Kvika banki hefur tekið tilboði Landsbankans, sem er í eigu íslenska ríkisins, í allt hlutafé TM trygginga hf., eins af fjórum stórum tryggingafélögum landsins. Landsbankinn greiðir 28,6 milljarða króna samkvæmt tilboðinu fyrir og fer greiðslan fram með reiðufé. Það 1,8 milljarði króna yfir bókfærðu virði TM í bókum Kviku í lok síðasta árs.
Endanlegt kaupverð mun þó verða aðlagað að efnislegu eigin fé TM í upphafi árs 2024 til afhendingardags. Samkvæmt rekstrarspá á hagnaður tryggingafélagsins að verða rúmlega þrír milljarðar króna í ár.
Næstu skref eru að ljúka endanlegri áreiðanleikakönnun og undirrita kaupsamning milli bankanna um kaup og sölu 100 prósent hlutafjár TM eins fljótt og auðið er, með hefðbundnum fyrirvörum, svo sem samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitsins.
Gerir Landsbankann verðmætari
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir í tilkynningu að með því að bæta tryggingarekstri við starfsemi bankans geti hann boðið viðskiptavinum sínum enn betri og fjölbreyttari þjónustu. „Kaup á TM er góð fjárfesting sem styrkir rekstur bankans og gerir hann verðmætari til framtíðar, enda er TM traust tryggingafélag með gott og reynslumikið starfsfólk."
Helga Björk Eiríksdóttir, sem er að fara að hætta sem formaður bankaráðs Landsbankans, segir á sama stað að bankinn starfi á samkeppnismarkaði og það skipti verulegu máli að Landsbankinn sé áfram verðmæt eign fyrir hluthafa. „Í því felst m.a. að meta og sækja tækifæri á fjármálamarkaði til að viðhalda og auka verðmæti bankans. Bankaráð og stjórnendur hafa um nokkurt skeið skoðað kosti þess að bæta tryggingum við fjölbreytta þjónustu bankans, enda fer tryggingastarfsemi og rekstur á stórum viðskiptabanka vel saman. Við teljum að með kaupum á TM muni bæði félögin eflast og styrkjast.“
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, segist vera mjög ánægður með að hægt sé að ganga að kauptilboði Landsbankans með það að markmiði að ljúka sölunni. „Ef ferlið leiðir til undirritunar kaupsamnings verður það til hagsbóta fyrir alla aðila, Kviku, Landsbankann og TM, viðskiptavini þeirra, hluthafa og aðra hagaðila. Ég hef fulla trú á því að TM, sem er vel rekið og verðmætt tryggingafélag með öflugan mannauð, muni áfram veita viðskiptavinum sínum framúrskarandi þjónustu og vaxa enn frekar með nýju eignarhaldi.“
Mbl.is birti frétt í byrjun síðasta mánaðar um viðtal sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, fór í hjá hlaðvarpinu Þjóðmálum, sem stýrt er af fréttastjóra viðskipta hjá Morgunblaðinu. Í fréttinni sagði að Þórdísi, sem er líka varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ein þeirra sem þykir líklegust til að sækjast eftir að leiða flokkinn þegar Bjarni Benediktsson hættir, hugnist ekki að ríkisbankinn eignist TM.
