Engin fjölskylda á Íslandi hefur farið varhluta af efnahagshremmingum undanfarinna missera. Verðbólgan hefur skert ráðstöfunartekjur og lækkað kaupmátt launa. Hlutir sem sjálfsagt var að veita sér fyrir fáum mánuðum eru orðnir að munaði. Vextir hafa hækkað og aukið verulega greiðslubyrði lána, sérstaklega hjá þeim sem nýlega hafa keypt sér húsnæði. Við vitum að lækkun verðbólgu er forgangshagsmunamál heimilanna. Ríkisstjórnin virðist hins vegar ekki á sömu blaðsíðu. Aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt sitt að mörkum. Verkalýðshreyfingin sýndi þá forsjálni að sætta sig við hóflegar launahækkanir í nýsamþykktum kjarasamningum – gegn því að komið væri til móts við þann hóp sem verst hefði komið út úr verðbólgu og háum vöxtum.
Ítrekaðar viðvaranir Viðreisnar
Frá því að verðbólga jókst hefur Viðreisn varað við því að skella allri ábyrgð um aðhald á þröngan hóp skuldsettra heimila. Að ekki ætti að láta þau bera stærstan part af kostnaði vegna vaxtahækkana sem voru meðal annars beinar afleiðingar útgjaldaaukningar ríkisins. Verkalýðshreyfingunni tókst að sannfæra stjórnvöld um ósanngirni hagstjórnar núverandi ríkisstjórnar. Samið var um verulega hækkun húsnæðisstuðnings. Það er gott. Ríkið tók á sig það verkefni.
Hóflegir kjarasamningar ættu að leiða af sér lægri verðbólgu og lækkun vaxta. Samt sem áður velur Seðlabankinn nú að halda vöxtum óbreyttum. Það gerir hann vegna þess að verðbólguvæntingar eru enn mjög háar. Hvers vegna höfðu kjarasamningarnir ekki nægileg áhrif á verðbólguvæntingar. Hvar er sambandsleysið? Seðlabankinn svaraði þessu að ákveðnu leyti og benti meðal annars á spennu í þjóðarbúinu og að aðgerðir í ríkisfjármálum gætu aukið eftirspurn og verðbólguþrýsting. Það er ekki vitnisburður um sterka efnahagsstjórn ríkisstjórnar.
Ríkisstjórnin verður að sýna á spilin
Viðreisn hefur fagnað nýsamþykktum kjarasamningum. Þeir eru mikilvægt skref. Viðreisn hefur hins vegar krafið ríkisstjórnina svara um hvernig eigi að fjármagna aðkomu ríkisins að kjarasamningunum. Þar á bæ hefur verið fátt um svör. Það liggur hins vegar á að ríkisstjórnin sýni á þau spil. Ef kjarasamningarnir eiga að leiða til lægri verðbólgu má ríkið ekki auka útgjöld á móti. Þess vegna skiptir öllu máli að útgjöld ríkisins vegna kjarasamninga séu fjármögnuð með hagræðingu í rekstri ríkisins.
„Ef kjarasamningarnir eiga að leiða til lægri verðbólgu má ríkið ekki auka útgjöld á móti.“
Núverandi ríkisstjórn hefur ekki staðið sig vel í að sýna aðhald. Raunar hefur báknið þanist út á valdatíma hennar. Þá er ekki átt við mennta- og heilbrigðiskerfið. Viðreisn vildi þess vegna fá skýr svör. Eðlilega. Ætlar ríkið að axla ábyrgð með aðilum vinnumarkaðarins eða ætlar það að halda áfram að láta reka á reiðanum? Væntingar Viðreisnar eru því miður hið síðarnefnda. Væntingar um háa verðbólgu og ákvörðun Seðlabankans um óbreytta vexti benda til að fleiri deili þeim áhyggjum. Þjóðin óttast þetta sinnuleysi ríkisstjórnar. Því miður bendir flest til þess að það sé rétt. En það má þó alltaf vona.
Höfundur er formaður Viðreisnar
Því er eina vopnið eftir, Seðlabankans að stjórna stýrivöxtum.
Sem ekki hefur nein áhrif á verðbólgu – nema til hækkunar verðlags og …
Hvernig stendur á því að þetta stjórnleysi viðgengs í okkar svokallaða lýðræðisríki?
Erum við virkilega svona spillt samfélag??