Árið eftir að nasistar hernámu Danmörku 1940 gerði Alþingi Svein Björnsson, sem hafði verið sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn samfleytt frá 1920, að ríkisstjóra. Hann var skipaður ríkisstjóri 17. júní 1941 til eins árs og gegndi starfinu í þrjú ár fram að lýðveldisstofnunni á Þingvöllum 17. júní 1944 þegar Alþingi kaus hann fyrsta forseta Íslands með 30 atkvæðum af 52. Enginn þingmanna Sósíalistaflokksins greiddi honum atkvæði sitt né heldur gerðu það Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson og ýmsir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins auk Jónasar Jónssonar frá Hriflu.
Atlaga þingmanna að forsetaembættinu fólst í því að þeir vildu setja í stjórnarskrána ákvæði um að Alþingi kysi forsetann eins og það hafði kosið ríkisstjórann. En Sveini og öðrum tókst að hrinda því áformi og tryggja þjóðinni réttinn til að kjósa sér forseta, enda var Alþingi í litlu áliti meðal þjóðarinnar þegar þetta var, svo litlu að Sveinn hafði neyðzt til að skipa utanþingsstjórn sem sat 1942-1944 þar eð þingflokkarnir gátu ekki komið sér saman um myndun ríkisstjórnar. Í utanþingsstjórninni sátu tveir lögfræðingar, einn kaupfélagsstjóri, einn heildsali – og læknir, en hann stóð stutt við.
Sigurður Nordal prófessor hafði þetta að segja um ástandið:
„Alþingi getur ekki myndað þingræðisstjórn. Alþingi ræður ekki við verðbólguna. Alþingi getur ekki komið á réttlátri skiptingu styrjaldargróðans. Alþingi finnur engin ráð til þess að halda óhófi, ólifnaði og spillingu í skefjum. Svo mætti lengi halda áfram, ef allt skyldi talið, sem almenningur færir fram til vantrausts á þessa æðstu stofnun þjóðar, sem er í vanda stödd.“
Þannig gerðist það að Íslendingar eignuðust þjóðkjörinn forseta þar sem hver kjósandi hafði eitt atkvæði ólíkt þeirri hlutdrægu kosningalöggjöf sem gilti í alþingiskosningum og hefur gilt æ síðan. Þegar fyrsta þjóðkjör forseta átti að fara fram 1945 var Sveinn Björnsson einn í kjöri og var því sjálfkjörinn og aftur 1949. Hann var afskiptasamur forseti og framtakssamur og hikaði ekki við að segja Alþingi til syndanna eftir því sem við átti. Hann lézt í embætti 1952 og fór þá fram fyrsta þjóðkjör forseta Íslands.
Flokkurinn gekk klofinn til kjörs
Í forsetakjörinu 1952 tókust einkum á Ásgeir Ásgeirsson fv. forsætisráðherra sem hafði setið á þingi fyrst fyrir Framsóknarflokkinn og síðan fyrir Alþýðuflokkinn, þá tvo flokka sem höfðu staðið þétt við bakið á Sveini Björnssyni, og Bjarni Jónsson Dómkirkjuprestur, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins. Ásgeir sigraði með 48% atkvæða gegn 46% Bjarna og 6% Gísla Sveinssonar fv. þingmanns Sjálfstæðisflokksins og forseta Alþingis. Sjálfstæðisflokkurinn gekk því klofinn til kjörsins og tapaði. Ásgeir var sjálfkjörinn 1956, 1960 og 1964.
Næst dró til tíðinda 1968. Þá fór fram Gunnar Thoroddsen sendiherra og fv. fjármálaráðherra og borgarstjóri Sjálfstæðisflokksins, tengdasonur Ásgeirs fráfarandi forseta. Andstæðingar flokksins komu sér saman um að gegn Gunnari skyldu þeir tefla fram Kristjáni Eldjárn þjóðminjaverði sem hafði skömmu áður slegið í gegn sem sjónvarpsstjarna í þáttunum Munir og minjar sem hóf göngu sína í nýstofnuðu sjónvarpi landsmanna 1967. Kristján sigraði Gunnar með yfirburðum, 66% atkvæða gegn 34%, og var sjálfkjörinn 1972 og 1976.
Vigdís
Árið 1980 blésu nýir vindar. Þá voru fjórir frambjóðendur í kjöri, þar af einn borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Albert Guðmundsson heildsali og fv. knattspyrnukappi, og tveir aðrir sem margir sjálfstæðismenn gátu vel sætt sig við, Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari og fv. rektor Háskóla Íslands og Pétur Thorsteinsson sendiherra. Fjórði frambjóðandinn, Vigdís Finnbogadóttir leikhússtjóri, bar sigur úr býtum og hlaut 34% atkvæða gegn 32% Guðlaugs, 20% Alberts og 14% Péturs, samtals 66%.