Sameinuðu en brutu upp þremur árum síðar
Greint var frá því í fyrrahaust að Kvika banki vildi selja TM. Skrefið vakti athygli í ljósi þess að Kvika, TM og eignarleigufyrirtækið Lykill voru sameinuð vorið 2021. Þá var haft eftir Marinó Erni Tryggvasyni, þáverandi forstjóra sameinaðs félags, sem starfaði undir Kviku-nafninu, að með sameiningunni yrði til eitt áhugaverðasta fyrirtæki landsins. Sameinað félag verður meðal verðmætustu fyrirtækja í Kauphöll, enda um einn stærsta samruna síðustu ára að ræða.“ Þremur árum síðar er búið að taka ákvörðun um að brjóta sameinaða félagið upp. Í desember var greint frá því að fjórir aðilar væru komnir áfram í söluferlinu. Nokkuð ljóst var að Arion banki væri ekki þar á meðal, þar sem hann á þegar tryggingafélagið Vörð. Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar voru því bankarnir tveir sem ríkið á hlut í Íslandsbanki og Landsbankinn, að slást við tvö sterkustu útgerðarveldi landsins, Samherjasamstæðuna og Ísfélagsfjölskylduna, um að fá að kaupa TM. Nú liggur fyrir hver vann þann slag.
Kvika banki sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun í upphafi árs þar sem fram kom að afkoma bankans á síðasta ársfjórðungi hefði ekki verið „í samræmi við áætlun stjórnenda“. Hagnaður samstæðunnar var fjórir milljarðar króna í fyrra og lækkaði um 18 prósent milli ára. Arðsemi eigin fjár lækkaði líka og var 12,1 prósent fyrir skatta. Næstum helmingur hagnaðarins kom úr rekstri TM, en hagnaður tryggingafélagsins var 1,7 milljarðar króna og jókst um 209 prósent milli ára. Hlutabréf í Kviku hafa lækkað um 13,3 prósent það sem af er árinu 2024 og heildarmarkaðsvirði samstæðunnar var um 70 milljarðar króna í lok síðustu viku. Miðað við birt kaupverð þá er verið að selja burt rúmlega 40 prósent af samstæðunni.
Ríkisbankinn á eigið fé upp á 304 milljarða króna
Landsbankinn hagnaðist um 33,2 milljarða króna á síðasta ári og ætlar að greiða um helming þess hagnaðar, alls 16,5 milljarða króna, út í arð til hluthafa bankans, sem að uppistöðu íslenska ríkið. Hagnaðurinn er mun skaplegri en á árinu 2022 þegar bankinn hagnaðist um 17 milljarða króna. Arðsemi eiginfjár fór úr því að vera 6,3 prósent árið 2022 í 11,6 prósent á síðasta ári.
Viðsnúningurinn á árinu 2023 felst aðallega í því að gangvirði hlutabréfaeignar hans hækkaði mikið, en Landsbankinn á miklu meira af hlutabréfum en hinir tveir stóru bankarnir.
Í fyrra hagnaðist bankinn um 6,7 milljarða króna vegna þessarar hlutabréfaeignar eftir að hafa tapað átta milljörðum krónum á henni árið 2022. Stærsta hlutabréfastaðan er í Eyri Invest, stærsta eiganda Marel. Bankinn á 14,1 prósent í Eyri sem á 24,7 prósent í Marel.
Á árinu 2022 bókfærði Landsbankinn 10,5 milljarða króna rekstrartap vegna lækkunar á bréfum í Marel en á síðasta ári bókfærði hann 1,1 milljarða króna hagnað vegna hækkunar á sömu bréfum.
Mestur var viðsnúningurinn á fjórða ársfjórðungi, samhliða því að miklar og opinberar erjur áttu sér stað um eignarhaldið á Marel. Þær erjur leiddu til þess að bandaríska fyrirtækið JBT gerði mögulegt yfirtökutilboð í Marel á gengi sem er mun hærra en skráð markaðsgengi Marel var. Fyrir vikið hækkaði skráð gengi Marel um 18,5 prósent á síðustu þremur mánuðum ársins og hagnaður Landsbankans á þeim ársfjórðungi var 10,8 milljarðar króna.
Eignir Landsbankans voru 1.961 milljarðar króna um síðustu áramót og efnahagsreikningurinn stækkaði um 9,7 prósent á árinu 2023. Eigið fé bankans var 303,7 milljarðar króna í lok síðasta árs og eiginfjárhlutfallið 23,6 prósent.
Athugasemdir (3)