Ársreikningur Alvotech vegna ársins 2023 var birtur miðvikudagskvöldið 20. mars. Hann sýndi að félagið hefði tapað 76,1 milljarði króna á því ári ef miðað er við meðalgengi Bandaríkjadals, sem er uppgjörsmynt þess. Það tap bættist við 73,3 milljarða króna tap á árinu 2022 og því hefur Alvotech samanlagt tapað 149,4 milljörðum króna á tveimur árum. Það er nálægt því að vera tvöfaldur sá kostnaður sem ríkissjóður Íslands ber af kostnaði vegna fjárútlána sem hann samþykkti að ráðast í næstu fjögur árin til að liðka fyrir gerð kjarasamninga til langs tíma. Önnur leið til að líta á upphæðina er að hún myndi duga til að kaupa öll íbúðarhús í Grindavík 2,5 sinnum.
Þrátt fyrir mikið tap ríkti bjartsýni hjá stjórnendum Alvotech þegar uppgjörið var kynnt. Félagið hafði nýverið fengið markaðsleyfi fyrir líftæknihliðstæðu Humira, sem veirð hefur eitt mesta lyf heims, í Bandaríkjunum sem kallast á Simlandi. Markaðsleyfi sem átti reyndar að vera í höfn fyrir ári síðan, og gera það að verkum að Alvotech myndi skila hagnaði á síðari hluta ársins 2023. Vegna þessa breyttu áforma þá hefur Alvotech þurft að sækja mikið nýtt hlutafé, meðan annar til íslenskra lífeyrissjóða. Félagið átti einungis 11,2 milljónir dala í lausu fé, um 1,5 milljarða króna, og 26,2 milljónir dala, um 3,6 milljarða króna, í bundnu fé um síðustu áramót. Miðað við meðaltalstap á mánuði á árinu 2023 hefði það fé ekki dugað Alvotech til að reka sig í einn mánuð.
Ætla að margfalda veltu sína í ár
Í kynningu vegna uppgjörsins kom fram að Alvotech reikni með að Simlandi komi á markað í Bandaríkjunum á öðrum ársfjórðungi 2024, en hann hefst um komandi mánaðamót og stendur út júnímánuð. Stjórnendur Alvotech reikna með að Simlandi verði eina líftæknihliðstæða Humida sem verði á markaði þar í landi fram í apríl á næsta ári, og nái því einu ári, eða tæplega því, til að koma sér fyrir sem leiðandi á þeim markaði áður en aðrir samkeppnisaðilar hefja innreið sína.
Í kynningunni segir enn fremur að félagið reikni með því að velta þess verði 300 til 400 milljónir dala í ár, eða á bilinu 41 til 55 milljarðar króna miðað við núverandi gengi. Gangi þau áform eftir munu rekstrartekjur Alvotech þrefaldast eða fjórfaldast á þessu ári, miðað við það sem þær voru í fyrra. Það muni skila aðlöguðum rekstrarhagnaði – fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – upp á 50 til 150 milljónir dala á árinu 2024, eða á bilinu 6,9 til 20,6 milljörðum króna. Í kynningunni kemur einnig fram að Alovtech áformi að velta félagsins tvöfaldist milli 2024 og 2025 og geti þá náð yfir 100 milljarða króna.
Lækkað um fjóra Síma á viku
Veðmál fjárfesta nú er að það takist vel til við markaðssetningu Simlandi í Bandaríkjunum og að Alvotech nái að standa undir þeim væntingum sem gerðar eru til framleiðslugetu verksmiðju félagsins í Vatnsmýrinni.
Alvotech hefur verið verðmætasta fyrirtækið í íslensku Kauphöllinni undanfarin misseri. Markaðsvirði þess við lokun markaða þann dag sem uppgjör vegna ársins 2023 var birt var um 605 milljarðar króna. Svo virðist sem fjárfestar hafi ekki tekið nægilega vel í uppgjörið né þau áform sem Alvotech kynnti um framtíðina. Markaðsvirðið hefur lækkað verulega síðastliðna viku, og er nú í 507 milljörðum króna. Það þýðir næstum 100 milljarða króna lækkun á nokkrum dögum. Það er um fjórum sinnum heildarmarkaðsvirði Símans, verðmætasta fjarskiptafyrirtækisins í íslensku Kauphöllinni, og tæplega tvisvar sinnum markaðsvirði Festis, eins stærsta smásala á Íslandi.
Alls hefur virðið dalað um 20 prósent á einum mánuði, og þorri þeirrar lækkunar hefur komið fram á allra síðustu dögum. Þegar litið er lengra aftur, og til síðustu áramóta, lítur myndin þó betur út en virði bréfa félagsins eru rúmlega tíu prósent meira virði í dag en þá.
Aztiq og Alvogen með yfir 70 prósent hlut
Hluthafalisti Alvotech hefur ekki verið uppfærður á heimasíðu þess frá lokum árs 2022 þrátt fyrir að miklar og augljósar breytingar hafi verið gerðar á hluthafahópnum með hlutafjáraukningum. Fjárfestingafélagið Aztiq, sem nú heitir Flóki Invest, var stærsti eigandi Alvotech í lok þess árs. Það er að stórum hluta í eigu Róberts Wessman og hélt þá á næstum 41 prósenta hlut í Alvotech. Þar á eftir kom Alvogen, systurfélag Alvotech, með um 36 prósent, en Róbert á um þriðjung í því félagi. Þessi tvö félög voru langstærstu eigendur Alvotech. Alls áttu aðrir íslenskir fjárfestar um níu prósent í Alvotech á þeim tíma.
Í ársreikningum sem birtur var í kvöld kemur fram að hlutur Aztiq hafi verið 37,9 prósent og hlutur Alvogen 33,7 prósent um síðustu áramót. Eftirstandandi 28,4 prósent hlutur væri í eigu ýmissa en enginn einn úr þeim hópi ætti meira en 2,4 prósent eignarhlut.
Athugasemdir