Í Arnarfirði á Vestfjörðum, lesandi góður, eru dáfallegir dalir sem opnast til sjávar; Ketildalir. Í gegnum dalina renna blátærar ár sem fóstra forna fiskistofna; sjóbirtinga og laxa. Ketildalbúar hafa lifað með óm ánna í eyrum sér og tindrandi hreistur árbúanna fyrir augum sér í meira en þúsund ár – allt frá því Ketill illbreiður landnámsmaður nam þar land og sagði; hér vil ég vera. Menn og fiskar lifðu í hreinum samhljómi, kynslóð fram af kynslóð í aldaraðir, uns einn óveðursdag að rof varð þar á.
Myrkir tímar hafa gengið í garð í vatnasögu Íslands. Sjókvíaeldi á norskum eldislaxi við Íslandsstrendur hefur deytt lífríki landsins um árabil. Hluti af því einstæða lífríki er búsvæði Ketildalafiskanna, í ám og sjó. Þetta ríki fiskanna bjó að ósnortinni fegurð sem að stórum hluta var fólgin í því lífi sem það ól af sér. En lifandi náttúrufegurð er fallvölt í návist manna sem eira engu ef gróðavon er. Norðmenn lögðu undir sig Arnarfjörðinn með ræktun á norskum eldislöxum í opnum sjókvíum við mynni Ketildalanna, og hafið og árnar tóku að deyja. Átakanlegt ástand blasir nú við fiskum Ketildalanna þegar þeir ganga til sjávar að sumarlagi í því skyni að afla sér ætis. Í sænum flæðir örplast, netadræsur reka um Arnarfjörðinn og efnamengun sálgar vistkerfi hans, sjávarlífverum og fuglum. Mengun sáldrast úr kvíunum yfir botn hafsins; bakteríuauðn tekur við þar sem áður var lífríkisvin. En áfram synda Ketildalafiskarnir, í gegnum mengunarský í sjávarstraumum, framhjá opnum sjókvíum þar sem feikilegur fjöldi laxalúsa grasserar og nærist á holdi kvalinna norskra eldislaxa sem svamla hring eftir hring í netabúrunum. Opnu sjókvíarnar eru samtvinnaðar lífríki hafsins, því þær eru jú opnar; úr kvíunum svífa hinar holdétandi lýs með sjávarstraumnum og bíta sig fastar í hold Ketildalafiskanna sem synda frjálsir hjá. Lýsnar valda Ketildalafiskunum óheyrilegum sársauka og sárum sem verður sumum þeirra að aldurtila áður en þeir ná aftur í heimaár sínar. Harmahljómur fiska, þjáðra villtra fiska og sjókvíaeldisfiska, bergmálar nú í sænum; eða bera fiskar harm sinn í hljóði?
Og árnar – ómþýðu Ketildalaárnar, sem hvurja sekúndu í þúsundir ára hafa sameinast hafinu í árósum dalanna, og um leið brúað ferskvatns- og hafríkið; þær ár, lesandi góður, brúa nú tortímingu úr viðjum sjókvíanna. Norskir erfðabreyttir eldisfiskar sleppa reglulega úr götóttum sjókvíum Arnarfjarðar og ganga upp í Ketildalaárnar. Ófrýnileg sýn blasir nú við dalafiskunum á þeirra heimaslóð í ánum. Frjálsir í hafinu renna norsku sjókvíaeldislaxarnir á íslensku laxalyktina sem streymir niður laxárnar í sjó fram. Lykt sú leiðir eldislaxana á íslenskar laxahrygningarslóðir, þar sem hinir erfðabreyttu frjóu eldislaxar taka þátt í hrygningu villta laxins. Eldislaxarnir eru norskir að uppruna og erfðaefni þeirra hefur með kynbótum verið aðlagað að þörfum sjókvíaeldisiðnaðarins. Í augum náttúru Íslands eru eldislaxarnir manngerð sjókvíaeldisskrímsli sem dreifa framandi erfðaefni sínu um ár hennar. Norskt erfðaefni eldislaxanna er mengun í íslenskum ám, sem líkt og eitur deyðir smátt og smátt laxastofna þá sem Íslandsár hafa skapað af alúð og natni í þúsundir ára – líkt og Fífustaðadalsárlaxastofninn í Ketildölum sem berst nú fyrir tilvist sinni í brimróti erfðamengunar. Sjókvíaeldislaxarnir sem ganga í íslensku árnar parast þar við villta laxa sem og innbyrðis, og menga þannig villta laxastofna með því að breyta erfðaefni þeirra. Með þessari erfðablöndun tapast á skömmum tíma atgervi og aðlögunarhæfni hinna marbreytilegu íslensku laxastofna sem hafa þróast með hliðsjón af sínum heimaám og ætissvæðum í hafi. Þróunarsaga íslenska laxins þurrkast út og um leið hæfni hans til að lifa af á sínum heimaslóðum. Þar á ofan granda norsku eldislaxarnir hrygningarholum villtu laxanna og spilla þannig einnig fyrir hrygningu villta laxins. Síðan éta seiðin undan eldislaxinum takmarkað æti ánna frá alíslensku seiðunum og draga þannig úr lífslíkum þeirra. Já, eymdarleg sýn blasir við frónlöxum samtímans, í hafi þeirra og heimaám.
