Fyrir ári síðan var ég í Kaupmannahöfn og þurfti leigubíl til að komast á lestarstöðina. Það var í sjálfu sér einfalt, nema leigubílstjórinn átti í nokkrum erfiðleikum með samskipti jafnt á dönsku sem ensku. Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér í vikunni þegar undarlegar frásagnir af „prófum“ leigubílstjóra birtust í fjölmiðlum. Ráðherra málaflokksins neitaði ábyrgð og vísaði á undirstofnun ráðuneytisins, sem einnig neitaði ábyrgð og vísaði á þá sem héldu prófin umtöluðu. En eftir höfðinu dansa limirnir. Áhugi yfirvalda á fjölgun leigubílstjóra og breytingar á því regluverki sem um atvinnugreinina gildir hefur ekki farið fram hjá neinum. Hvort bílstjórar tala íslensku eða ekki var augljóslega ekki mikilvægur þáttur þessara breytinga. Þegar fjórði hver á vinnumarkaði er af erlendum uppruna blasir líka við að ef fjölga á fólki er alltaf auðveldast að leita út fyrir landsteinana eftir vinnuafli.
Eiríkur Rögnvaldsson mætir til leiks
Viðbrögðin við fréttunum voru fyrirsjáanleg. Íslenskir leigubílstjórar settu íslenska fánann í glugga bíla sinna og alþingismenn boða breytingar á lögum, vilja nú setja skilyrði um íslenskukunnáttu leigubílstjóra. Viðbrögðin við þessum fyrirætlunum þingmanna voru einnig fyrirsjáanleg. Eiríkur Rögnvaldsson var fljótur til svara, enda – að eigin sögn – beðið í angist eftir viðlíka tillögum. Í grein í Vísi (Stöðvum áform um misnotkun íslenskunnar!) tengir hann slíkar hugmyndir við útlendingaandúð. Rök Eiríks eru þau að með kröfum um íslenskukunnáttu leigubílstjóra sé fólki mismunað eftir uppruna, það skipti þjóðinni upp í okkur (góða Íslendinga) og hina (óæðri útlendinga). Eiríkur telur þessar tillögur ekki málefnalegar, heldur spretti þær af útlendingaandúð. Eiríkur spyr einnig hvað geri leigubílstjóra öðruvísi en starfsmenn í greinum á borð við verslun og þjónustu eða umönnun aldraðra, sem augljóslega byggjast á samskiptum við Íslendinga.
Málflutningur Eiríks stenst þó engan veginn skoðun. Málefnið er stærra en íslenskukunnátta leigubílstjóra og varðar stöðu íslenskunnar og málstefnu stjórnvalda almennt. Leigubílstjórar eiga sér talsmenn fáa, líkt og þeir megi ekki búa við öryggi og sæmileg kjör eins og aðrir. Eiríkur horfir fram hjá því að til að aka leigubíl þarf ákveðin réttindi sem stjórnvöld setja reglur um. Það er ekki ómálefnalegt að setja íslenskukunnáttu sem skilyrði fyrir slíkum réttindum, enda geti innflytjendur með námi uppfyllt slík skilyrði. Það hafa raunar fjölmargir þeirra gert.
Ýmis störf í samfélaginu krefjast kunnáttu og prófa af ýmsu tagi. Í því fellst ekki mismunun. Er það mismunun ef atvinnurekandi krefst enskukunnáttu í starfsauglýsingu? Stjórnvöld setja ekki reglur um almenna starfsmenn Krónunnar eða Grundar, þannig að Eiríkur er hér að blanda saman ólíkum hlutum. Krónan sjálf getur auðvitað sett skilyrði fyrir íslenskukunnáttu í ýmis störf, líkt og hótel gerir kröfur um tungumálakunnáttu í ýmis störf. Í þessu fellst ekki mismunun. Ég er viss um að fjölmargir landsmenn væru fylgjandi því að stjórnvöld settu reglur um íslenskukunnáttu fólks í þjónustustörfum, enda þreyttir á því geta ekki talað íslensku við öll tækifæri. Formaður Framsóknarflokksins tók undir hugmyndir af þessu tagi án þess að þær væru útfærðar sérstaklega.