Þarna birtist í fyrsta sinn gallinn við ákvæði stjórnarskrárinnar um forsetakjör. Kannski hefði Vigdís sigrað ef ákvæði nýju stjórnarskrárinnar um raðval til að tryggja að sigurvegarinn hefði stuðning meiri hluta kjósenda að baki sér hefði gilt, kannski ekki. Hún reyndist allt að einu dáður og ástsæll forseti.
Raðval snýst um að kjósendur raði frambjóðendum í forgangsröð til að tryggja að atkvæði nýtist sem bezt þótt ein umferð sé látin duga. Markmiðið er að sem allra fæst atkvæði detti niður dauð. Þessi aðferð var notuð í kosningunni til Stjórnlagaþings 2010, lýðræðislegustu kosningu Íslandssögunnar svo sem Þorkell Helgason prófessor hefur lýst öðrum betur. Vigdís var sjálfkjörin 1984, endurkjörin með 95% atkvæða 1988 og sjálfkjörin 1992.
Gallinn vindur upp á sig
Í forsetakjörinu 1996 dró enn til tíðinda. Þá buðu sig fram Ólafur Ragnar Grímsson fv. fjármálaráðherra, Guðrún Agnarsdóttir læknir og fv. alþingismaður, Pétur Kr. Hafstein hæstaréttardómari og einn enn. Ólafur sigraði, hlaut 41% atkvæða gegn 30% Péturs og 26% Guðrúnar. Nú var tekin að myndast hefð fyrir þjóðkjörnum forseta með minni hluta kjósenda að baki sér. Ólafur var sjálfkjörinn 2000, endurkjörinn með 86% atkvæða 2004, sjálfkjörinn aftur 2008 og endurkjörinn með 53% atkvæða 2012 gegn 33% atkvæða Þóru Arnórsdóttur og samtals 14% atkvæða sem féllu fjórum öðrum frambjóðendum í skaut.
Enn birtist gallinn á forsetaákvæði stjórnarskrárinnar 2016 þegar Guðni Th. Jóhannesson prófessor var kjörinn með 39% atkvæða, en átta aðrir frambjóðendur fengu samtals 61% atkvæða. Guðni hafði slegið í gegn sem nær daglegur gestur í sjónvarpinu þá um vorið þegar þrír sitjandi ráðherrar voru afhjúpaðir í Panamaskjölunum og forsætisráðherra hrökklaðist frá völdum af þeim sökum, en hin tvö sátu áfram eins og ekkert hefði í skorizt. Guðni var endurkjörinn 2020 með 92% atkvæða.
Og nú virðist stefna í að þessi meinlegi galli birtist með enn óþyrmilegri hætti en áður þar eð fjöldi frambjóðenda verður trúlega mun meiri en nokkurn tímann fyrr. Við gætum fengið forseta með fjórðung eða fimmtung atkvæða að baki sér. Stærðfræðilega séð gætu t.d. 12% atkvæða dugað til sigurs ef 88% atkvæða skiptust jafnt milli átta annarra frambjóðenda (11% á hvern) eða 22ja (4% á hvern að jafnaði).
Nýja stjórnarskráin frá 2011-2013 girðir fyrir þennan vanda með skýru ákvæði um raðval til að tryggja að enginn frambjóðandi geti náð kjöri nema hann eða hún hafi meiri hluta atkvæða að baki sér, en nýju stjórnarskránni er enn haldið í gíslingu á Alþingi.
Enn eitt áfallið?
Stjórnmálamenn geta nú séð sér leik á borði. Takist þeim að koma sér saman um einhvern einn eða jafnvel tvo úr eigin röðum til að tefla fram gegn fjölda annarra frambjóðenda víðs vegar að úr samfélaginu, þá geta kjósendur uppskorið meðvirkan og fylgissnauðan forseta sem aldrei hallar orðinu á Alþingi og veitir því ekkert aðhald eins og Sveinn Björnsson gerði þegar mikið lá við, forseta sem aldrei mælir gegn fákeppni, kúgun og spillingu, forseta sem sá ekkert athugavert við Hrunið og tekur aldrei afstöðu með fólkinu í landinu gegn ofríki stjórnmálastéttarinnar og sérhagsmunahópanna sem hún elur önn fyrir og gagnkvæmt.
Enn eitt áfallið fyrir lýðræðið í landinu gæti nú verið í uppsiglingu í boði Alþingis.
Athugasemdir (1)