Fiskar Ketildalanna búa ei að rödd, andarslitur þeirra eru hljóð; dauði náttúrunnar er eilíft þögull. Feigðarþögn hafsins fer vaxandi ár frá ári – og árnar syngja nú sinn svanasöng. En heyr! Í gegnum þögnina berast orðin; „Ég berst gegn þessum andskotum!“ – orð þau hljóma líkt og hvískur í dauðaþögn Arnarfjarðar; „ég geri það löglega – og ólöglega ef þess er þörf!“ Orðin eiga upptök sín í einum Ketildalanna, í Bakkadal, þar sem þau falla sem foss af vörum bóndans og áreigandans Víðis Hólm Guðbjartssonar; „ég tek þetta ekki í mál!“ Skammt frá bæ bóndans rennur hlykkjótt á með háa bakka; Bakkadalsá. Áin er heimili Bakkadalsbirtingsins, hver steinn, hver bugða, hver árbakki, hver smálæna sem rennur í ána, er hluti af þeim heimkynnum hans. Bakkadalsá er ei laxá, hún er sjóbirtingsá; vistkerfi urriða sem ganga til sjávar. Víst er að laxár Íslands eru útsettastar fyrir ógninni sem stafar af laxasjókvíaeldinu sökum erfðablöndunar, en deyðandi afl sjókvíaeldisins hefur líka gífurleg áhrif á sjóbirtinga og sjóbirtingsár landsins sem eru í návígi við sjókvíaeldi – hið sama gildir um sjóbleikjur. Þó að eldislaxar leiti miklu síður upp í sjóbirtingsár en laxár, þá marka sjúkdómar og sníkjudýr sem eiga upptök sín í sóðalegum netavistarverum eldisins stórlega tilvistargrundvöll urriða Íslands sem ganga til sjávar, líkt og laxanna. Hver á er vistkerfi sem ber að vernda, hvort heldur þar dvelja laxar, sjóbirtingar eða sjóbleikjur. Og sjóbirtingsáin Bakkadalsá í Bakkadal á sinn verndara, Víði.
Orð Víðis bónda og verndara Bakkadalsár eru hér fest á filmu; frásögn einbúa af orrustu sinni gegn hinum norska skaðvaldi, sjókvíaeldisiðnaðinum í Arnarfirði, sem hefur sagt náttúru okkar stríð á hendur. Heyr nú á reynslusögu Víðis sauðfjár- og æðarbónda í meðfylgjandi viðtalsmynd, því frásögn hans endurómar reynsluheim ótal íslenskra bænda/áreigenda sem harma feigar ár og fiskistofna sökum sjókvíaeldis við Íslandsstrendur. Árnar fóstra ferskvatnsfiska, áreigendur fóstra árnar, og árnar fóstra framtíð Íslands. En sú framtíð er brigðul. Að bana náttúru er gjörð sem ætla verður að sé bönnuð með lögum, líkt og annað dráp. Sú er sýn íslensku þjóðarinnar, en ei íslenskra stjórnvalda sem varða veg hins sívaxandi sjókvíaeldis. Á þessum harmþrungnu tímum í náttúrusögu landsins, er alþingi Íslendinga með til umfjöllunar lagafrumvarp frá Matvælaráðuneytinu þar sem gert er ráð fyrir eldi á norskum laxi í opnum sjókvíum við Ísland til ársins 2040. Lát raddir áreigenda Íslands leiða þá umræðu til lykta – raddir sem ljá hinni raddlausu náttúru Íslands mál.
Athugasemdir (3)