„I'm gonna let you loose now,“ sagði okkar síhressi Siggi Gunnars, einn glaðlyndasti maður landsins, við Bashar Murad þar sem hann stóð í losti eftir að hafa heyrt að hann væri annar tveggja sem kæmu til greina fyrir Íslands hönd á sviðinu í Eurovision-keppninni í maí, hingað kominn frá Palestínu.
Klofningurinn var áþreifanlegur, þennan dag sem kvikuhlaup rann gegnum Reykjanesið án þess að ná til yfirborðsins.
Það kom nefnilega til greina að senda palestínskan söngvara fyrir Íslands hönd í mesta menningarviðburð ársins: Eurovision-söngvakeppnina. Færi svo hefði það verið í annað skiptið á fimm árum, síðan Hatari sendi fyrirboða að hatrið myndi sigra, sem Ísland nýtti menningarviðburðinn til að lýsa afstöðu með Palestínu gegn yfirgangi Ísraels.
Frétt birt fjórum tímum fyrir keppni
Skjálftavirknin hófst um miðjan daginn. Höfuðvígi þeirra sem þola ekki „góða fólkið“, Morgunblaðið, birti grein á mest lesna fréttavef landsins efnislega um að Bashar Murad hefði fengið óeðlilega aðstoð þegar framkvæmdastjóri söngvakeppninnar studdi umsókn hans um dvalarleyfi á meðan keppninni stæði, svo hann gæti klárað keppnina. Fréttin var birt fjórum klukkustundum áður en söngvakeppnin hófst og endaði á orðunum: „Úrslit Söngvakeppninnar hefjast í kvöld klukkan 19.45.“
Aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi liðsmaður í kosningateymi Sjálfstæðisflokksins, Andrés Magnússon, deildi fréttinni af miðlinum sínum í hneykslunartón: „Þetta er með ólíkindum. Öðrum keppendum hlýtur að líða eins og statistum í einhverju leikriti sem þeim var ekki sagt frá,“ sagði hann.
Einhver sakaði RÚV um „ofbeldi“, annar sagði þetta „ógeðfellt“ og fyrrverandi dóms- og menntamálaráðherra úr Sjálfstæðisflokknum, Björn Bjarnason, gerði það sama á sinni Facebook-síðu. „Ríkisútvarpið er einsdæmi. Hver annar gæti þetta?“
Þannig varð kosning á milli Bashars Murad og söngkonunnar Heru Bjarkar í úrslitum forkeppni Eurovision um leið kosning um útlendingamál á Íslandi og utanríkisstefnu Íslands.
Hvað höfum við gert?
Það verður að segjast að íslenska þjóðríkið hefur gert lítið til að hjálpa fólkinu í Palestínu og eftirlátið óbreyttum borgurum að færa fram lágmarksframlag á tíma þar sem stöðug eyðilegging er sýnilega leidd yfir heila þjóð frammi fyrir allra augum.
Öldungadeild írska þingsins samþykkti í síðustu viku ályktun um að setja viðskiptaþvinganir á Ísrael vegna fjöldadráps á almennum borgurum í Palestínu. Íslensku stjórnmálamennirnir hafa ekki gert margt; með virkri vanrækslu lengst af komið í veg fyrir fullnustu ákvörðunar um að bjarga fjölskyldumeðlimum Palestínufólks hér á landi. Leiðirnar í boði fyrir Íslendinga til að taka einhverja afstöðu voru því að mótmæla eða nota viðburð eins og Eurovision til þess að senda skilaboð.
Það hefur sjaldan verið mikilvægara að senda skilaboð. Raunar hefur bein áhrif að gera það ekki. Með afstöðuleysi gagnvart framferði Ísraela eru Vesturlönd búin að staðfesta í þágu Rússa, Kínverja og fleiri einræðis eða fáræðisríkja að þau séu hræsnarar. Þannig verður til óbein réttlæting á innrás í Úkraínu og síðar í Taívan, að minnsta kosti.
Heimurinn er að þróast í hættulega átt. Eins og hatrið sé hreinlega að sigra. Bandaríkin hafa hætt að styðja Úkraínu vegna andstöðu trumpista. Rússar náðu að yfirbuga Úkraínumenn í Avdiivka og halda áfram, fram hjá veikum vörnum vestan borgarinnar. Donald Trump stefnir hraðbyri í að komast aftur til valda. Hæstiréttur - sem hann skipaði þriðjung dómara í - tekur fyrir hvort hann eigi að njóta friðhelgi gegn ákærum um að hvetja til uppreisnar og innrásar í þinghús þessa vestræna lýðræðisríkis sem er potturinn og pannan í varnarstefnu Íslands. Allt í einu gæti óöryggi heimsins gert sig heimakomið hjá okkur.
Viðrar vel til loftárása
Við lifum á tímum loftárása. Þar sem Rússar hafa komist upp með að mylja úkraínskar borgir í nafni þjóðernishyggju og stöðugra lyga síðustu tvö ár. Ísraelar hafa í fjóra mánuði sprengt aflokað landsvæði með hjálp gervigreindar sem metur ásættanlegan dauða.
