Mikið álag er á innviði okkar þessa dagana. Við getum tengt innviði við eitthvað sem þarf að vera burðugt og aðgengilegt. Við viljum geta treyst á sterka félagslega og stofnanainnviði og lífsgæði okkar eru þeim mikið háð. Sterkir samfélagslegir innviðir auðga velferð okkar allra, líka þeirra sem beinlínis eru á móti tilvist þeirra. Eins og almenn bólusetning. Til að koma í veg fyrir faraldur inflúensu er okkur boðið upp á almenna bólusetningu. Þar með minnka líkurnar á því að þeir sem ekki vilja bólusetningu smitist. Velferð þeirra óbólusettu verður fyrir jákvæðum áhrifum vegna notkunar hinna bólusettu á innviðum almannagæða.
Þegar innviðir bresta á samfélagið að geta treyst því að farið verði í átak til að byggja þá upp. Kerfisbundin og vísvitandi sveltistefna ríkisstjórnarinnar hefur orðið til þess að innviðir eru nú brostnir. Í stað uppbyggingar berst nú ákveðnum hópum samfélagsins hátíðnihljóð. Hátíðnihljóð stjórnmálamanna sem grípa um hundaflautuna með báðum höndum og blása ákaft í hana. Þeir breyta orðræðu sinni örlítið og senda út skilaboð sem ala á hatri. Hatri gegn minnihlutahópum, hatri gegn fólki á flótta undan stríði, hatri gegn fólki frá öðrum menningarheimum.
„Þau eru við og við erum þau“
Innviðir eru að rotna og sumir stjórnmálamenn ala á hatri. Í frumvarpi um „móttökubúðir flóttamanna“, sem eru eins og fangabúðir, kemur fram að stinga megi öllum umsækjendum um alþjóðlega vernd í þessar búðir. Hundaflautustjórnmálamenn hunsa því annaðhvort viljandi eða af vítaverðri vanþekkingu þá staðreynd að umsækjendur um alþjóðlega vernd eru burðarliður en ekki byrði í innviðum og auka almannagæði okkar. Atvinnuþátttaka þeirra sem fengið hafa atvinnuleyfi er mikil, þau skúra gólf innviðina, þau hjúkra öldruðum, þau byggja húsin okkar, brýr og vegi. Atvinnuþátttaka þeirra er almenn bólusetning okkar og almannagæði. Burðarliður innviða. Þau eru við og við erum þau.
Athugasemdir