmi jarðar.
Fortíðin, við getum öðlast innsýn í hana en ekki séð hana alla, aðeins brot sem við röðum saman og túlkum. Nýlenduþjóðirnar hafa gert tilraunir til að fegra verk sín í fortíðinni en upp komast svik um síðir því fortíðin er ekki liðin hjá, hún er með okkur. Til urðu kynþáttavísindi og höfuðlagsfræði sem Kristín gerir vel grein fyrir í bókinni Andlit til sýnis. Fólk var flokkað í kynþætti líkt og það væri líffræðilega mismunandi. Lönd voru arðrænd og íbúarnir flokkaðir óæðri Evrópumönnum.
Kristín nefnir sem dæmi að Afríkulandið Níger er fjórði stærsti framleiðandi úrans en á sama tíma er það eitt fátækasta ríki heims. Hvernig stendur á því? Er það vegna þess að Evrópumenn eru svo klárir eða vegna þess að þeir beita kúgun, ofbeldi, óréttlæti og miskunnarleysi? Hvers vegna stendur kúgunin enn yfir?
Frumbyggjar eru líka meðal okkar þótt þeim hafi verið slátrað, settir í þrældóm og „sýnishorn“ tekin til að sýna Evrópubúum hverjir væru siðmenntaðir og hverjir villimenn, að þeirra eigin mati. Kristín nefnir í bókinni að oft hafi verið fullyrt að frumbyggjarnir myndu deyja fljótlega út en það þurfti ekki að gerast, heldur var verið að útrýma þeim. Þau voru tekin sem herfang og flutt til Evrópu og sýnd sem furðufyrirbæri.
Þrátt fyrir tilraunir til að afmá frumbyggjana á Kanaríeyjum þá er um 20% DNA erfðaefni núverandi heimamanna afrískt, frá þjóðinni sem bjó þar alla tíð fram að innrásinni á 15. öld þegar Spánverjar stigu á land og hernámu eyjarnar.
Heimurinn var aldrei einfaldur
Hvíti evrópski valdakarlinn átti að vera sá hæfasti, sá sem myndi lifa allt af, í honum ættu framfarir og siðvæðingin sitt heimili. Nei, heimurinn var aldrei einfaldur eða einsleitur eins og oft er haldið fram og greina má í tali þeirra sem ala á kynþáttafordómum. Við skulum ekki falla í þá fordómagryfju.
Til að skilja þessa fordóma er mikilvægt að gera sér grein fyrir sögu þeirra og sjá hvernig hvítur menningarheimur hefur framandgert þau sem líta öðruvísi út, fyrst með fullyrðingum um líffræðilegan mismun og menningarlegum.
Þrátt fyrir að búið sé að afsanna allar stoðir kynþáttahyggju og fordóma þá er hægt að endurvekja þessa drauga því fortíðin er enn á meðal okkar og verkefnið að kveða þá niður tekur aldrei enda. Þau sem eru ekki umhugsunarlaust flokkuð sem hvít á Íslandi verða fyrir fordómum, jafnvel daglega en til eru nýlegir vitnisburðir um það.
Fullyrt hefur verið að kynþáttahugsunin sé ein lífseigasta og hættulegasta goðsögn samtímans, að hvítleikinn sé viðmið fegurðar, gáfna og valds.
Kynþáttafordómar nútímans birtast meðal annars í því að framandgera menningu, trúarbrögð og hörundslit. Kúgun dökkra kvenna felst meðal annars í smættun þeirra í umræðu um umskurð og blæjur. Þannig má lengi telja.
Þjóðflutningar og fólksflutningar á jörðinni
Fólksflutningar hafa alltaf tíðkast á jörðinni, landamæri hafa verið opin og lokuð. Evrópa hefur komið sér upp ósýnilegum múrum, meðal annars með Schengen-samstarfi 27 ríkja. Nú geta sumir farið greiðlega á milli landa en ekki allir. Einnig hafa orðið til samstöðuglæpir (e. crimes of solidarity) sem felast í því að það getur verið ólöglegt að hjálpa flóttafólki, gefa þeim mat eða standa með þeim í flugvél eins og átti sér stað á Íslandi.
Að fullyrða að „hver eigi að vera á sínum stað“, og að flokka í löglega flóttamenn, falska og ólöglega, að tala um flóttamannavanda, flóðbylgju flóttamanna, straum, flæði og efnahagsflóttamenn, er dæmi um kynþáttafordóma. 18% Íslendinga voru þá efnahagsflóttamenn þegar þeir sigldu til Vesturheims en frá 1870-1914 yfirgáfu um 16.000 Íslendingar heimaland sitt og hófu nýtt líf í Norður-Ameríku.
Vesturförunum var sagt að þar væri nægt landrými, tómt land, mold sem þyrfti að yrkja – en áður hafði reyndar átt sér stað landnám og nauðungarflutningar frumbyggja. Það var búið að rýma til fyrir þeim.
Bækur sem opna augu og eyru
Það er margt hægt að læra af bókum Kristínar Loftsdóttur sem hér um ræðir, Andlit til sýnis og Kynþáttafordómar í stuttu máli, enda hefur hún stundað rannsóknir á þessu sviði um langt skeið. Ég man ég leitaði til hennar þegar ég skrifaði stutta grein fyrir tuttugu árum um Söru Baarthman, sem er ein af þekktustu einstaklingunum sem voru til sýnis í Evrópu fyrr á öldum og Kristin segir frá í bókinni Andlit til sýnis.
