Nú eru þrír mánuðir síðan leitin að nýjum forseta hófst og fjör er farið að færast í leikinn. Nokkrir frambjóðendur eru komnir fram og sumir meira að segja nú þegar hættir við. Aðrir frambjóðendur bíða átekta og reyna að ráða í hvenær er rétti tíminn.
Tempó skiptir öllu máli í skák, það vitum við.
Ég verð að viðurkenna að ég hlakka ekki sérlega til þeirrar kosningabaráttu sem í hönd fer. Ég er mest hræddur um að hún geti orðið vandræðaleg, ekki síst vegna þess að það er hætt við að frambjóðendurnir verði ekki allir í sömu keppninni.
Að einn verði að keppa í langstökki meðan annar er í kringlukasti og svo er þarna ein í krossfit — svo ég noti íþróttalíkingu eins og fráfarandi forseta er svo kært.
Í þeim skrifum sem maður sér um forsetaembættið kemur nefnilega svo glöggt fram hvað hugmyndir fólks um forsetann eru ólíkar og þó ekki síður ómótaðar.
Þar er sökin auðvitað helst það dugleysi okkar að hafa ekki getað komið okkur upp almennilegri heimasmíðaðri stjórnarskrá á 80 árum. Og loksins þegar slík stjórnarskrá var samin og samþykkt, þá var henni stungið oní skúffu, meðal annars með atbeina ýmissa þeirra sem nú renna hýru auga til Bessastaða.
Því er það að þótt fyrsti forsetinn hafi sest í embætti fyrir 80 árum, þá vitum við enn varla hvað við viljum með þetta starf.
Fyrstu áratugina létum við okkur duga að japla á tuggunni „sameiningartákn þjóðarinnar“ og þá þurfti ekki að hugsa það neitt dýpra.
Forsetinn átti bara að vera sameiningartákn þjóðarinnar, ókei.
Þessi tugga er svo lífseig að hún er enn í notkun, þótt nú viðurkenni flest aðspurð að þau viti ekkert hvað tuggan þýðir.
En hvað á forsetinn að vera, og hvað á hann að gera?
Á forsetinn fyrst og fremst að vera skemmtilegur? Hlýlegur? Hvorttveggja eða hvorugt?
Sum segja að forsetinn eigi umfram allt að „koma vel fyrir“. Mér er sú krafa harla óskiljanleg. Vissulega er ágætt að fólk „komi vel fyrir“. Hver reynir ekki að „koma vel fyrir“, svona oftastnær? En halda úti heilli manneskju á dágóðum launum suðrá Bessastöðum við að „koma vel fyrir“ fyrst og fremst, það þykir mér hins vegar harla vel í lagt.
Ég er viss um að það mætti auðveldlega fá fólk til að gegna forsetaembættinu ókeypis upp á þau býti. Það mætti jafnvel skipta um forseta vikulega.
Á fimmtudögum flytur nýr forseti inn á Bessastöðum og kemur vel fyrir í viku. Flytur svo út næsta fimmtudag. Þarf bara að passa að vera farinn með sitt hafurtask og búinn að sópa út í öll horn klukkan tvö þegar næsti forseti kemur ... vel fyrir.
Mér sýnist svo að þau sem sjá forsetann helst sem skemmtilegan og veitulan veislustjóra á Bessastöðum séu flest einmitt þau sömu og ætla sjálf að mæta í veislurnar.
Þau sem vilja dugmikinn menningarforkólf sem mætir á opnanir og leiksýningar og segir eitthvað spekingslegt um nýútkomnar bækur, það er fólkið sem mætir á opnanir og leiksýningar og les nýútkomnar bækur.
Þau sem líta á forsetann sem kynningarstjóra fyrir íslensk fyrirtæki erlendis, þau eru einmitt gjarnan með fyrirtæki sem hyggjast hasla sér völl erlendis.
Þau sem vilja að forsetinn láti sem minnst á sér kræla, heldur sinni sínu (takmarkaða) hluverki í stjórnsýslu og valdakerfi lands af samviskusemi og kostgæfni, það eru einmitt þau sem nú þegar halda um tauma í valdakerfi landsins og vilja öngvum bátum rugga.
Þau sem vilja forseta sem skeleggan málsvara hinna valdalausu, það eru helst þau valdalausu.
Þau sem telja nauðsynlegt að forsetinn sé pólitískt eldri en tvævetur og geti lesið í pólitískar fléttur og flækjur, hreyft málum bak við tjöldin og veitt stjórnarmyndunarumboð af allt að því yfirlætisfullri röggsemi — það eru svo hinir pólitísku refir.
Niðurstaðan er engin. Ennþá. Það eina sem við vitum er að það verður kosið og einhver flytur inn á Bessastaði og heldur ræðu á nýársdag.
Og kannski er bara allt í lagi að þetta embætti sé allt í lausu lofti. Það þarf ekki ekki allt að vera niðurnjörvað.
Athugasemdir