Slíkar reglur eru augljóslega vandmeðfarnar, en kröfur um íslenskukunnáttu geta samt sem áður verið málefnalegar. Er það t.d. ómálefnalegt að gera kröfur um íslenskukunnáttu starfsmanna í leikskólum þar sem börn á máltökualdri eru? Slíkar kröfur eru að mínu áliti ekki ómálefnalegar, þó eflaust séu bæði rök með og á móti. Slíkar reglur eru því ekki sjálfkrafa mismunun og ranglátar. Ég verð því að ráðleggja Eiríki Rögnvaldssyni að reyna að yfirvinna angist sína, anda djúpt og ræða málin með málefnalegum hætti.
Atvinnulífið og íslenskan
Nú veit ég hver rök stjórnvalda um t.d. íslenskukunnáttu leikskólastarfsmanna væru. Þau myndu benda á að skortur væri á starfsfólki, einhver þyrfti að vinna störfin. Svipuð rök mætti eflaust færa um erlenda leigubílstjóra. Hér komum við að öðrum veikleika hugmynda Eiríks Rögnvaldssonar og margra frjálslyndra og vel meinandi vinstri manna. Fjöldi útlendinga á íslenskum vinnumarkaði er ekki náttúrulögmál, heldur afleiðing stefnu í efnahagsmálum og uppbyggingu atvinnulífs. Án þess að gera sér fyllilega grein fyrir því gengst Eiríkur undir forsendur frjálshyggjunnar um þessa hluti áður en hann ræðir um kröfur um íslenskukunnáttu sem sérstaka mismunun. Rekstur leigubíla er hér ágætt dæmi, enda er upphlaupið þessa dagana augljóslega tengt nýlegum breytingum á lögum um atvinnugreinina. „Afreglun“ starfseminnar hafði við núverandi aðstæður augljósa hættu á „afreglun“ íslenskunnar. Það er áhugaverð spurning hvers vegna ekki var hugað að þessum hlutum þegar lögunum um leigubílaakstur var breytt. Ég býst við því að áhugaleysi og hirðuleysi við íslenskuna liggi hér að baki, enda gamaldags að huga að slíkum gildum þegar auka á frelsi í atvinnugreininni.
Stefna stjórnvalda er sú að íslenska sé notuð „á öllum sviðum“ samfélagsins, en frá því að Alþingi tók upp þá stefnu árið 2008 og setti síðan lög um málið 2011 hefur staða íslenskunnar versnað á öllum sviðum. Ráðherrar á þessum tíma, ekki síst Katrín Jakobsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir, hafa þó reynt að rétta hlut íslenskunnar. Það er ekki við þær að sakast þó við blasi að stefnan hafi brugðist. Einn augljós galli stefnunnar er að forðast er að leggja kvaðir á nokkurn mann, allra síst atvinnulífið. Fáir hafa skyldur og afleiðingar engar ef gengið er gegn stefnunni. Það gleymist líka, sérstaklega þegar ráðherrar hvetja atvinnulífið til dáða, að lang stærsti atvinnurekandi landsins er ríkið sjálft.
Stjórnandi
Top Contributor
Þessi grein byggist því miður á misskilningi eða útúrsnúningi á því sem ég skrifaði. Ég hef aldrei sagst vera á móti kröfum um íslenskukunnáttu leigubílstjóra og hef áður sagt að það geti oft verið málefnalegt að gera kröfur um íslenskukunnáttu í ýmsum störfum. En slíkar kröfur verða að byggjast á málefnalegum forsendum. Í frétt Morgunblaðsins af frumvarpinu er vísað til óánægju með erlenda leigubílstjóra vegna þess að þeir rati ekki og krefjist of hás gjalds. Þau atriði varða ekki íslenskukunnáttu og þess vegna er augljóst að þarna er verið að nota íslenskuna sem yfirvarp.
https://www.visir.is/g/20242544279d/forsendur-krafna-um-islenskukunnattu
Hvað eru margir erlendir bílstjórar harkarar? Það eru leigubílstjórarnir sjálfir sem "ráða" harkara í vinnu? Þú talar um íslenska leigubílstjóra sem einhver fórnarlömb en ef þeir sjálfir eru að ráða erlenda leigubílstjóra eru þeir þá ekki sjálfum sér verstir?