Í söngvakeppninni ríktu samtímis tvær víddir. Bashar Murad sleppti öllum skilaboðum í laginu sem hann flutti, Wild West, sem gæti þó óbeint vísað til þess að vesturlönd eru villt, týnd. Enda eru pólitísk skilaboð bönnuð í keppninni. Hann fékk hins vegar að syngja brot úr lagi Bríetar, Rólegur kúreki, með undirliggjandi, víbrandi merkingu í setningunni: „Hættu að skjóta mig niður.“
Eurovision-keppnin er með skyldubundið afstöðuleysi. Þegar hlustað er á texta laganna í ár í samhengi við undirliggjandi átökin um keppnina og virkt afstöðuleysi hennar gagnvart stórfelldri manngerðri mannlegri þjáningu og eyðileggingu, virkar afstöðuleysið hins vegar stundum eins og absúrd list.
Ung og efnileg söngkona, Sigga Ózk, söng nýjan, enskan texta um að það væri góð orka í andrúmsloftinu. „Fallandi niður þúsund sinnum,“ var engin tilvísun í loftárásir, þótt það hefði geta gefið þau hughrif og síðan einhvers konar ómeðvitaðan afmyndaðan spéspegil með klifun á sönglínunni: „Góð orka inn í andrúmsloftið“.
Kannski eins og lag Sigur Rósar vann meðvitað með absúrdisma í Viðrar vel til loftárása.
Orð Siggu í viðtali við Sigga Gunnars virtust svo heilsteypt en um leið firring í samhenginu við raunveruleika Palestínu og fleiri vandamál heimsins sem eru ekki valkvæð. „Þegar maður vaknar á morgnana þarf maður að ákveða hvort maður fer jákvæðu leiðina eða neikvæðu leiðina,“ sagði hún. Þessi lífsspeki getur forðað fólki frá sálrænu tjóni, þótt jákvæða leiðin sé ekki öllum jafnfær. Eftir allt saman getum við ekki gert neitt eða sagt við öllum þessum illvirkjum úti í heimi. Eða hvað? Nokkrar íslenskar konur keyptu sér flug til Egyptalands og sóttu hreinlega palestínskt fjölskyldufólk sem utanríkisráðuneytið hafði í virkri vangetu ekki sótt. Við þurfum að greina á milli þess sem við getum breytt og þess sem við getum ekki breytt. En hefur nokkurn tímann verið auðveldara að láta í sér heyra?
Afstæðishyggja
Eins og til að undirstrika ágæti valkvæðrar heimsmyndar, sem fellur undir afstæðishyggju eða póstmódernisma í heimspekinni, sungu ungu strákarnir í VÆB, með sólgleraugun inni um vetur, að líf þeirra væri bíómynd og að þeir myndu gera það sem þeir vilja.
Hæfileikarík flugfreyja, Aníta, söng um hrap, í nýja enska textanum „Downfall“, sem um leið er enski titillinn á bíómyndinni Untergang um síðustu daga Hitlers í byrginu. „Engill eða djöful, mér er sama,“ söng hún, en bætti svo við: „Farðu með mig hvert sem er, þegar þú syngur nafn mitt heyri ég í himnaríki.“
Kannski var það vonin, að ef við sendum Palestínumann á stóra sviðið myndi allt palestínskt fólk heyra um stund að ekki væri öllum sama. En mögulega er á endanum stóri listræni ávinningurinn af framlagi Bashars Murad í keppninni afhjúpun absúrdisma afstöðuleysisins, eins og Silvía Nótt reyndi að sýna absúrdisma keppninnar á sínum tíma.
Lofthræðsla
Og á endanum. Hera Björk, sem hefur tekið þátt í söngvakeppnum allt frá Danmörku til Chile í áraraðir, og lenti í 20. sæti fyrir Íslands hönd árið 2010, en nú með lagið sem kallaðist á við Fallið og Góðu orkuna í andrúmsloftinu: Scared of Heights, eða „Lofthrædd“.
„Vonandi Hera“, sagði hver á fætur öðrum undir deilingu RÚV með spurningu um hvort þeirra myndi vinna, Hera eða Bashar Murad. Undir frétt mbl.is var hinn keppandinn meðal annars kallaður „geitahirðir“.
Brotalínur menningarstríðsins lágu nefnilega beint í gegnum Eurovision-söngvakeppnina í ár. Þegar Hera vann tapaði „Góða fólkið“, fólkið sem vill í sífellu taka afstöðu. Eins og einhver sagði: „Þjóðin vann og RÚV tapaði“.
Á barmi vonar
„Góða fólkið“ (sem er víst metið óæskilegt) var svo nálægt því að fá heimsfréttina, yfirlýsinguna frá Íslandi um að palestínskur söngvari kæmi fram fyrir hönd þjóðarinnar í Eurovision, sem táknmynd ögrunar og andstöðu við samþykkt dráp og eyðileggingu Ísraelshers síðustu mánuði.
Eftir sigurinn söng Hera, sýnilega springandi af gleði, í laginu um lofthræðsluna sem fjallar í reynd um óttann við ástina:
„Look how far we've made it,
standing on the edge of a promise.
I'm not one to take risks.“
Sem hljómaði svo eins og söngur frá himnaríki:
„Baby I'm wondering...“
„We could end up in pieces.“
„I feel it coming.“
Því var áður spáð að hatrið myndi sigra, en það var í ár sem hræðslan við að sýna kærleika sigraði.
Einhver var ekki nógu klár í svikunum👿