Friðbjörg Ingimarsdóttir, fyrrum kennsluráðgjafi í fjölmenningar- og nýbúafræðslu, vitnaði líka í Kristínu Loftsdóttur í bók okkar Hugskot – skamm-, fram- og víðsýni (Iðnú, 2016). Þar er meðal annars fjallað um flokkanir, staðalímyndir, fordóma og tengslin þar á milli. Einnig skrifaði hún um viðtökur endurútgáfu bókarinnar Tíu litlir negrastrákar sem kom fyrst út árið 1922 með teikningum Muggs, þar sem strákunum er líkt jafnt við apa og fávita. Þessir tíu negrastrákar lenda í óhöppum vegna heimsku, fáfræði og geðveiki og aðeins einn lifir af. Hann giftist negrastúlku og afkomendur þeirra verða tíu heimskir negrastrákar (Hugskot, 67). Vísurnar í bókinni eru dæmi um lífseiga birtingarmynd kynþáttahugmyndarinnar en þær voru upphaflega samdar 1864 og fjölluðu þá um indíána.
Kristín segir lítillega frá verkefni sínu um negrastrákana tíu í bókinni Kynþáttafordómar, en þegar hún hóf að rannsaka það mál bjóst hún við að umræðan á Íslandi hefði verið ólík umræðunni í öðrum löndum. En í ljós kom að íbúar á hinum Norðurlöndunum telja sig einnig nokkuð lausa við kynþáttafordóma og að Norðurlöndin séu fremur saklaus miðað við helstu nýlenduþjóðirnar. En svo er ekki, það er sjálfsblekking. Þau hafa orðið fyrir áhrifum, tekið þátt og Danir voru nýlenduþjóð.
Kynþáttun (e. racialization) og kynþáttafordómar á Íslandi eiga sér bæði nýjar og eldri birtingarmyndir. Af þeim sökum er gott að lesa bækur Kristínar sem eru afar vel skrifaðar og bókin Andlit til sýnis ríkulega myndskreytt. Bækurnar opna augu okkar og eyru fyrir ýmsum hliðum rasisma og því sem ekki sjaldan sést og heyrist.
Hvaða lærdóma má draga af þessari sögu?
Ef þið eigið leið um Las Palmas liggur leiðin vonandi í safnið El Museo Canario í Verneau salinn. Ef þið eigið leið um Santa Cruz á Tenerife, þá liggur ef til vill leiðin í náttúrugripa- og mannvistarsafnið þar, Museo de la Naturaleza y el Hombre, sem miðlar einnig upplýsingum um frumbyggjana á Kanaríeyjum. Safnið er frægt meðal annars fyrir Guanche-múmíur og muni úr menningu frumbyggja eyjanna. Fróðleg en óþægileg upplifun sem knýr gesti til umhugsunar.
Frumbyggjarnir á Kanaríeyjum eru vissulega horfnir, ekki vegna þess að það voru augljós forlög þeirra, heldur vegna þess að samfélagi þeirra var útrýmt á markvissan hátt. Heimafólk fyrri alda var reiðubúið til að stunda viðskipti og eiga samskipti við aðkomufólk og hafði burði eins og allt annað fólk til að aðlagast breyttum tímum. En gestirnir vildu leggja heimkynni, land og auðlindir þeirra undir sig og beittu aðferðum afmennsku. Heimamenn börðust af krafti gegn þessu ofbeldi en það dugði ekki. Svona er saga þjóðarmorða.
Kynþáttahugsunin smættar fólk. Hún felst í því að flokka og líma merkimiða á fólk, raða þeim í hólf, bása, reisa múra, ýta þeim á jaðarinn, afmennska og loka augum og eyrum fyrir því að: allt mannfólk er jafngilt.
Okkar verkefni er að sporna gegn kerfisbundnu ofbeldi og þjóðarmorðum sem eiga sér stað um þessar mundir og beina sjónum að framtíð og uppbyggingu frumbyggjasamfélaga og þeirra sem búa við kúgun og arðrán valdamanna og ríkja.
lifsgildin@gmail.com
Tenglar:
Safnið í Las Palmas https://www.elmuseocanario.com/en/home-2/
Skoða safnið í Las Palmas í 3D: https://mpembed.com/show/?m=3UcQkysU2eC&mpu=78
Safnið í Santa Cruz https://www.museosdetenerife.org/muna-museo-de-naturaleza-y-arqueologia/
Andlit til sýnis https://sogufelag.is/product/andlit-til-synis-islendingar-og-adrir-i-kanarisafni/
Kynþáttafordómar í stuttu máli https://www.forlagid.is/vara/kyntattafordomar-i-stuttu-mali/
Hugskot, skamm-, fram og víðsýni https://www.idnu.is/vara/hugskot-skamm-fram-og-vidsyni-2/
Musée Islandique Ólöf Nordal https://olofnordal.com/wp-content/uploads/2020/08/OLN1001_Mus%C3%A9eIsland_lowresallt.pdf
Athugasemdir (1)