Ég sá færslu frá samfélagsrýni á ónefndum samfélagsmiðli um daginn sem er í eigu siðferðilega vafasams milljarðamærings. Ef eitthvað sem er ekki rekið í hagnaðarskyni mætti kalla hugsjón, þá er þessi miðill rekinn af stórkostlegri hugsjón. Þessi færsla var örstutt þjóðfélagshópagreining: Góða fólkið kýs Bashar en skortir kaupmátt, úthverfin kjósa Heru. Ég móðgaðist fyrir hönd góða fólksins, aðallega af því mig skortir kaupmátt. Hversu góð gæti ég orðið ef ég hefði bara meiri kaupmátt?!
Þessi samfélagsmiðill var kallaður bergmálshellir góða fólksins, og þar fékk skautun umræðunnar að grassera eins og svartmygla í Orkuveituhúsinu. Þar var góða fólkið kallað góða fólkið af vonda fólkinu og vonda fólkið kallaði sig vonda fólkið til að aðgreina sig frá góða fólkinu. Vonda fólkið er ekki bara vont og góða fólkið er ekki bara gott o.s.frv., þið vitið hvert ég er að fara með þetta.
„Vonda fólkið kvartar oft undan þöggun umræðunnar af góða fólkinu“
Góða fólkið var líka einu sinni kallað lattélepjandi lopatreflar. En í dag eru treflarnir hættir að drekka kaffi með mjólkurvörum. Treflarnir hafa líka styst töluvert, og eru nú hálsklútar svo þeir festist ekki í 12 gíra hjólakeðjunni. Vonda fólkið kvartar oft undan þöggun umræðunnar af góða fólkinu. Það megi ekki segja bara hvað sem er, hvernig sem þeim sýnist. Augljóslega veldur það skautun, að þeirra mati. Þessi umræða um þöggun fer ekki fram hjá neinum og fer oft fram í einræðu ræðumanns, oftar en ekki streymt í beinni og öllum aðgengilegt. Þar sem enginn getur þaggað niður í þér nema forseti Alþingis, eða auglýsingahléið í fréttatímanum. Eða skortur á nettengingu.
Ef þú átt erfitt með að finna þig í þessum hópum þá get ég sagt þér hver þú ert: Þú ert forsetaframbjóðandi. Sameiningartákn landsins, sem hefur bara gaman af Söngvakeppnum og vilt bara að við hættum að rífast. Og já, ég er líka að tala um þig, Ástþór, ég veit þú þráir ekkert heitar en frið, því ekki skortir þig kaupmáttinn.
Athugasemdir