Samningsstaða leigjenda gagnvart leigusölum versnaði í fyrra samanborið við árið 2022. Í nýlegri tilkynningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) segir að leigjendur sem töldu sig vera í sterkri samningsstöðu gagnvart leigusala hafi fækkað um 20 prósent.
Árið 2022 töldu 50 prósent leigjenda sig vera í sterkri samningsstöðu, en ári seinna hafði þeim fækkað niður í 30 prósent. Mælingin byggir á spurningakönnun sem lögð hefur verið fyrir leigjendur á hverju ári síðan 2015.
Markaðsrannsóknarfyrirtækið Prósent framkvæmir könnunina þar sem leigjendur eru meðal annars spurðir um bakgrunn, fjárhag og viðhorf sín til leigumarkaðarins.
Þróunin leggst þyngst á fjölskyldufólk
Þá kemur einnig fram í tilkynningunni að framboð á hentugu húsnæði hafi lækkað samfellt frá árinu 2020 og hafi frá upphafi mælinga aldrei mælst jafn lítið. Milli ára hækkaði meðalleiguverð um 9,2 prósent.
Þessi samdráttur í framboði kemur verst niður á fólki sem er á aldrinum 35 til 44 ára. Sá hópur lýsir hröðum leiguverðshækkunum og umtalsverðum samdrætti í framboði á húsnæði. Yfir helmingur leigjenda úr þessum hópi lýsti erfiðleikum með að verða sér úti um húsnæði, samanborið við 46 prósent árið 2022.
Hærra verð og þrengri húsakostur
Árið 2022 var meðalfjárhæðin sem þessi hópur greiddi í leigu um 180.000 krónur á mánuði. Ári síðar hafði sú fjárhæð hækkað um 30.000 krónur – eða upp í ríflega 210.000 krónur á mánuði.
Þá kemur einnig fram í tilkynningunni að samfara verðhækkunum í leigu bendi leigukönnun HMS til þess húsakostur hafi einnig versnað milli ára.
Hjá aldurshópnum 35 til 44 ára fækkaði þeim sem búa í húsnæði sem er stærra en 100 fermetrar um sjö prósent milli áranna 2022 og 2023. Það er úr 42 prósentum niður í 35 prósent. Þá fjölgaði einnig meðalfjölda íbúa á heimili þessa hóps úr 2,2 íbúum í 2,8.
Arðsemiskröfur leigusala bornar saman við kröfur fjárfesta
Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna, segir í aðsendri grein sem birt var á Vísi í morgun að staðan væri óboðleg.
Í greininni ber hann saman arðsemiskröfur leigusala og fjárfesta á almennum hlutabréfamarkaði og heldur því fram að kröfur leigusala sé um tífalt hærri en þeirra sem fjárfesta í fyrirtækjum og sjóðum hér á landi.
„Arðsemi af útleigu leiguhúsnæðis í formi leigugreiðslna hefur undnafarin ár verið á bilinu 6-7% af virði húsnæðis, á meðan að arðsemi af fjárfestingunum í hlutabréfum hefur verið í kringum 0.4 - 0.7% af virði þeirra.“
Í grein sinni veltir Guðmundur Hrafn fyrir sér afhverju arðsemiskröfur leigusala fái að viðgangast í samfélaginu, og telur að enga réttlætingu sé að finna fyrir tíðum verðhækkunum leigusala sem leggist þungt á fjölskyldufólk.
Hann telur að athæfið megi fyrst og fremst rekja til siðleysis leigusala og normalíseringu á framferði þeirra hjá stjórnvöldum.
„Því miður hafa þeir sér til haldreipis og hvatningar ýmsa „málsmetandi” aðila, bæði innan stjórnvalda og hagsmunasamtaka fjármagnsins sem sefa allar efasemdir um eigið siðferði.“
Í pistlinum segir Guðmundur Hrafn að nú sé mál að linni, vinda þurfi ofan af þessari þróun sem hann telur vera komin út fyrir öll velsæmismörk. Hann hvetur fólk á leigumarkaði til þess að skrá sig í Leigjendasamtökin.
En þetta er skipulagsyfirvöldum, ríki og sveitarfélögum að kenna ... ekki fégráðugum byggingaraðilum eða fjárfestum að kenna. Reglurnar eru ekki settar af þeim... heldur Alþingi og yfirvöldum.