Sviplegt andlát rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalny í síðustu viku vakti hörð viðbrögð vestrænna leiðtoga. Fremstur í flokki fór Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. „Pútín ber ábyrgð á dauða Navalny,“ fullyrti Biden og kvaðst íhuga „hinar ýmsu“ refsiaðgerðir gegn Rússlandi. Ben Cardin, formaður utanríkismálanefndar öldungadeildar bandaríska þingsins, brýndi fyrir alþjóðasamfélaginu nauðsyn þess að „sýna samstöðu með þeim sem berjast fyrir lýðræði og mannréttindum“. Hann sagði okkur ekki mega „bregðast þeirri sameiginlegu skyldu að draga til ábyrgðar þá sem reyna að kæfa mótmælaraddir með ofbeldi og kúgun“.
„Á sama tíma og leiðtogar hins frjálsa heims kepptust við að fordæma meðferð hinnar rússnesku alræðisstjórnar á Navalny sáu þeir ekki bjálkann í eigin auga.“
Navalny lést í fangelsi í Síberíu. Í Rússlandi var hann útmálaður hryðjuverkamaður. Á Vesturlöndum var hann hins vegar álitinn fórnarlamb pólitískra ofsókna stjórnvalda sem beita öllum ráðum við að kveða í kútinn lýðræðisþróun og borgaraleg réttindi. En á sama tíma og leiðtogar hins frjálsa heims kepptust við að fordæma meðferð hinnar rússnesku alræðisstjórnar á Navalny sáu þeir ekki bjálkann í eigin auga.
Hryðjuverkamaður eða blaðamaður?
Heitan júlídag í Bagdad árið 2007 fóru systkinin Duah, fjögurra ára, og Sajad, tólf ára, með pabba sínum í heimsókn til ættingja. Á leiðinni heim óku þau fram á mann sem skreið særður eftir götunni. Pabbi þeirra stöðvaði bílinn og stökk út til að koma manninum til aðstoðar.
Maðurinn sem faðir barnanna reyndi að bjarga var Saeed Chmagh, starfsmaður fréttastofu Reuters. Hann var einn af sjö almennum borgurum og blaðamönnum sem höfðu stuttu fyrr orðið fyrir kúlnaregni þyrlu bandaríska hersins.
Pabbi Duah og Sajad hafði ekki fyrr stigið út úr bifreiðinni en byssukúlum tók að rigna yfir hann. Hann lést er hann reyndi að hjálpa hinum særða inn í bíl sinn. Duah og Sajad slösuðust lífshættulega þar sem þau sátu og biðu eftir föður sínum í framsætinu.
Þótt margir telji dráp bandaríska hersins á almennum borgurum og blaðamönnum í Bagdad 12. júlí 2007 flokkast til stríðsglæps hefur enginn verið sóttur til saka. Öðru máli gegnir hins vegar um manninn sem upplýsti um verknaðinn.
„Hver er næstur?“
Upp komst um árásina þegar myndbandsupptaka var birt af henni á vefmiðlinum Wikileaks árið 2010. Í vikunni tók hæstiréttur Bretlands fyrir mál Julian Assange, stofnanda Wikileaks, sem berst nú gegn því að verða framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann hefur verið ákærður fyrir að brjóta gegn njósnalöggjöf landsins með birtingu trúnaðargagna.
Joe Biden segir Assange „hátækni-hryðjuverkamann“. Stuðningsmenn Assange segja hann þvert á móti blaðamann og útgefanda og sem slíkur eigi hann að njóta verndar fyrsta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar um tjáningar- og prentfrelsi en ekki sæta pólitískum ofsóknum af hálfu stjórnvalda.
Hræsni Biden og Bjarna
Í síðasta tölublaði Heimildarinnar greindi Þórður Snær Júlíusson, annar ritstjóra blaðsins, frá því að tvö ár væru liðin frá því að fjórir blaðamenn, hann þeirra á meðal, fengu stöðu sakbornings í rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra í kjölfar umfjöllunar um svokallaða „skæruliðadeild“ Samherja.
Orð sem Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, skrifaði á Facebook í kjölfar ákvörðunarinnar vöktu athygli. Formaður flokks sem gjarnan kennir sig við frelsi virtist gefa lítið fyrir fjölmiðlafrelsi og spurði háðslega hvort „fjölmiðlamenn séu of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu?“
Við andlát Alexeis Navalny endurómaði Bjarni Benediktsson, nú í hlutverki utanríkisráðherra, orð Joe Biden. „Pútín og rússnesk stjórnvöld bera ábyrgð á dauða hans,“ skrifaði Bjarni á samfélagsmiðilinn X.
Hann er holur hljómurinn í fordæmingu Biden og Bjarna sem „sýna samstöðu með þeim sem berjast fyrir lýðræði og mannréttindum“ í öðrum löndum á sama tíma og þeir kæra sig kollótta um borgararéttindin í bakgarðinum heima hjá sér.
Óhæfuverk í fjarlægu alræðisríki vekur augljósa hneykslun. Þegar flísast úr frelsinu heima fyrir eigum við hins vegar til að yppa öxlum og „bregðast þeirri sameiginlegu skyldu að draga til ábyrgðar þá sem reyna að kæfa mótmælaraddir með ofbeldi og kúgun“.
Umræða um fjölmiðlafrelsi kann að virðast mörgum leiðigjarnt bransa-þras, einkasamtal blaðamanna um eigið starfsumhverfi. Sú er þó ekki raunin – ekki frekar en lýðræði í Rússlandi er einkamál stjórnmálamanna.
Fyrir utan rússneska sendiráðið í London hangir mótmælaplakat með mynd af Navalny þakið rauðri málningu sem líkist blóðslettum. Á plakatinu er spurt: Hver er næstur?
Spurningin varðar okkur öll.
Takk fyrir góða grein. Nei það verður seint of mikið af kvörtunum um hindranir blaðamanna, þessara einu virku eftirlitsaðila,,líðræðisins" Svei sé rophænum Mammons.
coalition countries in Iraq invasion, Island lagdi til Flutingavel. Þetta var altt Hugaliji Engin Gjöreiðingavopn hafa fundist nu 2024 Rikistjorn Iraq will Reka Her USA ur landinu
USA hefur Aldrey verið ovinsælli i Arabaheiminum en i dag. Rikistjorn Islands hefur ekkert gert til að Hjalp Julian Assange eða reynt að hlutast til um að Lifi hans verði ÞIRMT. Eg er Hissa a Bretum að lata USA teyma sig a Asnaeyrum og fremja GLÆP með að Kreista ur Julian Assange liftoruna. Sagt hefur verið að VAGGA LYÐRÆÐISINS se i Bretlandi. USA og RUSSLAND eru a sömu Braut kvað LYÐRÆÐI varðar. Engin munur þar a. Alexeis Navalny og Julian Assange eru HETJUUR HEIMSINS Þeir ættu að fa Legstað i
Père Lachaise Cemetery, Paris, France þar kvila 2 menn sem ofsottir voru kver i sinu landi Oscar Wilde i Bretlandi .Og Jim Morrison i USA. Su mikla umferð sem er að Gröfum þeirra i Dag mindi þa MARGFALDAST.